LAUGARDAGINN 9. nóv. nk. veljum við sjálfstæðismenn, í hinu nýja Norðvesturkjördæmi, þá sem leiða lista okkar fyrir næstu alþingiskosningar. Það er okkur mikilvægt að horfa á þetta nýja kjördæmi sem eina heild og gleyma gömlu kjördæmamörkunum, þau heyra sögunni til. Ég kynntist Einari Kristni Guðfinnssyni fyrst er við sátum saman í stjórn Fiskifélags Íslands þar sem hann gegndi formennsku. Mér var strax ljóst að þar fór mikill dugnaðar- og forystumaður sem mikils mátti vænta af.
Hann átti meðal annars stóran þátt í því að gera Fiskifélagið að þeim regnhlífarsamtökum hagsmunaaðila í sjávarútvegi, sem það er í dag. Ég hef fylgst með störfum og málflutningi Einars Kristins síðan og líkað vel hans áherslur og barátta fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar. Allur hans málflutningur ber vitni þeim metnaði sem hann hefur fyrir hinar dreifðu byggðir. Ég skora á því á okkur öll að tryggja, að Einar Kristinn sé í forystusveit Sjálfstæðisflokkins í kosningunum vor. Hann er traustur og öflugur baráttumaður sem hefur hagsmuni byggðanna að leiðarljósi. Kjósum Einar Kristin í prófkjörinu hinn 9. nóv. nk.
Elínbjörg Magnúsdóttir, Akranesi, skrifar: