"NEI, ég átti nú ekki von á þessu, þetta kom mér verulega á óvart," sagði Manúela Ósk Harðardóttir, sem náði öðru sæti í keppninni um Ungfrú Norðurlönd, sem fram fór rétt fyrir utan Helsinki í Finnlandi í gær.
"NEI, ég átti nú ekki von á þessu, þetta kom mér verulega á óvart," sagði Manúela Ósk Harðardóttir, sem náði öðru sæti í keppninni um Ungfrú Norðurlönd, sem fram fór rétt fyrir utan Helsinki í Finnlandi í gær. Sigurvegarinn var stúlka frá Noregi. Manúela var kjörin Ungfrú Ísland sl. vor. "Ég kom til Finnlands fyrir rúmri viku og við höfum verið á flakki og haldið tískusýningar. Þetta hefur verið rosalega erfitt og alveg nóg að gera," segir Manúela. "Ég er vissulega mjög stolt af því að hafa náð þessum áfanga því ég er búin að vinna hart að þessu." Manúela er ekki búin að gera upp við sig hvort hún reyni fyrir sér í fyrirsætuheiminum, námið í MR gangi fyrir. "Það er mjög gott að fá þessa reynslu og hún á eftir að nýtast mér mjög vel í keppninni um Ungfrú alheim í vor."