ÓLÍKAR leiðir koma til álita þegar rætt er um að efla íslenskt atvinnulíf og styrkja stoðir samfélagsins. Til eru þeir sem sjá í hillingum álver við hvern íslenskan fjörð og telja framtíð Íslands fólgna í stóriðju. Aðrir finna slíkum áformum allt til foráttu og vilja leggja allt í sölurnar til að styðja við hátækniiðnað og menntun. Þótt ég sé síður en svo alfarið á móti virkjunum eða stóriðju þá hallast ég frekar að síðara sjónarmiðinu. Þar bjóðast lausnir sem hæfa betur íslenskri menningu, hugviti og hugsun. Mér sýnist að Finnar hafi að nokkru leyti lagt okkur í hendur rök til að ræða um framtíðarmöguleikana eftir nýjum leiðum.
Finnska leiðin er einfaldlega sú að veðja á skynsemina, veðja á menntun, veðja á hugvitið og mannauðinn. Finnar höfðu um langt árabil lagt rækt við þunglamalegan og gamaldags iðnað og horft mest til austurs eftir mörkuðum. Við breytta stöðu heimsmála söðluðu þeir um á skömmum tíma með undraverðum árangri. Öll áhersla var lögð á að efla rannsóknarstarf og menntun. Fjármagni var beint inn á öll skólastig, allt frá leikskólum til sérhæfðrar vísindastarfsemi. Núna, rétt rúmlega tíu árum síðar, standa Finnar fremstir í flokki tæknivæddra iðnþjóða með bestu starfsskilyrði til atvinnurekstrar, mikla útflutningsaukningu og hagvöxt eins og hann gerist bestur. Þeir veðjuðu á réttan hest.
Ungir Íslendingar búa yfir ótrúlegum frumkrafti og sköpunargleði sem þarf að virkja samfélaginu til góða. Framtíðin krefst þess að við nýtum á öllum sviðum þá möguleika sem frjó hugsun og öflugt menntakerfi býður upp á. Við eigum að opna skólana fyrir foreldrum, fyrirtækjum og byggðarlögunum sem hýsa þá. Við eigum að bjóða upp á sveigjanlegri áherslur milli skóla og stuðla að flæði á milli ólíkra skólastiga. Við verðum einfaldlega að opna allt skólakerfið upp á gátt og hleypa að nýjum straumum. Aukið fjármagn er eitt af lykilatriðunum ef vel á til að takast. Kraftmiklir kennarar skipta höfuðmáli við nývæðingu skólakerfisins. Við eigum því að hvetja þá til að taka frumkvæðið og fylgja eftir nýrri hugsun og hugmyndafræði á tuttugustu og fyrstu öld. Sóknarfærin eru í menntakerfinu og rétta leiðin er sú finnska.
Eftir Sigrúnu Grendal
Höfundur tekur þátt í flokksvali Samfylkingar í Reykjavík.