"Samfylkingin hefur sett fram markvissar tillögur um fiskveiðistjórnun."

KVÓTAKERFI í fiskveiðum var tekið upp 1981 í þeim tilgangi að draga úr sókn og byggja upp illa leikna fiskistofna. Á þessum tíma vissi enginn hver verðmæti gætu falist í úthlutuðum kvóta. Kerfið byggðist á líffræðilegum forsendum. Það sem á eftir kom, framseljanlegi kvótinn í nafni hagræðingar, hefur valdið miklum átökum og svo verður áfram í íslensku samfélagi verði ekki betur búið um hnútana. Hagræðing er mikilvægt markmið, en má ekki verða tæki til ójöfnuðar og blindrar samþjöppunar.

Spyrja má, hvar endar þessi samþjöppun kvótans?

Fagleg umræða verður að lifa

Kvótakerfið byggist á líffræðilegum og hagfræðilegum þáttum, en undirstaðan er vistfræðileg þekking á lífríki sjávar. Mér virðist orðið þrengt að þeirri faglegu umræðu sem þarf að fara fram um grundvöll fiskveiðistjórnunarinnar. Hagsmunaaðilar virðast bregðast jafnharðan við og reyna að slá nýjar vísbendingar og hugmyndir út af borðinu, samanber nýlegar niðurstöður rannsókna um áhrif veiðarfæra á erfðir og vöxt fiska. Þeir eru til í harðan slag til að þagga niður í blaðamönnum vegan frásagna af brottkasti úr afla skipa. Þaðan mun sú þekking koma sem mestu skiptir við framtíðarnýtingu fiskistofnanna. Íþyngjandi er, hve lítið hefur miðað í tuttugu ár við uppbyggingu þeirra í núverandi kerfi.

Örva þarf umræður og sækja nýja þekkingu víða; enn vitum við lítið um áhrif hinna nýju manngerðu umhverfisþátta á nýliðun fiskistofnanna, t.d. veiðarfæranna og afkastagetu skipanna. Sjálfbærar verða veiðarnar ekki nema að teknu tilliti til þessara áhrifavalda.

Stjórnmálin enn og aftur

Samfylkingin hefur sett fram markvissar tillögur um fiskveiðistjórnun, en hún þarf aukinn styrk til að vinna að framgangi þeirra, vinda ofan af ójafnaðarkerfinu, skila í áföngum því sem tekið hefur verið og festa rétt þjóðarinnar í stjórnarskrá. Skerpum skilning á þeirri hættu sem felst í því að hagsmunahópi takist að einoka umræðuna um grundvöll fiskveiðistjórnunarinnar. Veitum þeim vísindum eðlilegt svigrúm, sem lagt geta umræðunni lið til að fjalla á gagnrýninn hátt um þennan sama grundvöll.

Eftir Stefán Bergmann

Höfundur tekur þátt í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Höf.: Stefán Bergmann