STÓR hópur fólks á Íslandi, heyrnarskertir og heyrnarlausir, nýtir sér ekki talað mál í sjónvarpinu eða íslenskum kvikmyndum og lætur nærri að rúmlega einn af hverjum tíu Íslendingum fylli þann hóp, að mati Málfríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Heyrnarhjálpar.
Heyrnarhjálp efnir í dag til Textaþings í samvinnu við hagsmunasamtök eldri borgara og nýbúa, Félag heyrnarlausra og Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra barna þar sem fjallað verður um textun á íslensku efni í sjónvarpi og kvikmyndum sem mjög er ábótavant hér á landi, að hennar mati.
Á þinginu verða tveir erlendir fyrirlesarar, Martin Davies, yfirmaður textavarps hjá BBC og Lillian Vicanek, varaformaður HLF Noregi og forseti Evrópusamtaka heyrnarskertra, EFHOH. Til þingsins er boðið fulltrúum ólíkra neytendahópa og fulltrúum sjónvarpsstöðvanna, kvikmyndagerðarmönnum og öðrum sem koma að framleiðslu á sjónvarpsefni og kvikmyndum. Þá er stjórnmálamönnum boðið auk þess sem menntamálaráðherra flytur ávarp.
Heilmikill undirbúningur liggur að baki þinginu, að sögn Málfríðar, sem fram fer á Grand hóteli í dag milli 13 og 17. Mjög gott aðgengi er fyrir fatlaða, erlendir fyrirlesarar verða raddtúlkaðir, rittúlkur snarar fyrirlestrum og umræðum í texta sem birtist á tjaldi og táknmálstúlkur verður á staðnum. Þá verður lagður tónmöskvi um salinn þannig að heyrnartækjanotendur með svokallaðar T-spólur hafi bestu hlustunarskilyrði sem völ er á.
Skortur á textuðu sjónvarpsefni lýðræðislegt vandamál
Að sögn Málfríðar eru önnur lönd í Evrópu víðast hvar komin mun lengra á veg með textun á innlendu efni en hér er og víða eru samtök heyrnarlausra og heyrnarskertra í mjög náinni samvinnu við sjónvarpsstöðvarnar varðandi textun á efni."Og það er það sem okkur langar að gera hér. Þannig að um leið og við þrýstum á um bætta þjónustu þá séum við einnig samvinnuaðilar," segir Málfríður.
Martin Davies frá BBC mun í erindi sínu greina frá því hvernig þessu samstarfi er háttað í Bretlandi.
Málfríður segir að sjónvarpsstöðvar hér á landi hafi borið við skorti á fjármagni og skort á tækni og að sömu sögu sé í raun að segja alls staðar í Evrópu. Hún bendir hins vegar á að svo virðist sem ekki hafi skort á tækni þegar textun á erlendu efni sé annars vegar.
Lillian Vicanek mun í erindi sínu fjalla um um textun á sjónvarpsefni eins og það snýr að neytandanum og að skortur á textuðu sjónvarpsefni sé í raun lýðræðislegt vandamál. Hún mun ræða um þær leiðir sem víða hafa verið farnar til að tryggja réttindi þessa hóps, s.s. með lagasetningum og þrýstingi frá neytendum. Þá mun hún fjalla um mikilvægi þess að búnaður í sjónvarpstækjum verði staðlaður þannig að fólk geti sótt sér texta við sjónvarpsefni óháð því í hvaða landi viðkomandi er.