BJÖRGUNARMENN grófu í gær síðustu líkin úr rústum barnaskóla sem hrundi í jarðskjálfta í bænum San Giuliano di Puglia á Suður-Ítalíu í fyrradag. Staðfest var að 29 manns fórust í skjálftanum, þeirra á meðal heill bekkur sex ára barna.
Nokkrir fleiri skjálftar urðu í gær og sá stærsti var 5,3 stig á Richters-kvarða, næstum jafnsterkur og skjálftinn sem lagði skólann í rúst. Ættingjar barnanna sem fórust voru að bera kennsl á þau í líkhúsi þegar stærsti skjálftinn dundi yfir í gær og flúðu í ofboði út á götu. Allir íbúar San Giuliano, um 1.200 manns, voru fluttir úr bænum í varúðarskyni og flestir þeirra sváfu í tjaldbúðum.
26 börn fórust
Staðfest var að 26 börn, kennslukona og tvær aldraðar konur, er bjuggu í nálægum húsum sem hrundu, fórust í skjálftanum í fyrradag. Tveimur börnum var bjargað í fyrrinótt og þau voru alvarlega slösuð. Annað þeirra hafði verið fast í rústunum í margar klukkustundir þar sem fæturnir höfðu klemmst undir stóru steypustykki.Lík kennslukonunnar, sem fórst, var grafið síðast úr rústunum. Hún var sögð hafa bjargað nokkrum börnum.
"Hún var hetja, ýtti öllum börnunum út og síðan hrundi byggingin yfir hana," sagði Stefan De Mistura, formaður Rauða kross Ítalíu.
San Giuliano di Puglia. AP, AFP.