NOKKUR hundruð manns taka þátt í Skjálftamóti í Kópavogi nú um helgina. Keppt er í Counter Strike, Warcraft III og Quake II og III. Þessi nöfn eru líkast til útlenska fyrir flestum en ekki þeim 550, sem taka þátt í tölvuleikjakeppninni sem fram fer í Íþróttahúsi HK í Digranesi.
"Sumir fara ekki heim alla helgina. Það verður hægt að sofa hérna," segir Kristjón Sverrisson, skipuleggjandi keppninnar, og gefur það innsýn í hversu mikill áhugi er á tölvuleikjakeppninni. Mestur er áhuginn á Counter Strike, að sögn Kristjóns, en þar keppa 60 lið og alls 300 keppendur.
Eitt þessara liða er nK, lið Digranesskólanemanna Kristófers Gunnarssonar, 14 ára, og Hermanns Jóhannessonar, 13 ára, og þriggja félaga þeirra. Þetta er fyrsta mót Hermanns, hann hefur spilað bardagatölvuleikina frá síðustu jólum. Kristófer hefur áður tekið þátt en hann hefur spilað heldur lengur. Skjálftamótin eru haldin fjórum sinnum á ári í samvinnu við Símann. Keppendur leggja til tölvu en netsamband er á staðnum og er íþróttahúsið allt lagt undir keppnina enda fjöldi keppenda mikill.
Ekki gild afsökun
Hermann og Kristófer segjast oftspila leikina í um fjórar klukkustundir á dag. Báðir segjast taka lengri hlé inn á milli og Kristófer æfir einnig handbolta. "Ég spilaði lítið í sumar," segir Hermann. Þeir eru sammála um að spilið hindri stundum herbergistiltekt og ekki sé laust við að foreldrarnir geri athugasemd þegar kappið er hvað mest. "Það er ekki gild afsökun að segjast þurfa að spila," útskýra strákarnir og segja spilið ekki koma niður á námsárangrinum.Þeir eru sammála um að hægt sé að læra eitthvað á umræddum tölvuleikjum. Hermann segir að til að ná árangri þurfi snerpu og að vera fljótur að hugsa. Strákarnir benda líka á að samheldni sé í liðunum og ekkert sérstakt flakk á milli liða.
"Þetta er umfram allt skemmtilegt. Counter Strike er lífsstíll eins og margir segja," segir Hermann.
Eftirtekt vekur að aðeins á milli fimm og tíu stelpur taka þátt í keppninni um helgina. "Það er nokkur fjölgun frá fyrri árum," segir Kristjón, sem hefur tekið þátt í skipulagningu keppninnar frá 1999, sama ár og Skjálfti var haldinn í fyrsta sinn. Keppendum í heild hefur einnig fjölgað en í upphafi voru þeir um 150.
"Stelpur eru ekki eins mikið fyrir leiki þar sem þarf að skjóta hvorn annan," segir Hermann.
ingarun@mbl.is