Soffía Aðalheiður Sigurðardóttir fæddist í Vöglum í Vatnsdal í A-Hún 22. apríl 1908. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi 24. október síðastliðinn, Foreldrar hennar voru Pálína Þorbjörg Jósafatsdóttir, f. 29. apríl 1877, d. 20. júní 1963 á Blönduósi, og Sigurður Jónsson, f. 22. okt. 1877, d. 15. okt. 1944, síðast bóndi á Hamri í Svínavatnshreppi. Systkini Soffíu voru sex: Sigríður, f. 1895, Anna, f. 1899, Margrét, f. 1904, Jón, f. 1905, Lárus Georg, f. 1906, og Ingibjörg, f. 1909. Þau eru öll látin.
Soffía giftist 9. nóvember 1927 Jóhanni Hafsteini Jónassyni, f. í Hamrakoti í Svínavatnshreppi 5. okt. 1901, d. á Skagaströnd 11. júní 1975. Foreldrar hans voru Jóhanna Jóhannsdóttir, f. 15. ág. 1866, d. 25. mars 1906 á Litla-Búrfelli í A-Hún. og Jónas Jóhannsson, f. 7. febr. 1868, d. 28. júní 1937, í Hvammi í Vatnsdal. Börn þeirra: 1) Guðrún, f. 7. apríl 1928, gift Páli Aðalsteinssyni, f. 21. mars 1930. Börn þeirra eru a) Hafsteinn, f. 7. sept. 1952, kvæntur Láru Torfadóttur, f. 16. ág. 1956. Börn þeirra: Guðrún Erna, Jóhanna Rut og Snævar Ingi. b) Bjarnveig, f. 6. júní 1954, gift Ingimar Valdimarssyni, f. 3. nóv. 1952, d. 17. nóv. 1995. Börn þeirra: Jóhann Páll, Kristinn Már og Valdís. c) Björk, f. 22. ág. 1955, gift Páli Valdimarssyni, f. 11. júní 1954. d) Hrönn, f. 23. sept. 1956, gift Magnúsi Lúther Alexíussyni, f. 11. des. 1955. Börn þeirra: Brynja og Sindri. Fyrri maður hennar var Gunnar Gunnarsson, f. 8. júlí 1957. Sonur þeirra er Kári. e) Aðalsteinn, f. 2. febr. 1958, kvæntur Helgu Jónu Grímsdóttur, f. 18. nóv. 1960. Börn þeirra: Fannar Páll, Hlín Vala og Arnór. f) Steinþór, f. 23. apríl 1960, kvæntur Áslaugu Guðjónsdóttur, f. 22. júlí 1961. Dætur þeirra eru Hildur og Katrín. g) Gunnar Páll, f. 5. okt. 1961, kvæntur Ástu Pálsdóttur, f. 15. febr. 1965. Synir þeirra eru Páll, Bjarni og Aðalsteinn Ari. h) Snæbjörn, f. 7. okt. 1963, kvæntur Þórdísi Gísladóttur, f. 14. júlí 1965. Synir þeirra eru Vésteinn og Jökull. 2) Jósefína Jóhanna, f. 20. júní 1930. Sambýlismaður hennar er Jóhannes Reynir Albertsson, f. 17. ág. 1939. Hún var gift Þorgeiri Magnússyni, f. 23. des. 1927, d. 29. maí 1997. Börn þeirra: a) Soffía Hafdís, f. 20. nóv. 1952, gift Sigurði Jónasi Þorbergssyni, f. 17. ág. 1949. Dóttir þeirra er Laufey. Fyrri maður hennar var Valgeir Hallvarðsson, f. 15. okt. 1952. Dóttir þeirra er Kolbrún. b) Guðrún Bryndís, f. 3. jan. 1955, gift Jóni Kjartani Sigurfinnssyni, f. 13. maí 1953. Börn þeirra eru Berglind Soffía, Eydís Sigrún og barnabarnið Ástdís Rakel. c) Magnús, f. 3. nóv. 1957, kvæntur Ellý Björnsdóttur, f. 23. febr. 1960. Börn þeirra: Jóhann, Valdís, Þórdís, Elvar og barnabarnið Arnar. 3) Sigurbjörg, f. 1. nóv. 1931, gift Runólfi Aðalbjarnarsyni, f. 19. mars 1934. Börn þeirra: a) Hafsteinn Aðalbjörn, f. 21. okt. 1957, sambýliskona hans er Sigrún Dúna Karlsdóttir, f. 23. febr. 1947. Áður var hann kvæntur Sólveigu Maríu Jörgensen, f. 14. ág. 1962. Dóttir þeirra er Sigurbjörg Sandra. b) Rannveig, f. 10. des. 1958, gift Gauta Jónssyni, f. 14. jan. 1955. Börn þeirra eru Runólfur Bjarni, Elín Valgerður, Jón Gauti og Sigurbjörn Viðar. c) Njáll, f. 28. mars 1962, kona hans er Ingiríður Ásta Þórisdóttir, f. 6. mars 1969. Synir þeirra eru Rúnar Þór og Sigmar Ingi. d) Bjarni, f. 28. nóv. 1963, kvæntur Auði Elfu Hauksdóttur, f. 18. júní 1964. Börn þeirra eru Bjarni Haukur, Ragna Björg, Sigrún Elfa og óskírður sonur. e) Soffía Svala, f. 24. júní 1967, sambýlismaður hennar er Benedikt Blöndal Lárusson, f. 19. maí 1950. Sonur þeirra er Björn Blöndal. Áður var Svala gift Hallgrími Stefánssyni, f. 15. ág. 1962. Börn þeirra eru Nína og Jón Bjarni. 