Hugborg Þuríður Benediktsdóttir fæddist á Kambsnesi í Laxárdal í Dalasýslu 27. febrúar 1922. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi 23. október 2002. Foreldrar hennar voru hjónin Herdís Guðmundsdóttir, f. í Fremsta Skógskoti í Miðdölum 2. mars 1887, d. 11.6. 1979 á Selfossi, og Benedikt Benediktsson bóndi, f. á Sauðhúsum 14. maí 1886, d. 24. mars 1972 í Reykjavík. Hálfsystir Hugborgar var Kristín Benediktsdóttir, maður hennar var Stefán Ólafsson, þau eru bæði látin. Alsystkini Hugborgar eru Egill Jón Benediktsson, f. 23.12. 1924, fyrrverandi bóndi og hreppstjóri á Sauðhúsum í Laxárdal, kvæntur Önnu Pálínu Jónsdóttur frá Klakksvík í Færeyjum; og Guðlaug Munda Friedel húsmóðir, f. 10.8. 1928, búsett í Duisburg í Þýskalandi, eiginmaður hennar er Rudolf Friedel sjóntækjameistari, f. 3. október 1927 í Þýskalandi.

Hinn 22. ágúst 1947 gekk Hugborg að eiga eftirlifandi eiginmann sinn Ólaf Jónsson, f.v. framkvæmdastjóra á Selfossi, f. 29. mars 1922 á Reyðarfirði. Synir þeirra eru: 1) Jón Ólafsson, f. 11. apríl 1948, fjármálastjóri og ræðismaður Tékklands, kvæntur Sigurborgu Valdimarsdóttur húsmóður, f. 14.12. 1949. Börn þeirra eru: A) Þorgeir, f. 1969, flugmaður, kvæntur Unni Ingibjörgu Jónsdóttur, f. 1969, viðskiptafræðingi og eru börn þeirra Jón Ingvar, f. 1994, og Anna Ingibjörg, f. 1998; B) Ólafur, f. 1973, starfsmaður Steypustöðvarinnar, sambýliskona hans er Esther Ósk Erlingsdóttir, f. 1973, og er sonur þeirra Jón, f. 2000, fyrir átti Ólafur dótturina Þórunni, f. 1991; C) Geirlaug Eva, f. 1980, nemi við Viðskiptaháskólann á Bifröst; og D) Tómas, f. 1970, dýralæknir, og er sambýliskona hans Una Björk Unnarsdóttir, f. 1972. 2) Benedikt Þórir Ólafsson sjóntækjafræðingur, f. 10. apríl 1950, eiginkona hans er Ásta Ingibjörg Hallsdóttir leikskólakennari, f. 13. janúar 1953. Börn þeirra eru Hugborg Erla, f. 1981, í sambúð með Valdimar Gunnarssyni, f. 1978, þau eru við nám á Spáni, Ólafur, f. 1984, nemi við Menntaskólann við Sund og Anna Lísa, f. 1990. 3) Kjartan Þorvarður Ólafsson, alþingismaður og framkvæmdastjóri, f. 2. nóvember 1953, eiginkona hans er Arna Kristín Hjaltadóttir skrifstofumaður, f. 28. sept 1957. Börn þeirra eru Hjalti Jón, f. 1980, nemi í byggingaverkfræði við Háskóla Íslands í sambúð með Sigríði Rós Sigurðardóttur, f. 1979, nema við Kennaraháskóla Íslands, Hugborg, f. 1982, nemi við Fjölbrautaskóla Suðurlands í sambúð með Grétari Magnússyni, f. 1980, nema við Háskóla Reykjavíkur, og Herdís Ólöf, f. 1986 nemi við Verzlunarskóla Íslands.

Hugborg lauk námi frá Héraðsskólanum í Reykholti og Húsmæðraskólanum Laugalandi í Eyjafirði. Hugborg og Ólafur bjuggu lengst af á Selfossi þar sem þau ráku verslunina Sölvason & co, lakkrísgerðina Surtsey og síðar varð Ólafur forstjóri Steypustöðvar Suðurlands. Þau stofnuðu lögbýlið Lækjartún í Ölfusi þar sem þau bjuggu frá 1974. Hugborg tók virkan þátt í félagsstarfi heimabyggðar sinnar, starfaði með Kvenfélagi Selfoss og var lengi formaður Sjálfstæðiskvennafélags Árnessýslu.

