Óðinn Helgi Jónsson og Þröstur Elliðason með stóra sjóbirtinga þegar fiskur var veiddur í klak í Tungulæk í haust.
Óðinn Helgi Jónsson og Þröstur Elliðason með stóra sjóbirtinga þegar fiskur var veiddur í klak í Tungulæk í haust.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VEIÐIÞJÓNUSTAN Strengir hefur tekið Tungulæk í Landbroti á leigu fyrir komandi vertíð. Veiðitíminn í ánni er frá aprílbyrjun og fram í október.

VEIÐIÞJÓNUSTAN Strengir hefur tekið Tungulæk í Landbroti á leigu fyrir komandi vertíð. Veiðitíminn í ánni er frá aprílbyrjun og fram í október. Tungulækur er ein albesta sjóbirtingsá landsins og þótt víðar væri leitað og hún hefur aldrei verið leigð út fyrr. Áin er í einkaeign og hefur verið nýtt sparlega mjög af eigendum.

Þröstur Elliðason, eigandi Strengja, sagðist hæstánægður með þessa nýju viðbót við veiðileyfaframboð sitt. "Hingað hafa komið erlendir veiðimenn sem hafa veitt um allan heim og hafa aldrei komist í önnur eins gæði og í Tungulæk. Þetta er stutt á og meðalstangafjöldi verður þrjár stangir, en veiðin er oft ótrúleg, menn lenda iðulega í mokveiði í þessari á," sagði Þröstur í samtali við Morgunblaðið.

Þröstur vildi ekki gefa upp leiguupphæð. Auk þess sagði hann að verðskrá hefði ekki verið útbúin, en reynt yrði að stilla verðinu í hóf eftir því sem kostur væri. "Þó fer varla hjá því að verðið muni endurspegla gæðin sem þarna eru á ferðinni. Ekki verður hjá því komist," bætti Þröstur við.

Aðeins verður leyfð fluguveiði í Tungulæk og ætlast til að öllum fiski verði sleppt.