UMBOÐSMAÐUR JK Rowling, höfundar Harry Potter-bókanna, segir að höfundurinn hafi ekki hug á að því að skrifa áttundu bókina um galdrastrákinn Harry þrátt fyrir að bandaríska kvikmyndaverið Warner Bros hafi, einhverra hluta vegna, tryggt sér einkarétt á...

UMBOÐSMAÐUR JK Rowling, höfundar Harry Potter-bókanna, segir að höfundurinn hafi ekki hug á að því að skrifa áttundu bókina um galdrastrákinn Harry þrátt fyrir að bandaríska kvikmyndaverið Warner Bros hafi, einhverra hluta vegna, tryggt sér einkarétt á átta titlum um Harry Potter.

JK Rowling, höfundur Harry Potter, hefur marglýst því yfir að hún ætli einungis að skrifa sjö bækur um galdrastrákinn og ævintýri hans. Dagblaðið The Scotsman sagði frá einkarétti Warner Bros á titlum um Harry Potter, en Christopher Little, umboðsmaður JK Rowling, segir að það þýði ekki að höfundurinn muni skrifa áttunda söguna. Þá segir Neil Blair, talsmaður Rowling, að frétt blaðsins um að áttunda bókin yrði gefin út eigi ekki við rök að styðjast. Hann sagði að höfundurinn væri ekki einu sinni búinn að ákveða nafn á bókum sem eiga að vera númer sex og sjö. Höfundurinn er sagður undirbúa útgáfu fimmtu bókarinnar um Harry Potter, sem nefnist Regla Fönix. Fjórar fyrstu bækurnar um Harry Potter; Viskusteinninn, Leyniklefinn, Fanginn frá Azkaban og Eldbikarinn, eru sagðar hafa selst í tugum milljóna eintaka.

Þá er önnur kvikmyndin um Harry Potter og félaga væntanleg í kvikmyndahús 15. nóvember ytra, en verður frumsýnd hér á landi 22. nóvember.