Útför Hugborgar verður gerð frá Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. (Hallgr. Pét.)

Það er komið haust og veturinn á næsta leiti. Ég er snemma á fótum eins og vanalega. Ég horfi út um eldhúsgluggann og sé hvernig haustvindarnir feykja laufum trjánna til og frá í skjól uppi við húsið okkar, alltaf á sömu staðina þar sem er logn. Klukkan er ekki orðin hálfátta og ég fer að hella upp á könnuna, þá kvað við símhringing. Það var Kjartan Ólafsson alþingismaður, bróðursonur minn, sem var í símanum og sagði mér að móðir sín hefði látist þá snemma um morguninn. Þó að vitað væri að dauðinn væri yfirvofandi var eins og það kæmi á óvart - svona fljótt. Mæt kona er fallin frá eftir mjög erfið veikindi. Upp í hugann kemur samlíkingin um mannlífið sem tré með stofni, greinum og laufblöðum sem falla til jarðar. Þennan haustmorgun hinn 23. október hefur fallið af fjölskyldutré okkar enn eitt laufið, Hugborg mágkona mín hefur fallið í bylnum mikla, sem við öll lútum í lægra haldi fyrir að lokum.

Nú þegar leiðir skilur langar mig að minnast mágkonu minnar Hugborgar Benediktsdóttur með nokkrum orðum og þakka henni samfylgdina og trausta vináttu við mig og mína um árabil. Hugborg hafði ung að árum komið til starfa hingað að Selfossi og fljótlega tókust kynni hennar og Ólafs bróður míns. Hugborg var ættuð vestan úr Dölum og ekki löngu eftir að þau kynntust héldu þau vestur í Dalina og létu séra Ólaf Ólafsson á Kvennabrekku gifta sig, þetta var á afmælisdaginn minn 22. ágúst 1947. Þau hafa því verið búin að vera gift í rúm 55 ár þegar hún féll frá. Nokkru áður en þau giftu sig hafði Ólafur byggt einnar hæðar verslunarhús með kjallara að Austurveg 22 hér á Selfossi og nú byggði hann hæð ofan á verslun sína og þar stofnuðu þau sitt fyrsta heimili og bjuggu þar í fjölda ára. Þegar foreldrar okkar Ólafs fluttu að Hlaðavöllum 5 þar sem þau eyddu elli sinni fluttu þau Hugborg og Ólafur í Hlaðir, æskuheimili okkar bræðra og bjuggu þar þangað til árið 1974 þegar þau byggðu sér mjög reisulegt hús úti við Árbæjarlæk og nefndu Lækjartún. Þar hafa þau plantað miklu af trjám og ræktað fagran skrúðgarð og þar hafa þau unað hag sínum vel. Hugborg var mjög félagslega sinnuð. Hún starfaði mjög mikið í Kvenfélagi Selfoss og var ritari félagsins í mörg ár. Hún var einnig rammpólitísk og var eindreginn stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og var í nokkur ár formaður í Sjálfstæðiskvennafélagi Árnessýslu og var dugleg og drífandi að vinna fyrir flokkinn.

Hugborg og Ólafur eignuðust þrjá syni Jón, Benedikt og Kjartan, allir eru þeir fjölskyldumenn og eru afkomendur Ólafs og Hugborgar orðnir 17 að tölu. Allt er þetta mikið myndarfólk.

Þau Ólafur og Hugborg hafa alltaf búið nálægt okkur Svövu og voru næstum því dagleg samskipti milli fjölskyldna okkar bræðra árum saman. Þau samskipti hafa alltaf verið með miklum ágætum þar hefur vinátta virðing og ættrækni verið ráðandi.

Lífshlaupi Hugborgar er nú lokið, við Svava og fjölskyldur okkar kveðjum hana hinstu kveðju og biðjum hinn hæsta höfuðsmið himins og jarðar að færa Ólafi og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur og huggun í sorg þeirra.

Páll Jónsson.

