"Launamunur kynjanna er því ekki bara óréttlátur heldur líka dragbítur á vöxt og þroska íslensks atvinnulífs og mannlífs."

ÉG GEKK með móður minni niður Laugaveginn á kvennafrídaginn 1975 og var ánægður með framtak hennar. Hún fæddist inn í samfélag mismunar á fyrri hluta síðustu aldar en lífið hafði kennt henni að mismunun kynjanna var bæði röng og óréttlát. Þá töldum við að kerfisbundið misrétti væri viðráðanlegur óvinur en að hugarfarsbyltingin væri fjarlægur draumur. Nú hefur hugarfarið snarsnúist en enn ríkir kerfisbundinn launamunur kynja.

Ég er þeirrar kynslóðar þar sem karlar og konur líta hvort á annað sem jafningja. Engu að síður er víða að finna kerfisbundið misrétti. Samkvæmt nýlegum athugunum fá konur 7-18% lægri laun en karlar einvörðungu vegna þess að þær eru konur. Á þremur áratugum hefur okkur tekist að breyta hugarfari en ekki því mannanna verki sem launakerfi er. Kynbundinn launamunur í einkafyrirtækjum er illbærilegur en slíkur launamunur hjá opinberum fyrirtækjum er óþolandi.

Launamunur er letjandi

Jafnrétti og jafnræði er forsenda þess að einstaklingar geti þroskað hæfileika sína sjálfum sér og samfélaginu til gagns og gleði. Þetta á ekki síst við um jafnrétti kynjanna. Launamunur kynja er ljótur blettur á samfélaginu og það er sameiginlegt hagsmunamál jafnréttissinnaðra karla og kvenna að útrýma honum. Launamunur kynja dregur úr áhuga kvenna á virkri þátttöku í atvinnulífi og heldur auk þess karlmönnum frá virku uppeldi og umönnun barna sinna. Hann er letjandi, - eykur líkurnar á að íslenskt atvinnulíf fari á mis við hæfileika og kunnáttu kvenna sem þó hafa lagt sig frekar eftir námi og starfsþroska en karlmenn og hann leggur grjót í götu farsæls fjölskyldulífs. Launamunur kynjanna er því ekki bara óréttlátur heldur líka dragbítur á vöxt og þroska íslensks atvinnulífs og mannlífs.

Ríki og sveitarfélög eru stærsti atvinnuveitandi landsins og því sá einstaki aðili sem helst ber ábyrgð á launamisrétti kynjanna. Undan þessari ábyrgð geta stjórnmálamenn ekki skotið sér. Það hlýtur að vera kappsmál jafnaðarmanna og jafnréttissinna að eyða þessum mismun. Að mínum dómi er umþóttunartími liðinn. Stjórnmálamenn verða að hugleiða alvarlega þann möguleika að skerpa jafnréttislögin og gefa færi á refsingum og sektum verði fyrirtæki ítrekað uppvíst að kynjabundnum launamismun. Launamunur er óréttlátur, rangur og vinnur gegn efnahagslegum og félagslegum markmiðum sem samstaða er um. Gegn honum þarf því að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Eftir Ásgeir Friðgeirsson

Höfundur er þátttakandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi.

Höf.: Ásgeir Friðgeirsson