SJEIK, setla og senuþjófur eru dæmi um orð í nýrri Íslenskri orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar. 1.637 eintök höfðu selst í forsölu á útgáfudegi bókarinnar í gær.
Af öðrum orðum er hægt að nefna orðið sjitt og er því fylgt úr hlaði með tveimur spurningarmerkjum. Orðið er sagt lýsa óánægju, vanþóknun. Bæði orðin bögg og bögga eru í bókinni og er tekið fram að um slangur sé að ræða. Bögg er sagt merkja áreitni, ónæði. Að bögga er sagt þýða að vera með leiðindi við, trufla. Dæmi: vertu ekki að bögga mig alltaf með þessari dellu. Í S-unum má finna orð eins og sambýlissveppur, samóvar, servera og senter. Samansúrraður þýðir samkvæmt bókinni fastbundinn, rígskorðaður, fastheldinn. Dæmi: málverkið var of klassískt og samansúrrað fyrir mig/samansúrraður nirfill.