HAGNAÐUR útgerðarfélagsins Guðmundar Runólfssonar hf. á fyrstu níu mánuðum ársins nam 139 milljónum króna, en á sama tímabili í fyrra var 14 milljóna króna tap af rekstri félagsins og hefur afkoman því batnað um 153 milljónir króna.

HAGNAÐUR útgerðarfélagsins Guðmundar Runólfssonar hf. á fyrstu níu mánuðum ársins nam 139 milljónum króna, en á sama tímabili í fyrra var 14 milljóna króna tap af rekstri félagsins og hefur afkoman því batnað um 153 milljónir króna. Þar sem tekjuskattur var tekjufærður í fyrra en er gjaldfærður í ár er munurinn á afkomunni fyrir skatta meiri, eða 308 milljónir króna, og nam hagnaður fyrir skatta í ár 174 milljónum króna. Breytingin milli ára er mest í fjármagnsliðum, en þeir snúast úr 234 milljóna króna fjármagnsgjöldum í 125 milljóna króna fjármagnstekjur. Þetta er bati sem nemur 359 milljónum króna og skýrist alfarið af gengismun. Gengistap í fyrra snerist í gengishagnað í ár og var gengismunur 411 milljónum króna hagstæðari á fyrstu níu mánuðum þessa árs en í fyrra.

Rekstrartekjur lækkuðu úr 750 milljónum króna í 697 milljónir króna og rekstrargjöld úr 545 milljónum króna í 539 milljónir króna. Hagnaður fyrir afskriftir lækkaði því úr 205 milljónum króna í 158 milljónir króna, en afskriftir breyttust lítið milli ára og námu rúmum eitt hundrað milljónum króna á tímabilinu.

Framlegðarhlutfall, þ.e. hagnaður fyrir afskriftir sem hlutfall af rekstrartekjum, versnaði milli ára, fór úr 27,3% í 22,7%. Í tilkynningu frá Guðmundi Runólfssyni til Kauphallar Íslands segir að hækkun gengis krónunnar sé farin að hafa áhrif á framlegð félagsins.

Veltufé frá rekstri lækkaði úr 122 milljónum króna í 97 milljónir króna.

Heildareignir lækkuðu lítillega frá áramótum og námu tæpum 2,3 milljörðum króna í lok september. Eigið fé hækkaði hins vegar úr 458 milljónum króna í 586 milljónir króna og eiginfjárhlutfall hækkaði úr 17,3% í 25,8%. Arðsemi eigin fjár var 30,3%, en í fyrra var arðsemin neikvæð um 3,6%.