ÞESS var minnst í vikunni, að 50 ár eru liðin frá því að Norðurlandaráð var stofnað. Danir, Íslendingar, Norðmenn og Svíar stóðu að ráðinu í upphafi en árið 1955 bættust Finnar í hópinn.

ÞESS var minnst í vikunni, að 50 ár eru liðin frá því að Norðurlandaráð var stofnað. Danir, Íslendingar, Norðmenn og Svíar stóðu að ráðinu í upphafi en árið 1955 bættust Finnar í hópinn. Var aðildin mikilvæg fyrir Finna, því að hún var til marks um, að þeir gætu um frjálst höfuð strokið, þrátt fyrir ofurvald grannans í austri, Sovétríkjanna. Finnar urðu að taka ríkt tillit til vináttu- og öryggissamningsins við Sovétmenn. Meðal annars af tilliti til hans gilti sú regla innan Norðurlandaráðs fram að hruni Sovétríkjanna, að þar skyldi ekki rætt um utanríkis- og öryggismál.

Uppnám varð á þingi Norðurlandaráðs snemma árs 1974, þegar Magnús Kjartansson, heilbrigðisráðherra úr Alþýðuðubandalaginu í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, flutti þar skammir um Norðmenn vegna gagnrýni þeirra á þá stefnu ríkisstjórnar Ólafs að rjúfa varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.

Í september 1973 lýsti norska ríkisstjórnin áhyggjum af stefnu ríkisstjórnar Íslands. Í desember sama ár fórum við nokkrir til Noregs í því skyni að kynna okkur varnir Norðmanna og stefnu í öryggis- og utanríkismálum. Fyrstu daga í febrúar 1974 efndu Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg til ráðstefnu með Norðmönnum um öryggissamstarf þeirra og Íslendinga. Um miðjan febrúar kom þing Norðurlandaráðs saman og þar sagði Magnús Kjartansson frumkvæði norskra stjórnvalda og norskra stjórnmálaleiðtoga "nálgast ótilhlýðilega íhlutun í íslensk innanríkismál".

K.B. Andersen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, mótmælti harðlega þessum málflutningi Magnúsar og sömu sögu var að segja um Trygve Bratteli, forsætisráðherra Noregs. Hann neitaði því, að Norðmenn hefðu blandað sér í íslensk stjórnmál. Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, sagði ræðu Magnúsar "hneyksli". Hún hefði verið ókurteisi gagnvart Norðurlandaþjóðunum og það bæri vott um siðleysi að halda hana án alls samráðs við forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Frá þessu er sagt í bók Vals Ingimundarsonar, Uppgjör við umheiminn. Þar segir einnig, að Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra hafi orðið að bregðast við bæði á þingi Norðurlandaráðs og Alþingi. Hann hafi meðal annars minnt á, að utanríkis- og varnarmál heyrðu ekki undir Norðurlandaráð, og mælst til þess, að ekki yrði farið að ræða íslensk innaríkismál á þeim vettvangi. Magnús væri ekki að flytja erindi á vegum ríkisstjórnar Íslands og orðsending norskra stjórnvalda út af varnarmálunum væri ekki íhlutun í íslensk stjórnmál.

Þegar litið er til baka, er ekki vafi á því, að starf Norðurlandaráðs var farsælt á tímum kalda stríðsins einmitt vegna þess, að helstu ágreiningsefni þess tíma í utanríkis- og varnarmálum voru þar ekki á dagskrá. Þrjú ríkjanna voru þá eins og nú í NATO: Danmörk, Ísland og Noregur. Svíar voru hlutlausir og Finnar einnig en með vináttusamning við Sovétríkin. Nú eru þrjú ríki innan Norðurlandaráðs í Evrópusambandinu (ESB): Danmörk, Finnland og Svíþjóð. Tvö eru fyrir utan ESB en á Evrópska efnahagssvæðinu, það er með sérstakan samning við ESB: Ísland og Noregur. Þá hefur vegur sjálfsstjórnarsvæðanna, Álandseyja, Færeyja og Grænlands, vaxið jafnt og þétt í Norðurlandaráði og koma fulltrúar þeirra að mikilvægum ákvörðunum, hvort heldur á þingi Norðurlandaráðs eða í ráðherranefndum þess.

Því var spáð, að vegna aðildar þriggja Norðurlanda að ESB, mundi vegur ráðsins og samstarfsins innan þess minnka. Vissulega hefur ESB-aðild haft áhrif á áherslur aðildarríkjanna og hún er tímafrek fyrir ráðherra og embættismenn, ekki síst þegar þjóðir fara með forsæti í málefnum ESB, eins og Danir gera núna. Þrátt fyrir ESB-aðild er enginn málsvari þess í ríkisstjórnum eða á þjóðþingum Norðurlanda, að Norðurlandaráð verði lagt niður eða hætt verði hinu sérstaka norræna samstarfi á alþjóðavettvangi.

Þvert á móti má færa rök fyrir því, að ríkisstjórnir norrænna ESB-ríkja sjái sér hag af því, að leggja góða rækt við Norðurlandaráð, og tryggja, að það standi traustum fótum. Unnt er með vísan til svæðisbundins samstarfs innan ráðsins að skapa sér sérstöðu, ef á þarf að halda, á vettvangi ESB. Er það frekar til þess fallið að styrkja stöðu norrænu ESB-ríkjanna á vettvangi Evrópusambandsins en veikja. Hið sama er að segja af vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar hefur ESB-aðild ekki dregið úr mikilvægi hins norræna samstarfs.

