"AUÐVITAÐ hefðum við viljað ná betri úrslitum úr fyrstu tveimur leikjunum en engu að síður erum við ekki langt frá þeim markmiðum sem við settum okkur. Við ákváðum til að byrja með að taka einn leik fyrir í einu og síðan að leggja áherslu á nokkur atriði, til dæmis snögga miðju sem felst í því að vera eldfljótir að taka miðju þegar við fáum mark á okkur. Það hefur gengið ágætlega en á stundum fórum við framúr sjálfum okkur. Þessi þáttur var miklu betri í þriðja leiknum en hinum tveimur," sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik um framgang mála hjá íslenska liðinu í þeim þremur leikjum sem búnir eru í riðlakeppninni.
Svona mót er ómetanleg æfing fyrir alla, leikmenn, þjálfara og aðra þá sem koma að liðinu. Þegar lið eru að koma saman eftir svona langan tíma þá er í raun og veru lítið hægt að gera annað en að reyna að vinna vel og bæta leik liðsins á milli leikja og ég tel að það hafi tekist enda hefur liðið leikið betur eftir því sem á mótið leið. Þegar þessu móti lýkur þá verður ekki neitt bakslag hjá okkur því það er ekki eins langt í næstu leiki og við fáum einnig tíma til að æfa áður en við förum á HM. Við vitum líka hvar við stöndum gagnvart þessum bestu þjóðum heims og vitum jafnframt betur hvað við þurfum að bæta og við sjáum að við getum staðið í öllum þeim þjóðum sem við höfum séð hér, Rússum, Júgóslövum og Þjóðverjum. Þetta kann ef til vill að hljóma furðulega eftir stórt tap í fyrstu tveimur leikjunum en staðreyndin er samt sú að við stóðum jafnfætis Þjóðverjum í 45 mínútur og vorum síst lakari aðilinn og það er auðvitað mjög jákvætt. Á móti Rússum náðum við reyndar ekki að spila vel nema í einn hálfleik eða svo en samt sem áður eigum við vel að geta unnið þá ef við náum góðum leik."
Hvað tekur við þegar þessu móti lýkur?
"Leikmenn fara auðvitað til sinna félaga núna eftir keppni og ég sest niður og fer yfir keppnina og met þá hvað við verðum að leggja áherslu á þegar við komum aftur saman. Við fáum tækifæri til að æfa í janúar, en við munum spila talsvert mikið en ég tel að við þurfum ekki rosalega margar æfingar til að lagfæra þá hluti sem eru ekki í lagi núna. Við erum nefnilega með ákveðinn grunn og þurfum bara að ná aðeins meiri gæðum út úr því sem við erum að gera, til dæmis þegar við erum einum fleiri í sókn og annað í þeim dúr."
Sumir þurfa að bæta sig
Fyrir keppnina sagðir þú í viðtali við Morgunblaðið að hver og einn leikmaður bæri sjálfur ábyrgð á sínu hugarfari, á það líka við um líkamlegt ástand leikmanna?"Já, að sjálfsögðu. Við höfum ekki tækifæri til að vinna með leikmenn fyrr en þeir koma til okkar og við getum í raun og veru lítið sem ekkert gert með líkamlegt ástand þeirra, meira að segja mjög takmarkað í janúar þegar við komum saman næst. Þegar leikmenn fara héðan leggjum við áherslu á það við þá sem þurfa að hafa meira fyrir hlutunum til að halda sér í góðri líkamlegri æfingu að þeir geri það. Séu æfingar félaganna ekki í samræmi við það sem við gerum kröfur um þá verða menn einfaldlega að æfa meira sjálfir. Ég vil taka fram að ástand flestallra leikmannanna er fínt en sumir þurfa að bæta sig aðeins. Ég ætla ekki að segja hverjir það eru, en ég mun ræða sérstaklega við þá áður en þeir halda til liða sinna. Það eru leikmenn sem ég tel ekki í nægilega góðu formi og vilji þeir auka líkurnar á að þeir verði valdir í liðið verða þeir að bæta sig. Svona er staðan einfaldlega og ég mun væntanlega í framhaldinu hafa samband við einhverja þjálfara til að athuga hvernig best er að hátta málum. Ég vil ítreka að þetta eru ekki margir leikmenn og réttara er sjálfsagt að segja að þetta eru örfáir leikmenn."
Hvað með þig sjálfan, ert þú kominn í æfingu?
"Já, já, svona mót er ekki bara æfing fyrir leikmenn, heldur fyrir þjálfara og alla sem að liðinu koma. Leikmenn leggja auðvitað mikið á sig og það sama á við um aðra, sjúkraþjálfara og nuddara sem eru stöðugt að og oft langt fram á nótt og svo er alltaf nóg að gera hjá mér og þetta mót hefur ekki verið nein undantekning hvað það varðar. Það er mikið álag á öllum og það er í rauninni gott fyrir alla að taka þátt í svona móti því þetta er talsvert langt frá því að vera eins og venjulegur dagur hjá manni."
Spenntur að mæta Svíum
Hvað með helgina framundan?"Ég er fullur eftirvæntingar, ég verð að játa það að mér finnst það spennandi að glíma við Svíana. Það verður sjálfsagt einhver óvissa vegna þess að Guðmundur Hrafnkelsson er farinn til Ítalíu en ég vona auðvitað að þessir ungu markmenn standi undir þeim væntingum sem eru til þeirra gerðar. Það er vonandi að vörnin hjálpi þeim við að komast í gang og ég get ekki sagt annað en að ég er spenntur að mæta Svíum. Það er ánægjulegt verkefni og ég kvíði því ekki.
Hvað síðasta leikinn varðar veit ég ekki hvort það verða Egyptar eða Júgóslavar sem verða mótherjar okkar. Þó að þetta sé merkilegt mót og allt það þá er þetta fyrst og fremst undirbúningur fyrir HM og menn mega ekki missa sjónar á því og verða að vera óhræddir við að prufa eitthvað nýtt. Það skiptir í raun ekki máli hverjum við mætum á sunnudaginn, það væri gaman að fá enn eitt nýtt lið að glíma við en þó svo við mætum Júgóslövum þá væri það í fínu lagi," sagði Guðmundur.
Skúli Unnar Sveinsson skrifar frá Svíþjóð