4) Jónas Benedikt, f. 16. ág. 1933, d. 22. nóv. 1995. Sambýliskona I: Elísabet Ásmundsdóttir, f. 23. júlí 1941. Börn þeirra: a) Hörður, f. 2. júlí 1959, kvæntur Dýrfinnu Petru Hansdóttur, f. 8. maí 1957. Börn þeirra eru Ásmundur Tómas og Hanna Lára. b) Rut, f. 24. sept. 1961, maður hennar er Kjartan Ólafsson, f. 11. mars 1959. Dóttir þeirra er Hrönn. Áður var hún gift Ragnari Högnasyni, f. 2. júlí 1959. Börn þeirra eru Kolbrún Jenný, Björgvin Örn og barnabörnin Aron Máni og Alexander Ísar. c) Soffía Sveinbjörg, f. 8. sept. 1972, móðir hennar er Guðrún Sveinbjörnsdóttir, f. 18. ág. 1949. Sambýliskona II: Anna Sigurlaug Guðmannsdóttir, f. 12. ág. 1938. Barn þeirra: d) Guðmann, f. 13. jan. 1974.
Soffía og Hafsteinn byrjuðu sinn búskap í Vöglum í Vatnsdal, bjuggu í Hnausum í Þingi 1931-1934 en þá fóru þau að Njálsstöðum í Vindhælishreppi. Árið 1962 fluttu þau til Skagastrandar en eftir lát Hafsteins hefur Soffía dvalið á Hnitbjörgum, dvalarheimili aldraðra á Blönduósi, en fyrir ári flutti hún á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi. Soffía ólst upp á Másstöðum í Vatnsdal hjá Guðrúnu Jónsdóttur, ljósmóður, f. 21. maí 1869, d. 15. okt. 1947. Hennar ævistarf var fyrst og fremst að vera húsmóðir á stóru heimili. Á Skagastrandarárunum vann hún við fiskvinnslu, en á síðari árum hefur hún haft ánægju af að gera ýmiss konar handavinnu. Hún var formaður Kvenfélagsins í Vindhælishreppi um árabil og starfaði einnig með kvenfélagskonum á Skagaströnd.
Útför Soffíu verður gerð frá Blönduóskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Höskuldsstaðakirkjugarði.
Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfin úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sig.)
Nú er hún amma mín dáin.
Nú er ekki hægt að koma lengur í heimsókn til hennar á Hnitbjörg. Það var alltaf jafngaman að koma til hennar í sumarleyfinu, alltaf tók hún svo vel á móti manni, var alltaf tilbúin með kaffi og kökur. Hún var meira að segja búin að skipuleggja hvar maður fengi að borða kvöldmatinn, því ekki vildi hún að maður væri svangur á ferðalaginu. Þetta voru skemmtilegar stundir sem ég og mín fjölskylda áttum hjá henni. Þegar ég og fjölskyldan ætluðum í frí, var það alltaf fyrsti kostur að það yrði að koma við á Hnitbjörgum á Blönduósi, á okkar ferðalagi. Ég átti þess kost á síðasta sumri að koma til hennar tvisvar, en þá var hún amma komin á sjúkrahúsið á Blönduósi. Margar minningar koma upp í hugann, nú þegar hún er dáin, enda ólst ég upp hjá henni frá 7 ára aldri til 18 ára, fyrst hjá afa og ömmu á Skagaströnd og svo hjá ömmu eftir að afi dó, þangað til ég fór suður í menntaskóla. Hún var mín stoð og stytta í gegnum mína skólagöngu og er ég henni ævinlega þakklátur fyrir það.
