STJÓRN Íbúðalánasjóðs ákvað í gær að óska eftir því að Ríkisendurskoðun taki út verklag og meðferð mála innan sjóðsins. Tilefnið er að svo virðist sem Íbúðalánasjóður hafi gert mistök við afgreiðslu fasteignaveðbréfa til fasteignasala í Kópavogi sem nú hefur játað á sig tugmilljóna fjárdrátt.
"Það er auðvitað ljóst að við höfum keypt fasteignaveðbréf sem eru með ógreinilegu eða ófullkomnu framsali. Það er ekki svo að við höfum keypt bréf, eins og því miður hefur komið fram í fréttum, sem ekki eru með neinu umboði eða án framsals. En framsölin á þessum bréfum voru því miður þannig að við hefðum ef til vill átt að skoða þau betur áður en þau voru keypt," segir Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Það sé alþekkt að breytingar og leiðréttingar séu gerðar á fasteignaveðbréfum eins og hafi verið gert í þessum tilvikum og starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi álitið að fasteignasalinn hafi gert minniháttar mistök við slíkar breytingar. "Við áttuðum okkur ekki á því að um hugsanlega fölsun væri að ræða," segir hann. Innra eftirlit verði hert í kjölfarið og vinnubrögð endurskoðuð.
Verið er að rannsaka öll viðskipti mannsins við sjóðinn. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær urðu starfsmenn sjóðsins varir við það í síðustu viku, að 6-8 fasteignaveðbréf frá fasteignasalanum væru útfyllt með óeðlilegum hætti en verðmæti þeirra er talið um 20-30 milljónir. Þá voru níu mánuðir síðan Þröstur Valdimarsson gerði alvarlegar athugasemdir við starfshætti mannsins og taldi hann m.a. hafa breytt framsali á fasteignaveðbréfi.
Guðmundur viðurkennir að þetta hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum hjá sjóðnum. Starfsmenn hafi hins vegar ekki áttað sig á hversu alvarlegt málið var og því var ekki gripið til aðgerða. Guðmundir bendir á að í þessu tilviki hafi málið verið kært til lögreglu en sú kæra hafi aldrei borist Íbúðalánasjóði og lögregla hafi aldrei haft samband út af málinu. Að lokum hafi innra eftirlit sjóðsins rekið augun í að sitthvað var athugavert við viðskipti mannsins.
"En auðvitað hefði það þurft að gerast fyrr. Ég dreg ekki fjöður yfir það," segir Guðmundur.
Í fréttatilkynningu frá stjórn Íbúðalánasjóðs kemur fram að sjóðurinn hefur leitað til sjálfstætt starfandi lögmanns um að kanna hvort sjóðurinn sé hugsanlega bótaskyldur en sé svo muni sjóðurinn "bæta það tjón sem viðskiptavinurinn hafi sannarlega orðið fyrir". Er viðskiptavinum sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni bent á að hafa samband við sjóðinn.
Hvar eru peningarnir?
Fyrrum starfsmaður Holts fasteignasölu, sem Morgunblaðið ræddi við í gær, sagði að rekstur fasteignasölunnar hefði verið í fullum gangi alveg fram á þriðjudag þegar eigandi hennar gaf sig fram við lögreglu. Það hafi komið eins og reiðarslag yfir starfsfólkið þegar maðurinn játaði á sig tugmilljóna fjárdrátt. Síðustu daga og vikur hafi þau þó séð merki um erfiðleika í rekstri, viðskiptavinir hefðu t.d. komið ævareiðir á fasteignasöluna og heimtað peninga sem þeir áttu inni hjá fasteignasölunni.Þegar starfsfólk hafi spurt eigandann hafi hann alltaf svarað að allt væri í himnalagi og búið væri að leysa mál þessa fólks. Þessu hefðu starfsmennirnir trúað. Aðspurður segir starfsmaðurinn að starfsfólkið eigi bágt með að skilja hvað varð um alla þá fjármuni sem maðurinn er talinn hafa skotið undan. Fasteignasalan hafi verið í leiguhúsnæði og eins og hjá fleiri einkafyrirtækjum hafi stundum orðið tafir á að laun væru greidd. Þá hafi enginn af sex starfsmönnum fengið greidd laun fyrir október. "Þetta finnst mér vera mergur málsins: Hvar eru peningarnir?"
