OPNUÐ hefur verið í Minjasafninu á Akureyri sýning á ljósmyndum sænska ljósmyndarans Hans Malmberg sem hann tók um miðbik síðustu aldar. Á sýningunni eru myndir frá Íslandi, flestar af alþýðufólki við leik og dagleg störf í sveitum og bæjum landsins. Malmberg gat sér ungur gott orð sem ljósmyndari í heimalandi sínu og starfaði síðar víða um heim, m.a. sem fréttaljósmyndari, en eftirstríðsárin voru gullöld þeirra. Ljósmyndir hans hafa verið á sýningum í ýmsum löndum, m.a. á frægri sýningu í Museum of Modern Art í New York sem fékk heitið Family of Man.
Hans Malmberg kvæntist árið 1950 íslenskri konu, Margréti
Guðmundsdóttur, og gaf ári síðar út í Svíþjóð bókina Island með 135 ljósmyndum og formála eftir Helga P. Briem sendiherra. Bókin fékk góðar viðtökur erlendis og hér heima. Á Íslandsferðum sínum tók Malmberg m.a. margar myndir af Halldóri Laxness og dvaldi hér við myndatökur þegar bókin Salka Valka var kvikmynduð í Grindavík árið 1954. Að auki tók hann fjölmargar myndir á síldarárunum á Siglufirði og fylgdi konungi sínum, Gustaf Adolf, í opinberri heimsókn til Íslands árið 1957.
Sýningin kemur frá Þjóðminjasafni Íslands og verður opin til nóvemberloka.