"Jafnaðarstefnan er það lögmál sem ég vil starfa eftir."

ÍSLAND er gott og stórt land með fáa íbúa en stóra þjóðarsál. Þjóðin hefur alla tíð þurft að ala með sér samkennd og samhjálp til að hún lifði af við þær erfiðu aðstæður sem ríkja á norðurhjara veraldar. Það er ekki hægt að reka samfélag og stjórna landinu til lengdar nema með miklum samhug og samhjálp, þannig hefur það verið í órofa tíð, það er galdurinn bak við stolt okkar, menningu og grundvöllur samstöðu þjóðarinnar. Valdhafi sem ekki skilur þetta er þegar tekinn að grafa undan einingu þjóðarinnar örar en með nokkrum öðrum hætti er hægt. Ef þjóðin hættir að skynja sig sem samstæða heild, sem tekur undir arma þeirra sem minna mega sín og ber þá með sér, í stað þess að skilja þá eftir, getur ekkert annað haldið þjóðinni saman. Valdhafi sem elur á þeirri skoðun að rétt sé að skilja þrekminni bræður okkar og systur eftir eins og þeir komi okkur ekki við, er að sundra þjóðinni hraðar en önnur öfl gætu gert.

Um hríð hefur landinu verið stjórnað eftir lögmálum græðginnar, þar sem þjóðargersemarnar hverfa í hvern úlfskjaftinn eftir annan. Mestu verðmæti þjóðarinnar, náttúruauðlindirnar, sem eining var um að þjóðin ætti í sameiningu eru gefnar "greifum" sem selja þær aftur og hverfa á braut með milljarða króna af þjóðarauðnum til útlanda til að gamna sér með í spilavítum verðbréfamarkaðanna. Svo sannarlega þurfa lögmál jafnaðarstefnunnar að grípa hér inn í.

Valdshafarnir sundra þjóðinni þegar þeir auka sífellt útgjöld sjúklinga þannig að venjulegt alþýðufólk þarf oft að neita sér um að leysa út lyfin sín eða fara í myndatökur sem læknir telur þörf á. Í sumar sögðu valdhafarnir þjóðinni að ekki væru til 12 milljónir kr. til að reka deild heilaskaddaðra, en voru á sama tíma að greiða brottreknum forstjóra Símans 35 milljónir í starfslokasamning. Valdhafar sem forgangsraða þannig og stjórna eftir lögmálum græðginnar, sundra þjóð sinni. Sérstaklega þegar þjóðin er lítil og þarf að byggja tilveru sína á samhjálp, samhug og samkennd. Hætt er við að ungu fólki finnist því ekki lengi bera tryggð við land sem skipt hefur upp auði sínum á milli "greifa" sem leika sér með gjafirnar eins og þeim sýnist. Land sem krefur unga sem aldna sífellt um hærri gjöld fyrir læknishjálp en það hefur ráð á og rukkar svo margfaldar þær upphæðir með lögfræðihótunum.

Samfylkingin hefur trúverðugleika og styrk sem við þurfum til að snúa af þessari óheillabraut. Jafnaðarstefnan er það lögmál sem ég vil starfa eftir, samhjálp og samhugur í verki, eru mín lífsmottó. Ég óska eftir umboði og samstarfi fólks í Suðvesturkjördæmi, til að gera þetta samfélag betra, eins og landsmenn eiga skilið.

Eftir Þorlák Oddsson

Höfundur tekur þátt í prófkjöri Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi og sækist eftir 3.-4. sæti.

Höf.: Þorlák Oddsson