FYRIR allmörgum árum var ég á ferð á Englandi til að vera viðstaddur opnun á sýningu um náttúru Mývatns. Sýningin var, og er enn, í einu af friðlöndum Wilfowl and Wetlands Trust, sem hinn heimsfrægi náttúrufræðingur og listamaður Sir Peter Scott stofnaði. Ekkja Sir Peters, lafði Philippa Scott, tók á móti mér og talið barst strax að - ekki Mývatni - heldur Þjórsárverum. Philippa vildi fá að vita nákvæmlega hvernig áætlanir stæðu um miðlunarlón á þessum stað. Hún taldi augsýnilega að það væri eitt af stóru málunum í náttúruvernd á Íslandi. Hún spurði ekki af ókunnugleika því hún var þátttakandi í könnunarleiðangri þangað 1951 ásamt Sir Peter og fleirum, þ.ám. Finni Guðmundssyni fuglafræðingi. Óhætt er að fullyrða að þessi leiðangur hafi uppgötvað Þjórsárver sem náttúruundur, og þar með komið stærstu heiðagæsabyggð í heimi á kortið. Sir Peter skrifaði bók um leiðangurinn "A Thousand Geese" og er hún allfræg meðal náttúruunnenda. Hann tileinkaði Finni bókina með orðunum "may his shadow never grow less - megi skuggi hans aldrei minnka". Þetta er orðaleikur: Finnur var öðrum mönnum meiri að líkamsvexti, en áhrif hans sem fræðimanns voru einnig mikil og með persónuleika sínum og snörpum gáfum gerðist hann öflugur talsmaður þess að Þjórsárver yrðu friðuð.
Bók Sir Peters leiddi óbeint til þess að ég dvaldi sumarlangt sem vinnumaður við rannsóknir í Þjórsárverum þegar áætlanir voru um að sökkva þeim og jafnvel flytja hluta þeirra annað! Í skugga þeirra fyrirætlana (Eyjavatnsmiðlun hét dæmið þá) voru gerðar rannsóknir á hinu sérstæða samspili sífrera, gróðurs og heiðagæsar, sem er einkenni Þjórsárvera og einstakt í okkar heimshluta.
Eftir að Philippa Scott hafði fengið upplýsingar um stöðu mála í Þjórsárverum leiddi hún mig að vegg með stórri mynd frá Suðurskautslandinu. Undir henni stóð þessi setning, höfð eftir Peter Scott: "I believe we should have the wisdom to know when to leave a place alone." "Ég býst við að viðþyrftum að búa yfir visku til að sjá hvenær rétt er að láta landsvæði ósnert."
Þessi orð kölluðu fram bergmál úr fortíðinni en voru jafnframt ákall til framtíðar. Sir Peter þekkti vel til á Suðurskautslandinu, og einmitt þar lést faðir hans, pólfarinn Robert FalconScott, þegar Peter var á barns aldri. Skilaboðin voru skýr. Í huga Sir Peters - og Philippu - voru Þjórsárver eitt þeirra svæða sem þau óskuðu að menn fyndu upp hjá sjálfum sér að vernda.
Nú ber það til tíðinda að sonur Sir Peters og Philippu, Falcon Scott, er væntanlegur til Íslands, til þess að heimsækja Þjórsárver og kynna sér fyrirætlanir um miðlunarlón á þessum stað. Hann mun á mánudagskvöldið kemur ávarpa borgarafund sem halda á í Austurbæjarbíói kl 20.30 og snýst um verndun Þjórsárvera - verndun friðlandsins í Þjórsárverum. Þar verður m.a. sýnt myndskeið sem faðir hans tók þar 1951.
ÁRNI EINARSSON,
líffræðingur.
Frá Árna Einarssyni: