BORGARANEFND Norðurlandaráðs leggur til að innflytjendur verði gerðir sýnilegri í norrænum fjölmiðlum, þar sem barátta gegn kynþáttahatri og útlendingaandúð fari einnig fram á þeim vettvangi.
Flemming Oppfeld, þingmaður Venstre í Danmörku, gagnrýndi harðlega þessa tilllögu, sem kynnt var á þingi Norðurlandaráðs á miðvikudag. "Slíkt kallar á ríkisafskipti. Aðlögun næst ekki fram með þvingunum og eftirliti með fjölmiðlum," er haft eftir Oppfeld á vef ráðsins.
Arne Lyngstad, þingmaður Kristilega þjóðarflokksins í Noregi, sem er formaður borgaranefndarinnar, sagði að Oppfeld gengi of langt í túlkun sinni á tillögunni.
"Tillagan undirstrikar einfaldlega hversu mikla ábyrgð ritstjórar á fjölmiðlum bera. Fjölmiðlar eiga að endurspegla samfélagið og það ætti ekki að vera svo erfitt að láta innflytjendur sitja við sama borð og aðra Norðurlandabúa," sagði Lyngstad.
Í tillögunni styður borgaranefndin sömuleiðis að komið verði á fót sameiginlegum gagnabanka um aðlögun útlendinga á Norðurlöndum. "Samanburður á milli norrænu ríkjanna hefur mikla þýðingu ef draga á lærdóm af reynslunni. Hugmyndir sem komið hafa fram í einu ríki geta nýst í öðru. Mikilvægast er að virkja bæði nemendur og fjölmiðla," sagði Lyngstad.