Finnar og Svíar standa enn utan NATO. Ríkisstjórnir þjóðanna hafa ekki lagað sig að nýjum aðstæðum í öryggismálum og sótt um aðild að NATO. Hlutleysi á milli austurs og vesturs gaf þeim færi á að gæta hagsmuna sinna með línudansi, sem stundum orkaði tvímælis að mati málsvara vestrænnar samvinnu og öryggis. Nú er þetta hlutleysi að sjálfsögðu úr sögunni og línudansinum er lokið.

Samstarf ESB í varnar- og öryggismálum miðar að því að sinna friðargæslu. Markmið NATO er að tryggja öryggi bandalagsþjóðanna með sameiginlegum vörnum. Þótt Finnar og Svíar séu ekki í NATO, verður þess ekki vart, að stjórnmálamenn í norrænum NATO-ríkjum séu að skipta sér af því með NATO-aðild á vörunum. Hins vegar eru stjórnmálamenn í norrænu ESB-löndunum oft að predika yfir Íslendingum og Norðmönnum ágæti ESB-aðildar, eins og sjá má meðal annars í viðtölum við þá á síðum Morgunblaðsins.

Samstarf Færeyja, Grænlands og Íslands hefur þróast með ánægjulegum hætti undanfarin ár. Nær það til sífellt fleiri þátta. Helsti vandinn er sá, hve dýrt og erfitt er að ferðast frá Færeyjum og Íslandi til Grænlands og öfugt. Væru samgöngur greiðari væri samstarfið enn meira. Innan Norðurlandaráðs starfa þessi lönd saman undir merkjum Vest-norræna ráðsins. Ráðherrar hittast á vettvangi þessa ráðs og þar hefur verið stofnað til sérstaks samstarfs þingmanna. Engu landanna þriggja er nokkur hagur af því að slíta þetta samstarf undan merkjum norrænnar samvinnu. Á hinn bóginn getur verið spennandi að huga að nánari samvinnu við aðra eyjaskeggja á Norður-Atlantshafi eins og íbúa Bretlandseyja en þó sérstaklega Skotlands, Hjaltlands, Orkneyja og Suðureyja. Grænlendingar beina augum sínum til frænda sinna í Norður-Ameríku. Inúítar þar tala mál af sama stofni og Grænlendingar og menningartengslin eru nánari þangað fyrir eskimóa en hingað austur á bóginn. Þessari vídd er ástæðulaust að gleyma, þegar litið er til þróunar norræns samstarfs og hlutur landanna á Norður-Atlantshafi er metinn. Ísland er einnig í Eystrasaltsráðinu sem eitt Norðurlandanna, þótt hnattstaðan gefi ekki beint tilefni til þess. Enda þótti ekki öllum sjálfsagt, að Ísland yrði í Eystrasaltsráðinu.

Rætur Norðurlandaráðs er að finna í samstarfi þjóðþinga Norðurlanda. Norræna þingmannasambandið hafði starfað í áratugi, áður en þar var samþykkt að stofna Norðurlandaráð. Þess vegna hafa tengsl ráðsins við þjóðþing Norðurlandanna ávallt verið traust og sterk og aldrei myndast nein gjá á milli Norðurlandaráðs sem stofnunar og lýðræðiskjörinna fulltrúa aðildarþjóðanna.

Norðurlandasamstarfið kallar á samstiga ákvarðanir norrænu þjóðanna um mörg mál. Þannig var það til dæmis meðal höfuðröksemda Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra fyrir aðild Íslands að Schengen-samkomulaginu um afnám landamæravörslu, að án Schengen-aðildar yrðu Íslendingar að nýju að sýna vegabréf á ferðum innan Norðurlanda.

Mikill munur er á skipulagi Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins. Innan ESB var sú leið farin að setja á stofn sérstakt þing, sem átt hefur í hinu mesta basli með að skapa sér stöðu bæði gagnvart kjósendum í einstökum ESB-löndum, ríkisstjórnum landanna og valdastofnunum ESB í Brussel. Vegna hins yfirþjóðlega valds ESB hefur starfsemi þess vakið áleitnar spurningar um skilin á milli heimaslóðar og stjórnmálavalds.

ESB hefur vald til að segja ríkisstjórnum aðildarlandanna fyrir verkum eða binda hendur þeirra með lögum. Norðurlandaráð eða norræna ráðherranefndin hefur ekki slíkt vald. Þar felst ekki í eðli samstarfsins að rjúfa tengsl þjóðríkis og pólitískra ákvarðana eins og innan ESB.

Á afmælisþingi Norðurlandaráðs í Helsinki var Kjeld Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, spurður, hvenær Norðmenn ætluðu næst að huga að aðild að ESB. Hann sagði málið ekki geta verið á dagskrá næstu ár vegna breytinga á ESB. Enginn gæti í raun sagt fyrir um það núna, hvaða Evrópusamband stæði til boða að fáeinum árum liðnum. Á slíkum óvissutímum væri óskynsamlegt að taka málið á dagskrá.

Ekki fór neinum fréttum af því, að menn færu í ræðustól Norðurlandaráðs til að lýsa hneykslan á þeirri skoðun norska forsætisráðherrans, að ESB-aðild Noregs gæti ekki verið á dagskrá næstu ár.

Eftir Björn Bjarnason

Höf.: Björn Bjarnason