FLESTUM er enn í fersku minni sú barátta sem öryrkjar hafa háð gagnvart ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og reis hæst í umræðunni um hið svokallaða öryrkjamál. Hæstaréttardómur féll þar sem öryrkjum voru tryggð ákveðin réttindi en ríkisstjórnin fór þá leið að skipa sérstakan starfshóp, sem á endanum svipti öryrkja drjúgum hluta þess réttar sem Hæstiréttur dæmdi þeim. Ótrúleg harðfylgni ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum hópi vakti athygli um allt þjóðfélagið en þrátt fyrir harða baráttu Öryrkjabandalagsins, stjórnarandstöðu og fleiri aðila í samfélaginu hélt ríkisstjórnin sínu striki.
Ófagleg vinnubrögð
Öryrkjamálið skók sali Alþingis, ekki síst fyrir þau ófaglegu vinnubrögð sem einkenndu bréfaskipti forseta Alþingis og forseta Hæstaréttar um málið. Þar birtist vinnulag sem er beinlínis hættulegt sjálfstæði þriggja greina ríkisvaldsins og þar með stjórnskipaninni sem við búum við. En ríkisstjórnin beitir öllum brögðum í viðureign sinni við öryrkja landsins. Þeim var neitað um að sjá minnisblaðið sem var grundvöllur að skipan nefndarinnar sem var falið að túlka dóminn á sínum tíma. Bréfið var ekki birt fyrr en að undangengnum dómi Hæstaréttar þar sem forsætisráðherra var gert skylt að veita Öryrkjabandalaginu aðgang að minnisblaðinu.Öryrkjabandalagið hefur líklega fyrir löngu áttað sig á því að leiðin að hjarta ríkisstjórnarinnar liggur í gegnum málaferli. Það á mikið undir dómstólum landsins komið í glímu sinni við ríkisstjórnina. Nú hafa fleiri áttað sig á þessari döpru staðreynd og Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur ákveðið að stefna ríkinu vegna skatta á ávöxtun iðgjalda. Ávöxtun lífeyris er eini flokkur fjármagnstekna sem er undanskilinn 10% fjármagnstekjuskatti og búa lífeyrisþegar við það óréttlæti að þurfa einir fjármagnseigenda að borga tæp 39% í skatt á meðan aðrir borga 10%. Félagið mun krefjast viðurkenningar á því að skattheimta á vexti af lífeyrissjóðsiðgjöldum sé ólögmæt þar sem hún brjóti í bága við jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það segir meira en mörg orð um hver hugur ríkisstjórnarinnar gagnvart lífeyrisþegum er, að samskipti þar á milli skuli birtast í hverju dómsmálinu á fætur öðru. Dapurleg staðreynd hjá einni af ríkustu þjóðum heims, að hafa slíka ríkisstjórn við völd.
Eftir Bryndísi Hlöðversdóttur
Höfundur er formaður þingflokks Samfylkingarinnar.