Ólafur Halldórsson
Ólafur Halldórsson
ÓLAFUR Halldórsson fiskifræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri norska þorskeldisfyrirtækisins Troms Marin Yngel. Hann heldur utan eftir helgi til að taka við starfinu.

ÓLAFUR Halldórsson fiskifræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri norska þorskeldisfyrirtækisins Troms Marin Yngel. Hann heldur utan eftir helgi til að taka við starfinu. Seiðaeldisstöð fyrirtækisins er í byggingu og gert ráð fyrir að hún taki til starfa í mars á næsta ári og muni árlega framleiða um 10 milljónir þorskseiða. Kostnaður við uppbyggingu stöðvarinnar er um 750 milljónir króna.

Ólafur var fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun að loknu námi, en hann stofnaði Fiskeldi Eyjafjarðar ásamt fleirum árið 1987 og var framkvæmdastjóri félagsins allt til loka síðasta árs. Fiskeldi Eyjafjarðar náði fljótlega forystu í framleiðslu á lúðuseiðum og er langstærsti framleiðandi slíkra seiða í heiminum með 40 til 50% hlutdeild.

En var ekki erfið ákvörðun að yfirgefa Fiskey?

"Nei, í raun og veru ekki. Málin þróuðust einfaldlega þannig að ég ákvað að hætta. Nú horfi ég bara fram á veginn og hlakka til að takast á við nýtt og áhugavert verkefni. Það er mikill áhugi á þorskeldi í Noregi og það er gaman að fá að taka þátt í því að byggja það upp. Það var vissulega ekki á dagskránni að flytjast til Noregs, en mér bauðst þetta starf og ég ákvað að taka því," segir Ólafur Halldórsson.