Elsku amma. Þegar við heyrðum fyrst að þú værir með þennan hræðilega sjúkdóm fannst okkur þetta allt vera einn stór draumur og biðum þess að vakna upp frá þessum slæma draumi og vita að allt yrði eins á ný. En þegar við áttuðum okkur á því að þér myndi ekki batna og þú varðst veikari og veikari varð þetta allt raunverulegra og erfiðara.

Það eru óteljandi minningar sem koma upp í huga okkar þegar við hugsum til baka.

Ef við skrifuðum niður allar þær minningar um þig sem koma í huga okkar þá gætu þær fyllt heila bók. En þær minningar sem eru efstar í huga eru þær stundir sem við áttum hvað mest saman áður en þú varðst veik. Á sumrin var oft mikið af börnum heima í Lækjartúni og varst þú mjög góður vinur okkar allra og tókst alltaf vel á móti okkur. Þá fórstu gjarnan með okkur í sund í Hveragerði þar sem þú varst dugleg að láta okkur taka sundtökin eða að við sátum úti í garði á teppum með djús og þínar dýrindis kökur sem þú bakaðir svo oft.

Þegar hausta tók var það tilhlökkunarefni að fara með þér og afa í berjamó um allar sveitir. Þá var öllum dollum og dósum safnað saman, hrúgað inn í bíl og keyrt af stað og helst ekki komið heim fyrr en þær voru allar fullar. Á haustin þegar öll barnabörnin nema Herdís voru farin í skóla var Herdís send í ,,Ömmu skóla" þar sem hún lærði að lesa, spila, baka og margt fleira sem enn kemur henni til góða. Einnig kenndir þú okkur að baka kleinur, hekla, prjóna og enn og aftur að spila. Þegar jólin nálguðust vorum það við, þú og mamma sem gerðum laufabrauð sem mátti alls ekki vanta í jólaundirbúninginn. Á Þorláksmessu komum við systurnar alltaf til að skreyta jólatréð á Lækjó, því annan í jólum hélduð þið afi alltaf glæsilega jólaveislu sem allir afkomendurnir mættu svo í. Á vorin fannst þér skemmtilegast að fara með okkur í bíltúr og þá var oftast farið niður í Votmúla til að telja folöldin eða á ströndina og horfa í öldurnar og brimið. Núna síðustu ár fannst ykkur afa alltaf gott að keyra til Hveragerðis og fá ykkur kaffi í bakaríinu og var okkur þá oft boðið með. Þegar upp er staðið áttum við okkur á því hvað við höfum átt í gegnum öll þessi ár og hvað við höfum misst mikið nú þegar þú ert látin, en þó hefur afi misst mest. Við sem eftir lifum erum með stór sár í hjörtum okkar sem seint munu gróa en okkur hlýnar strax um hjartarætur að vita að þér líður vel þar sem þú ert núna. Elsku amma, hvíl þú í friði.

Þínar sonardætur,

Hugborg og Herdís

Ólöf Kjartansdætur.

Það voru váleg tíðindi, sem bárust fjölskyldunni nú á haustmánuðum þess efnis, að amma væri orðin alvarlega veik af krabbameini. Hún, sem alltaf hafði verið svo hraust og aldrei kennt sér meins. Þessi illvígi sjúkdómur var kominn það langt á leið þegar hann uppgötvaðist, að óvíst var um lækningu. Það hafði hins vegar ekki sjáanleg áhrif á ömmu. Þvert á móti lét hún engan bilbug á sér finna þrátt fyrir erfiðleikana. Hún bar sig ætíð vel og sýndi yfirvegun og innri styrk þar til yfir lauk. Það voru þessir eiginleikar ömmu, sem voru svo einkennandi fyrir hana og ég minnist sérstaklega í fari hennar. Hún bar ávallt annarra hag fyrir brjósti fremur en sinn eigin. Frá ungaaldri fram á unglingsár dvaldi ég á sumrin hjá þeim ömmu og afa, fyrst á Selfossi og síðar í Ölfusi þar sem þau bjuggu sér glæsilegt heimili í Lækjartúni. Þangað var alltaf gott að koma og næg voru verkefnin hvort sem það var gróðursetning, heyskapur eða önnur verk, sem þurfti að vinna. Allar götur síðan höfðum við mikið samband og var það ekki síst amma, sem hringdi reglulega og vildi fá fréttir af sínu fólki. Var henni ætíð umhugað um, að allir væru við góða heilsu og gengi vel í því, sem þeir tóku sér fyrir hendur. Það var alltaf gaman að ræða við ömmu um atburði líðandi stundar en hún fylgdist vel með öllum fréttum og oftar en ekki barst umræðan að pólitískum málefnum þegar fjölskyldan kom í heimsókn. Barnabarnabörnin höfðu ekki síður gaman af því að heimsækja langömmu og langafa og tók amma á móti þeim með kostum og kynjum og var regla hjá henni að baka pönnukökur og draga fram annað góðgæti, sem vakti mikla gleði yngstu kynslóðarinnar. Hún gaf sér iðulega tíma til að spila við þau og lesa með þeim og eru þau afar lánsöm að hafa kynnst langömmu sinni. Það má segja að hún og afi hafi verið hornsteinn fjölskyldunnar, sem alltaf var gott að leita til, og er því mikið skarð fyrir skildi í fjölskyldunni við fráfall ömmu. Ég vona að guð veiti afa og okkur öllum styrk til að að takast á við orðinn hlut. Eftir lifir minningin um góða konu sem aldrei mun gleymast.

Þorgeir Jónsson.

Það er kominn tími til að kveðja. Amma okkar Hugborg Benediktsdóttir er látin eftir stutta en erfiða sjúkrahúslegu. Fráfall ömmu var óvænt, því hún var alla tíð mjög heilsuhraust.

Að leiðarlokum langar okkur að færa henni þakklæti okkar, því hún var svo miklu meira en amma. Hún var sannkallaður vinur sem var alltaf til staðar og til hennar gat maður leitað og verið þess fullviss að hún væri að ráðleggja af heilum hug.

Amma okkar var yndisleg kona og á langri ævi ávann hún sér marga vini vegna persónutöfra sinna og útgeislunar. Amma og afi voru ákaflega samrýnd, þau áttu mörg góð og viðburðarík ár og eignuðust yndislega fjölskyldu.

Amma var alltaf síkát og brosandi, hún tók vel á móti okkur og var alltaf tilbúin að taka í spil. Hún hafði góða kímnigáfu og sagði okkur oft brandara. Hún var einstaklega jákvæð gagnvart lífinu og horfði alltaf fram á veginn.

Heimili þeirra hjóna, Lækjartún, er sannkallað ættarsetur, þar undu þau sér vel við trjárækt og gróðursetningu, sem var þeirra líf og yndi og er garðurinn svo sannarlega til vitnis um það, eitt blómskrúð. Það voru forréttindi að fara til ömmu og afa í sveitina, draumur að komast þangað frá stressinu í Reykjavík.

Lækjartúnið er sannkölluð paradís þar sem maður gat látið hugann reika, leikið sér í læknum, klifrað í trjánum og gróðursett blóm og plöntur með afa og ömmu.

Amma okkar var kona sem við öll litum upp til og munum gera um alla ævi, hún var miðpunktur fjölskyldunnar og fyrirmynd allra. Við munum sakna hennar og þökkum guði fyrir þann tíma sem hún gaf okkur.

Megi guð gefa afa styrk í þessari miklu sorg.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgr. Pét.)

Þín elskandi barnabörn

Hugborg Erla, Ólafur

og Anna Lísa.

Mér brá þegar ég frétti af alvarlegum veikindum hennar Hugborgar vinkonu minnar. Nú er vitað að Hugborg hafði veikst fyrir löngu án þess að fundin væri skýring á. Þessi víkingur hafði harkað af sér lengi án þess að nokkur renndi grun í hve alvarleg veikindin væru.

Hugborg var húsmóðir af gamla skólanum og sinnti heimili sínu af einstakri prýði og passasöm með börnin sín að þau kæmust til manns. Þetta fórst henni einstaklega vel úr hendi. Þannig skilur hún eftir sig þrjá myndardrengi sem hafa komið sér upp glæsilegum hópi barna og barnabarna sem Hugborg var einstaklega stolt af.