Svik í síðustu viku
Svo virðist sem maðurinn hafi náð til sín fjármunum með ýmsum hætti. Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að hann breytti framsali á fasteignaveðbréfi þannig að peningarnir runnu til hans en ekki réttmæts eiganda sem var húsasmíðameistari í Hafnarfirði. Morgunblaðið hefur heyrt af fleiri slíkum tilvikum og starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafa fundið a.m.k. 6-8 fasteignaveðbréf sem ekki eru framseld með réttum hætti en upphæð þeirra er talin nema um 20-30 milljónum króna.Í öðrum tilvikum hélt hann eftir ávísunum og reiðufé sem viðskiptavinir, í sumum tilvikum eldra fólk, hafði treyst honum fyrir. Eitt tilvikið gerðist í síðustu viku, nokkrum dögum áður en maðurinn gaf sig fram við lögreglu. Eins og kunnugt er var fasteignasalinn kærður til lögreglunnar í Kópavogi í lok janúar og 5. september óskaði sýslumaðurinn í Kópavogi eftir gjaldþroti fasteignasölunnar. Lögmaður tjónþola, sem Morgunblaðið ræddi við í gær, sagði að hugsanlega yrði lögð fram bótakrafa á hendur ríkinu vegna þess að lögregla hafi ekki gripið inn í fyrr.
Ekki náðist í Þorleif Pálsson, sýslumann í Kópavogi, í gær og hann hefur ekki svarað ítrekuðum skilaboðum. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn í Kópavogi, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að óvíst væri hvort rannsókn lögreglu hefði verið hraðað sérstaklega þó að hún hefði vitað af gjaldþrotabeiðninni.
Ekki kært til samskiptanefndar
Í Morgunblaðinu í gær var farið rangt með orð Björns Friðfinnssonar, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, varðandi tryggingar fasteignasala. Hið rétta er að í frumvarpi til núgildandi laga um fasteignasölur var gert ráð fyrir að tryggingar tækju einnig til ásetningsbrota. Því var breytt í meðförum þingsins og því ná tryggingarnar aðeins til gáleysisbrota. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.Guðrún Árnadóttir, formaður Félags fasteignasala, sagði að það gæti vel verið að aldrei hefði neitt verið bókað um þetta á þeim fjölmörgu fundum sem félagið hefði átt með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, þó ekki Birni Friðfinnssyni. En óskin hefði verið sett fram munnlega.
Hún segir fulla þörf á að herða eftirlit með fasteignasölum en það sé aðeins hægt með lagabreytingu. Á síðustu árum hafi þeir t.d. æ oftar haft milligöngu um að greiða upp óhagstæð lán sem hvíla á eignum seljenda. Árið 1999 hafi komið holskefla af slíkum málum og nú þegar verkamannaíbúðir væru að koma á markað megi búast við öðru eins.
Þegar Þröstur Valdimarsson kærði fasteignasalann til lögreglunnar hafði hann jafnframt samband við Félag fasteignasala. Þar var honum bent á að leggja málið fyrir samskiptanefnd félagsins en það kostar 10.000 krónur. Það hafi hann ekki gert og því var ekki unnið meira í málinu af hálfu félagsins. Magnús Einarsson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir að maðurinn hafi þegar verið búinn að kæra málið til lögreglu en það eigi að vera mun fljótlegri og öruggari aðferð.
Skiptastjóri þrotabús Holts fasteignasölu er Guðmundur Óli Björgvinsson hdl. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagðist hann vonast til að finna aðila sem væri tilbúinn til að taka yfir rekstur fasteignasölunnar og ljúka þeim kaupsamningum sem eru útistandandi. Hann býst við að þetta skýrist um helgina.
runarp@mbl.is