ÁSTA Ragnheiður er stjórnmálamaður sem kosið hefur að beita áhrifum sínum og krafti fyrir þá sem af ýmsum orsökum eiga á brattann að sækja í samfélaginu, fatlaða, þroskahefta, geðsjúka, foreldra barna með langvinna sjúkdóma, forræðislausa feður, aldraða...

ÁSTA Ragnheiður er stjórnmálamaður sem kosið hefur að beita áhrifum sínum og krafti fyrir þá sem af ýmsum orsökum eiga á brattann að sækja í samfélaginu, fatlaða, þroskahefta, geðsjúka, foreldra barna með langvinna sjúkdóma, forræðislausa feður, aldraða og öryrkja svo nokkrir hópar séu nefndir.

Ég hef fylgst með því um árabil hvernig hún berst fyrir og gætir hagsmuna þessa fólks á Alþingi, í fjölmiðlum, á þeirra eigin vettvangi og ekki síst baráttu þeirra sem einstaklinga við oft á tíðum flókið og miður notendavænt velferðarkerfi. Ég hef fundið hversu annt henni er um þetta fólk og málefni þess og hversu ódrepandi hún er í baráttu þeirra sem einstaklinga eða á vettvangi Alþingis.

Alþingi þarf á þingmönnum eins og Ástu að halda, fólki sem hefur hugsjónir og hefur kraft, hugkvæmni og hugekki til að fylgja þeim eftir. Fólki sem lætur um sig muna í samfélaginu.

Nú þarf Ásta hins vegar á okkur að halda. Ég skora því á alla að vinna að því ötullega að koma henni í þriðja sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Þórey V. Ólafsdóttir, sálfræðingur og félagsráðgjafi, skrifar:

Höf.: Þórey V. Ólafsdóttir, sálfræðingur, félagsráðgjafi,