Ég var svo lánsamur að dveljast oft hjá Hugborgu sem drengur. Það var mér gott veganesti, enda var ég í faðmi Hugborgar og Óla pabba, eins og ég kallaði móðurbróður minn. Hugborg reyndist mér alla tíð vel þegar ég leitaði til hennar. Hún var myndarleg kona, vörpuleg á velli, hnarreist og hafði tiginmannlega framkomu, enda bar maður óttablandna virðingu fyrir henni. Hún siðaði mann með strangri mildi. Hún fór ekkert leynt með skoðanir sínar á mönnum og málefnum og fylgdist grannt með.

Nú er skarð fyrir skildi hjá fjölskyldunni. Nú er hún sofnuð svefninum langa en við örvæntum ekki því Drottinn segir í Jóh. 5:28-29: "Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins."

Í trausti þessa fyrirheits þá vonast ég til þess að fá að hitta vinkonu mína á ný í himneskum heimkynnum í fyllingu tímans. Þangað til verðum við sem eftir lifum að minnast góðrar konu og þakka allar góðu stundirnar, og þreyja þorrann með Guðs styrk. Ég sendi Óla pabba og glæsilega hópnum hans innilegar samúðarkveðjur og bið þeim blessunar og styrks. Megi Hugborg hvíla í friði.

Þorsteinn Halldórsson.

Garðablóm hafa látið undan vetrarkuldanum og nú hefur þú, Hugborg, sem varst öllum svo góð, kvatt.

"Þetta er hún Hugborg, konan mín," sagði Óli fyrir meira en fjörutíu árum, þegar ég var nýkomin til landsins og gisti hjá ykkur á meðan Gunnlaugur var í námi á Selfossi hjá Jóni Pálssyni dýralækni, tengdaföður þínum. Ég skildi ekkert af því sem sagt var, en hlýja viðmótið þitt þurfti engrar þýðingar við. Upp frá því varst þú mér svo miklu meira en bara vinkona. Kannski vegna þess að systir þín, Munda, er gift í Þýskalandi skildir þú mig betur en aðrir. Skildir hvað það var, sérstaklega á fyrstu árum Íslandsdvalar minnar, erfitt fyrir mig. Rætur mínar voru viðkvæmar og ekki búnar að aðlaga sig og festast. Þú hjálpaðir mér og hvattir mig. Fyrstu íslensku setningarnar lærði ég af þér. Einnig siði, íslenska matargerð og margt fleira.

Ánægjustundirnar sem við Gunnlaugur höfum átt með þér og Óla eru margar. Hjá ykkur beið ég eftir tveimur börnum okkar og var eins og ein af fjölskyldunni tímunum saman. Hvenær sem mér og mínum datt í hug að líta inn vorum við velkomin og á nokkrum námsárum sínum voru einnig Barbara og Hákon hluti af fjölskyldunni.

"Ekki hættir þú að heimsækja okkur," sagðir þú, þegar þið fluttust í Lækjartún. Auðvitað hætti ég ekki. Umræður við eldhúsborðið, um fjölskyldur okkar, lífið og tilveruna, sameiginleg áhugamál eins og garðrækt voru upplífgandi og oft fylgdi garðaskoðun í kjölfarið.

Í síðustu heimsókn minni í Lækjartún varst þú að planta út hádegisblómum, uppáhaldsblómum okkar beggja. Í sjúkrahúsheimsókninni til þín blasti við mér lítill vöndur af þeim og veit ég að þér þótti allra blómvanda vænst um hann.

Þú hlúðir að öllum ástvinum þínum og elskaðir þá. Þökk sé að ég var ein þeirra.

Óla, sonum ykkar og öðrum nátengdum votta ég samúð mína.

Renata.

Það eru ekki nema tveir og hálfur mánuður síðan þau Hugborg og Ólafur voru hér á hátíðarstund þegar Barbara, dóttir okkar, lét skíra son sinn og nú er þessi mikla heiðurskona látin. Barbara var svo lánsöm að fá inni hjá þeim hjónum í tvo vetur á námsárunum, var þar ekki aðeins í fæði og húsnæði heldur eins og ein af fjölskyldunni og er ævinlega þakklát fyrir það góða atlæti og metur mikils tryggð þeirra.

