GRINDVÍKINGAR biðu sinn fyrsta ósigur á leiktíðinni í úrvalsdeild karla á útivelli gegn Skallagrími í Borgarnesi í gær, 76:73, en þetta var fyrsti sigur Skallagríms í vetur. Í Seljaskóla unnu Íslandsmeistararnir lið ÍR á útivelli, 56:67, en þar var Teitur Örlygsson að leika sinn fyrsta leik með Njarðvíkingum en hann hafði ekki hug á að leika með liðinu í vetur.

Spenna var það eina sem leikmenn ÍR og Njarðvíkur buðu áhorfendum upp á er liðin mættust í úrvalsdeild karla í gær. Gestirnir og núverandi Íslandsmeistarar náðu hinsvegar að nota skynsemina og innbyrtu stigin sem í boði voru með því að vinna leikinn, 67:56.

Njarðvíkingar voru án Pete Philo sem er meiddur á hné en mun samt sem áður leika með liðinu í næstu leikjum. Teitur Örlygsson lék að nýju með liðinu en hann "var hættur" og lék síðast með liðinu sl. vor. Sóknarleikur liðana var skelfilegur frá upphafi til enda og sem dæmi skoruðu gestirnir 9 stig í 1. leikhluta og töpuðu 29 sinnum knettinum frá sér í leiknum sem segir allt sem segja þarf.

ÍR-ingar vilja eflaust ekki horfa á upptöku frá þessum leik því á stundum var líkt og smjörlíki væri á knettinum er þeir reyndu skot eða sendingar. Að auki gáfu þeir aðeins 4 stoðsendingar í leiknum, sem er líkast til Íslandsmet! Eugene Christopher var svo sannarlega ekki "í stuði" því hann skoraði aðeins úr 2 skotum af 20 utan af velli. ÍR-ingar voru með yfirhöndina allt þar til í lok 3. leikhluta er allt rann þeim úr greipum.

"Ég er í ágætu standi líkamlega," sagði Teitur Örlygsson eftir leikinn. "Það er samt sem áður gaman að detta inn í þetta á ný, en ég hef aðeins æft í eina viku í vetur og á því langt í land,"sagði Teitur.

Eggert Garðarson þjálfari ÍR-inga átti varla til orð til þess að lýsa leik sinna manna. "Á stundum var þetta eins og hjá börnum. Ég get fullyrt að þetta er slakasti leikur liðsins í mörg herrans ár."

Teitur, Páll Kristinsson og Friðrik Stefánsson, sem tók 19 fráköst, voru lykilmenn Njarðvíkinga að þessu sinni. Egill Jónasson lék í 7 mínútur og varði 4 skot á þeim stutta tíma.

Í liði ÍR var Eiríkur Önundarson þokkalegur og Fannar Helgason sýndi ágæta baráttu.

Fyrsti sigur Skallagríms

Leik Skallagríms og Grindavíkur lyktaði með sigri Skallagríms, 76:73, í Íþróttahúsinu í Borgarnesi í gærkvöldi. Loksins gengu hlutirnir upp hjá Skallagrími og leikurinn í gærkvöldi sýndi að ekkert lið getur bókað sigur í Intersport-deildinni. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta og munaði þar mestu um 13 stig frá Páli Vilbergssyni. Varnarleikur heimamanna var ekki alveg nógu traustur í upphafi og Grindvíkingar nýttu sér það óspart. Skallagrímsmenn náðu að laga varnarleikinn þegar líða tók á leikinn. Auk þess náðu mjög svo hreyfanlegir varnarmenn Skallagríms að koma í veg fyrir að Helgi Guðfinnsson fengi pláss til að finna taktinn. Jafnræði var með liðunum alveg þangað til í síðasta leikhluta. Baráttugleði Skallagrímsmanna var áberandi meiri sem skilaði þeim sex stiga mun í stöðunni 71:65 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Þá hafði besti maður Skallagríms, Hafþór Gunnarsson, sýnt mikla hæfileika þegar hann skoraði í tvígang með glæsilegum gegnumbrotum auk þriggja stiga körfu. Síðustu sekúndur leiksins voru æsispennandi. Grindvíkingar höfðu boltann í stöðunni 73:75 en Pálmi Sævarsson komst inn í sendingu þegar átta sekúndur voru eftir og þar með var sigurinn vís. Hafþór skoraði alls 26 stig í leiknum. Pétur Sigurðsson var einnig drjúgur, með 19 stig, ásamt Isaac Hawkins sem tók alls 13 fráköst og barátta hans var mun meiri en sést hefur í undanförnum leikjum. Jafnbestur Grindvíkinga var Darren Lewis sem hélt þeim inni í leiknum í seinni hálfleik. Páll Axel Vilbergsson lét ekki mikið að kveða nema í fyrsta leikhluta. Valur Ingimundarson þjálfari og nú leikmaður með Skallagrími var að vonum ánægður og sagði þetta enga tilviljun þar sem þetta væri það leikskipulag sem þeir hefðu verið að æfa að undanförnu.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar

Höf.: Sigurður Elvar Þórólfsson