SÝNINGIN Veiðimenn í útnorðri verður opnuð í sýningarsölum Norræna hússins í dag. Um er að ræða sýningu sem Vestnorræna ráðið átti frumkvæði að og Norðurlandahúsið í Færeyjum sá um sýningarstjórn á í samvinnu við NAPA, Norrænu stofnunina á Grænlandi og Norræna húsið í Reykjavík.
Í fréttatilkynningu frá Norræna húsinu í Reykjavík segir að Grænland, Ísland og Færeyjar séu oft nefnd Vestur-Norðurlöndin og að þar séu enn að finna hefðbundnar veiðiaðferðir sem enn séu snar þáttur í daglegu lífi fólks. "Í löndunum þremur hefur einnig mótast háþróaður fiskiðnaður sem selur hágæðavöru á heimsmarkaði og leggur þannig grunn að efnahagslífi ríkjanna. Þetta er fremur ný þróun í langri sögu byggðar, en hún byggist engu að síður á hæfninni til að aðlaga þá þekkingu og kunnáttu sem kynslóðirnar tileinkuðu sér. Um aldir bjó fólk við erfið lífsskilyrði en tókst að viðhalda menningu og lífsháttum sem einkum tengjast hafinu og matarkistunni þar, ekki síst sjávarspendýrum og fuglum.
Verkefni samtímans er að tryggja að náttúrulegar auðlindir svæðisins geti áfram staðið undir veiðum af ýmsu tagi á bæði fisk og öðrum veiðidýrum til bæði eigin neyslu og sölu. Þessar auðlindir verða áfram um ókomin ár undirstaða lífshátta á Vestur-Norðurlöndum sem fæða bæði Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga en líka sem matvæli á alþjóðlegum markaði," segir í fréttatilkynningunni.
Fortíð og nútíð
Færeyski myndlistarmaðurinn Edward Fuglö hannaði sýninguna Veiðimenn í útnorðri, en fyrir hönd Norræna hússins í Reykjavík hefur forstjóri hússins, Riitta Hainemaa, lagt hvað þyngsta hönd á plóginn og hefur sú vinna staðið síðustu tvö árin að hennar sögn."Þessari sýningu er ekki hvað síst ætlað að sýna muninn á nútímanum og fortíðinni í veiðihefðum þjóðanna og um leið að vera framlag til að varðveita minningu um lífshætti sem gætu liðið undir lok. Þarna má því sjá allt frá gömlum og hefðbundnum veiðigripum á borð við körfu með "leysakast"-steinum til að reka grindhvali og upp í fullkomið fiskiborð frá Marel. Svona sýning hefur ekki verið sett upp áður, þetta er í fyrsta skipti sem þetta þema er tekið fyrir," segir Riitta.
Farandsýning
Myndlist skipar veglegan sess á sýningunni og segir Riitta að það sé ekki tilviljun. "Veiðiskapur er mjög fyrirferðarmikill í myndlist þessara þjóða," og það endurspeglast á sýningunni," bætir Riitta við.Sýningin Veiðimenn í útnorðri er farandsýning sem fyrst var opnuð í Þórshöfn í Færeyjum í júní á þessu ári. Þaðan fór hún til Hjaltlands og þvínæst til Dyflinnar. Nú er hún í Reykjavík.
"Móttökurnar hafa verið gríðarlegar," segir Riitta, "það komu 12.000 manns á sýninguna í Færeyjum, hugsiði ykkur. Hvað eru Færeyingar margir? Síðan skoðuðu 5.000 manns sýninguna á Hjaltlandi og í Dyflinni komu um 400 manns á dag þann eina mánuð sem sýningin stóð yfir. Þegar sýningunni lýkur í Norræna húsinu verður hún send til Akureyrar og mun að öllum líkindum verða opnuð
þar 11. janúar. Síðan verður hún sett upp á Grænlandi og á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Hvað gerist þar eftir vitum við ekki. Þegar er farið að spyrja eftir sýningunni, menn vilja fá hana víðar, til Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og víðar. Við getum aðeins sagt fólki að við verðum að athuga hvað sé hægt að gera. Við erum mjög háð söfnum og stofnunum með sýningarmuni og erum háð velvilja þeirra með framhaldið. En gaman væri vissulega að fara víðar með þessa merkilegu sýningu," sagði Riitta Hainemaa.