Þóra Guðmundsdóttir og Arngrímur Jóhannsson fagna Magnúsi Þorsteinssyni sem nýjum meðeiganda sínum í Atlanta eftir undirritun samninga.
Þóra Guðmundsdóttir og Arngrímur Jóhannsson fagna Magnúsi Þorsteinssyni sem nýjum meðeiganda sínum í Atlanta eftir undirritun samninga.
MAGNÚS Þorsteinsson hefur ásamt hópi fjárfesta keypt um 50% hlut í Flugfélaginu Atlanta. Hefur hópurinn keypt hlut Búnaðarbanka Íslands, sem var 22,73%, auk þess sem hann leggur viðbótarhlutafé í fyrirtækið.

MAGNÚS Þorsteinsson hefur ásamt hópi fjárfesta keypt um 50% hlut í Flugfélaginu Atlanta. Hefur hópurinn keypt hlut Búnaðarbanka Íslands, sem var 22,73%, auk þess sem hann leggur viðbótarhlutafé í fyrirtækið. Arngrímur Jóhannsson, stjórnarformaður Atlanta, segir þetta styrkja félagið og gefa möguleika til frekari stækkunar. Ekki fengust upplýsingar um hversu stór hlutur Magnúsar verður en í frétt frá félaginu segir að hann verði um það bil helmingur á móti hlut Arngríms Jóhannssonar og Þóru Guðmundsdóttur sem átt hafa meirihlutann.

Magnús tekur sæti Guðmundar Inga Haukssonar, fulltrúa Búnaðarbankans, í stjórn félagsins en Arngrímur Jóhannsson og Þóra Guðmundsdóttir sitja áfram í stjórninni. Engin breyting verður á framkvæmdastjórn fyrirtækisins og Hafþór Hafsteinsson er áfram forstjóri.

Hópurinn sem Magnús fer fyrir heitir Pilot Investors Ltd. og er fyrirtækið skráð í Lúxemborg. "Ég fer fyrir hópi fjárfesta sem hefur það markmið að fjárfesta í góðum félögum og þetta er með betri kostum í þeim efnum," segir Magnús í samtali við Morgunblaðið og kveðst ekki vilja gefa upp nöfn þeirra sem með honum standa. Þá eru allar tölur samninganna trúnaðarmál og verður ekki gefið upp hversu mikil hlutafjáraukningin er. "Atlanta er góður kostur og gott og vel rekið fyrirtæki, því er vel stjórnað og þar er gott starfsfólk. Það er í alþjóðlegum rekstri og fellur að því sem ég hef hug til að gera," segir Magnús en hann kveðst hafa áhuga á flugi og er með einkaflugmannspróf. Magnús hefur starfað að viðskiptum erlendis, einkum í Rússlandi. Hann segir flugáhugann þó ekki vera ástæðu þessara kaupa heldur fjárfestinguna.

Styrkir fyrirtækið

Arngrímur Jóhannsson segir að leiðir þeirra Magnúsar hafi legið saman gegnum flugið og kveðst hann mjög ánægður með hinn nýja meðeiganda og hafi þeir þekkst lengi. "Félagið hefur vaxið mjög hratt, um 18% á ári síðustu árin, og við þurftum að styrkja innviðina," segir Arngrímur og að ætlunin sé að nýta nýtt hlutafé til að losa um skuldbindingar og skoða möguleika á frekari útrás og stækkun fyrirtækisins. Þeir félagar voru þó ófáanlegir til að ræða það frekar, sögðu það verða að koma í ljós. Búnaðarbankinn keypti hlut í fyrirtækinu fyrir um tveimur árum og í janúar 2001 sagði Arngrímur Jóhannsson að unnið væri að því að skrá Atlanta á markað. Af því varð ekki og við kaupin í gær sagði Arngrímur að enn væri í ráði að skrá félagið á markað innan 18 mánaða.

Selur í óskráðum fyrirtækjum

Búnaðarbanki Íslands, sem sá um samningagerðina, eignaðist hlut sinn í félaginu fyrir um tveimur árum og segir Árni Tómasson bankastjóri það hafa verið stefnu bankans undanfarið að selja hluti sína í óskráðum fyrirtækjum. Hann segir bankann hafa verið langt kominn með að selja hlutinn í Atlanta fyrir ári og fundur með erlendum fjárfestum hafi verið ákveðinn 14. september. Hann hafi verið blásinn af eftir 11. september.