Þau Hugborg settu saman bú við Austurveg á Selfossi þar sem Ólafur rak lengi verslunina Sölvason og Co. ásamt Þorvarði Sölvasyni. Síðan settu þau upp lakkrísgerð og söluskála ásamt með vélaumboði. Það var oft í mörgu að snúast, en alltaf var Hugborg sá fasti punktur sem einslægt var til staðar ef eitthvað bjátaði á eða vantaði. Þannig kynntumst við Hugborgu og fjölskyldunni fyrst. Maður varð þess fljótt áskynja að hvarvetna lagði Hugborg gott til. Um tíma var ég aðstoðarmaður hjá Jóni tengdaföður Hugborgar og þegar kom að því að Renata birtist öllum ókunn þá var henni einstaklega vel tekið af Hugborgu og hennar fólki og síðan hafa þær verið vinkonur í þess orðs bestu merkingu.

Eftir að Ólafur hóf rekstur Steypustöðvarinnar og þau fluttust að Lækjartúni, breyttist ýmislegt og Hugborg gaf sér meiri tíma til að sinna hugðarefnum sínum, barnabörnum, garðrækt og fleira. Skrúðgarðinum, sem ævinlega var vel hirtur, hafði hún mikið dálæti á. Oft dvöldust á heimilinu langtímum saman bæði skyldir og vandalausir eins og móðir Hugborgar, Herdís, höfðingleg kona, viðræðugóð í besta lagi og átti þar fagurt ævikvöld.

Nýlega kom til tals við einhvern gestrisni þeirra hjóna og þá var einmitt sagt að það hefði verið sama hvort þau bjuggu við Austurveginn eða í Lækjartúni, það hefði alltaf verið jafn mikið í leiðinni að koma við hjá þeim og tökum við undir það.

Blessuð sé minning hennar og aðstandendum skulu færðar samúðarkveðjur.

Gunnlaugur Skúlason.

Með Hugborgu Benediktsdóttur er genginn mikill máttarstólpi í fjölskyldu okkar. Fjölskylda hennar og manns hennar Ólafs Jónssonar frá Hlöðum og fjölskylda okkar hafa átt náið samstarf og vináttu um áratuga skeið, bæði í starfi og leik.

Minningarnar eru margar og á þessum tímamótum líða þær fyrir hugskotssjónir sem ljúfir draumar og bægja frá vandamálum daganna um stund. Eitt skáldið orðaði það svo: "...öll vor sæla er annaðhvurt, óséð eða liðin."

Tíminn gefur engin grið og fyrr en nokkurn varir er ævin liðin hjá. Allt er breytt og menn sakna heilsu sinnar og hreysti þegar nýir boðar rísa.

Þau sem þetta rita eiga Hugborgu og Ólafi marga skuld að gjalda. Marga glaða stund á heimili þeirra á Selfossi og Lækjartúni. Þar reistu þau sér glæsihús í náttúruperlu Árbæjar, þar sem Jón Pálsson dýralæknir og Áslaug kona hans stunduðu búskap með afkomendum sínum. Sú stórfjölskylda er ógleymanleg þeim sem henni kynntust og fyrirmynd annarra að samheldni og léttleika hugans.

Þetta fólk er einbeitt sjálfstæðisfólk og Hugborg heitin var þar enginn eftirbátur. Hún var skarpvitur í pólitík og var stundum fljót að slá niður ranghugmyndir, sem maður hélt í einfeldni sinni að væru góðar og gegnar. Það leiftrar af minningum um snörp orðaskipti um pólitík á Selfossheimilunum þar sem samt allt fólkið var þó sammála um að vera blátt íhald.

Hugborg var glæsileg kona á velli og fríð sýnum. Hún var ákveðin í framgöngu og lá yfirleitt ekki á skoðunum sínum. Hún var ef til vill ekki allra eins og sagt er. En hún var heilsteypt og vinur vina sinna. Ólafi manni sínum var hún lífsakkerið sjálft og saman eignuðust þau mannvænleg börn og buru. Þau lifðu saman langa ævi þar til Hugborg nú andaðist liðlega áttræð að aldri.

Við sendum Ólafi og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Steinunn og Halldór.

Páll Jónsson.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem.)


Mæt kona er fallin frá eftir stutt en erfið veikindi. Með virðingu og hlýju minnumst við Hugborgar Benediktsdóttur. Við þökkum henni samfylgdina og vináttu um langt árabil. Kæra frændfólk og vinir, Ólafur Jónsson og fjölskylda: Ég og fjölskylda mín sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur.

Jón Helgason