NÝ sýningaraðstaða fyrir listamenn verður opnuð í gömlu Álafossverksmiðjunni í Mosfellsbæ í dag, laugardag, kl. 14 og hefur galleríið fengið nafnið Undirheimar.

NÝ sýningaraðstaða fyrir listamenn verður opnuð í gömlu Álafossverksmiðjunni í Mosfellsbæ í dag, laugardag, kl. 14 og hefur galleríið fengið nafnið Undirheimar. Galleríið er 120 fm salur og verður fyrsta sýningin opnuð í dag en það eru sjö listakonur sem sýna verk sín.

Hildur Margrétardóttir myndlistarkona ákvað að bjóða upp á sýningarrými þar sem hægt yrði að setja upp fagmannlegar sýningar án mikils tilkostnaðar fyrir listamenn. "Þeir listamenn sem sýna greiða lága upphæð til að standa straum af opnun sýninga og fengnir til að gefa galleríinu eitt af verkum sínum," segir Hildur. "Verkin sem safnast verða sett í safn sem tengist rekstri gallerísins. Þar með safnast upp sýnishorn af samtímalist sem varðveitist og möguleiki á að halda yfirlitssýningar með jöfnu millibili." Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Ásdís Arnardóttir, Hildur Margrétardóttir, Hjördís Birna, Hulda Vilhjálmsdóttir, Karla Dögg Karlsdóttir, Lóna Dögg Christensen og Sólrún Trausta Auðunsdóttir. Verk þeirra eru öll unnin með vatnsleysanlegum litum. Þær fara ólíkar leiðir bæði í efnistökum og aðferðum.

Við opnunina leikur Una Hildardóttir á gítar.

Undirheimar eru opnir alla daga nema miðvikudaga frá kl. 12-17. Sýningin stendur til 24. nóvember.