STUNDIN sem beðið var eftir virðist loksins runnin upp. Þetta fékkst staðfest þegar miðbæjarskáldið greindi frá fundi sínum með landsföðurnum.

STUNDIN sem beðið var eftir virðist loksins runnin upp. Þetta fékkst staðfest þegar miðbæjarskáldið greindi frá fundi sínum með landsföðurnum. Friðelskandi sannleiksunnendur hafa lengi beðið þeirrar stundar að níðpennar og friðarspillar þjóðarinnar yrðu kallaðir fyrir og látnir svara fyrir rógburðinn sem þeir virtust endalaust komast upp með að dreifa um þjóðfélagið gjörvallt. Þessir menn sem ráðast á allt sem (göfugt er og heillavænlegt og) til framfara horfir hafa endalaust (og óhindrað að því er virðist) komist upp með að blása byr undir gróu vængi, án þess að skeyta nokkuð um okkur hin sem trúum á visku og réttlæti valdhafa okkar. Hafa fengið að ganga svo langt í rógburði sínum um samfélag okkar og innræti stjórnenda þess að hriktir í sannfæringarstoðum hins almenna borgara á samfélagsmynstrið sem hann áður gat treyst í blindni. Fólk sem annars er allt of upptekið í hinu daglega amstri neyddist allt í einu til að eyða tíma í vangaveltur um hvort hér væru á ferðinni óprúttnir náungar sem brugguðu þjóðinni launráð í skjóli áhrifa og valda.

En eins og áður sagði er stundin loksins runnin upp, stundin okkar. Það er næstum eins og landsfaðirinn hafi skynjað angist okkar og bænheyrt. Hafi í þokunni greint réttlætisins vita og stímt á hann af festu og dirfsku. Og kem ég þá loks að tilgangi þessa pistilstúfs. Mig langar að þakka landsföðurnum fyrir að fylgjast svona vel með börnunum sínum, fyrir þá auknu öryggiskennd sem lagst hefur yfir samfélagið og gera okkur kleift að endurreisa trú okkar á fjölmiðla og þá er þar birtast. Við kveðjuna langar mig að skeyta áskorun (ef ég má). Ég legg til að hætta ekki verki þá hálfnað er. Ég legg til að hérlendis verði stofnsett nefnd skipuð friðelskandi og réttþenkjandi einstaklingum sem hefði þann tilgang einan að rannsaka og (þegar það á við) kalla fyrir sig friðspilla þjóðarinnar. Úthluta mætti nefndinni refsiákvæði láti menn ekki segjast og neiti að snúa af villunnar vegi. Nefna mætti nefndina frelsisnefndina og mætti með nafngiftinni forðast allan samanburð við hina misskildu McCarthynefnd Bandaríkjanna. Þó vissulega sé þeirri nefnd útdeilt plássi á rangri hillu í sögunnar safni þá er óþarfi að vekja upp gamla drauga fyrst nýir lifa.

ÞORLEIFUR ÖRN

ARNARSSON,

Óðinsgötu 9,

101 Reykjavík.

Þorleifur Örn Arnarsson leiklistarnemi skrifar:

Höf.: Þorleifur Örn Arnarsson leiklistarnemi