DELTA hf., dótturfélag Pharmaco hf., hefur gert samstarfssamning við lyfjafyrirtækið Purepac Pharmaceutical Co., dótturfélag Alpharma Inc. í Bandaríkjunum, um þróun samheitalyfja fyrir Bandaríkjamarkað. Samkvæmt samningnum verða lyf þróuð af Delta en framleidd og markaðssett af Alpharma. Áætlað er að samningurinn byrji að skila Delta tekjum á árinu 2005.
Róbert Wessman, forstjóri rekstrar Pharmaco, segir að áætlað sé að framtíðartekjur Delta vegna þessa samnings geti verið umtalsverðar. Tekjur velti hins vegar töluvert á því hvort félögin verði meðal þeirra fyrstu á markað eftir að einkaleyfi viðkomandi frumlyfs rennur út.
Hann segir að Delta muni njóta samlegðar af þeim lyfjum sem þróuð eru fyrir Evrópumarkað og jafnframt fyrir Bandaríkin. Kostnaður við þróunina fyrir Bandaríkjamarkað verði því hlutfallslega mun minni en ella.
Delta hefur einnig nýlega verið samþykkt af heilbrigðisyfirvöldum í Sádí-Arabíu, sem gefur möguleika á sölu lyfja fyrirtækisins þar í landi og á nálægum mörkuðum í Mið-Austurlöndum.
Opnar leið inn á stærsta markað í heimi
Samkvæmt samstarfssamningi Delta og Purepac munu fyrirtækin skipta með sér hagnaði af sölu lyfsins eftir að það kemur á markað.Róbert segir að það frumlyf sem um ræðir samkvæmt samningnum sé meðal söluhæstu lyfja í heiminum í dag. Nafn þess og velta sé hins vegar trúnaðarmál milli aðila. Söluhæstu frumlyfin í dag séu að velta um 7 milljörðum Bandaríkjadala á heimsvísu. Þá hafi fyrirtækin bæði hug á að fjölga samstarfsverkefnum fyrir Bandaríkjamarkað í framtíðinni. Samningurinn opni Delta leið inn á þennan mikilvæga markað.
Róbert segir að Bandaríkjamarkaður sé stærsti markaður fyrir lyf í heiminum. Velta samheitalyfjamarkaðarins þar í landi í dag sé um 15 milljarðar dala á ári en áætlanir fyrir árið 2005 geri ráð fyrir að veltan verði tæpir 22 milljarðar dala, sem svari til um 1.900 milljarða íslenskra króna.
Um 40% af heildarsölu samheitalyfja í heiminum sé í Bandaríkjunum. Næststærsti markaðurinn sé Evrópa með um 26%. Hann segir því augljóst að samstarfssamningurinn hafi mikla þýðingu fyrir Delta og geti opnað ýmsa möguleika í framtíðinni.