Blessuð sé minning hennar.
Hennar sonarsonur,
Hörður Jónasson.
Eftir að afi dó og amma fluttist til Blönduóss var það orðinn fastur liður í daglegu amstri að fara í heimsókn til ömmu og hlusta á hana segja frá gamla tímanum og hennar búskaparháttum í þá gömlu góðu daga.
Ég er þakklát fyrir það að ég og börnin mín hafa fengið að njóta þinnar einstöku hlýju og umhyggju, og það er með söknuði sem við kveðjum þig í hinsta sinn.
Rut Jónasdóttir.
Amma og afi bjuggu á Njálsstöðum í Vindhælishreppi, þaðan og úr sveitinni á ég yndislegar bernskuminningar. Hjá ömmu og afa var mjög gott að vera og þykjast hjálpa til við heyskapinn eða sendast með kaffi á engjarnar, það þótti mikið sport. Þau sýndu mér alltaf mikla þolinmæði og væntumþykju og tóku meira að segja að sér að kenna mér að lesa þegar ég var fimm ára, það ár var ég hjá þeim fram eftir hausti. Jónas móðurbróðir minn og Þorbjörg langamma hjálpuðu einnig til við kennsluna. Þetta var mjög eftirminnilegur tími.
Amma var myndarleg húsmóðir og hafði allt í röð og reglu. Á þessum árum fékk ég að aðstoða hana við morgunverkin eða vökva blómin og sópa gólfin, hún kenndi mér líka að sauma út. Amma hafði gaman af söng og var í kirkjukór á sínum yngri árum, þessi söngáhugi hefur síðan erfst frá henni til næstu kynslóða. Eftir að afi dó flutti amma til Blönduóss. Þar bjó hún á Hnitbjörgum með Margréti systur sinni í rúm 20 ár. Þar var alltaf gott að koma og jafnan tekið á móti mér og fjölskyldu minni með hlaðborði af heimabökuðu bakkelsi og þá þýddi ekkert að halda því fram að við værum ekki svöng.
Amma var mikil hannyrðakona og skilur eftir sig ógrynni af útsaumsmyndum og annarri handavinnu sem við höfum notið góðs af. Það var aldrei slegið slöku við, enda vön mikilli vinnu á sínum búskaparárum.
Ég veit að amma er ánægð með að vera komin til afa, hann var búinn að bíða svo lengi eftir henni.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Soffía Hafdís.
Hraði nútímans hefur sent mig í fjarlægt heimshorn, þannig að ég á þess ekki kost að fylgja Soffíu Sigurðardóttur til grafar. Mig langar því til þess að minnast þessa glæsilega fulltrúa þeirrar kynslóðar sem nú er óðum að hverfa með nokkrum orðum. Síðastliðin þrettán ár hef ég farið að veiða silung í Vatnsdalsá, og lokapunktur veiðiferðarinnar hefur verið að fara til Soffíu, þiggja rjómapönnukökur og kaffi að góðum sveitasið og færa þessum gamla Vatnsdælingi silung í soðið. Margra ára veiðiskapur færði mér ekki minn Maríulax, fyrr en ég hét honum á Soffíu. Og við brá, Maríulaxinn veiddist.
Hjá Soffíu hefur þessi sunnlenski aðkomumaður verið umvafinn hlýju og gestrisni hins gamla sveitasamfélags. Þar voru dægurmálin rædd, fréttir sagðar af skyldmennum og vinum, eins og vera ber þegar gesti ber að garði. Þar gat ég setið og lært af henni, hvernig hægt er að láta viðhorf sín stjórnast af mannkærleik og væntumþykju, og allt hæfilega kryddað með skarpri og stundum beittri kímni. Þessar stundir hafa verið mér dýrmæt áminning um hve auðvelt það er að missa sjónar á þeirri staðreynd, að allt hið mikilvæga í lífinu er einfalt.
Síðastliðið sumar var Soffía komin á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi. Hún hafði ekki tök eða getu til þess að sjóða sinn silung, elli kerling hafði minnt á sig. Hugurinn var ennþá skarpur, en líkaminn orðinn slitinn. Mig vantaði eitthvað eftir heimsóknina, silungnum hafði ekki verið skilað, og það sat tómleiki eftir í hjartanu, tómleiki sem skyggði á þakklætið yfir því að Soffíu skyldi gefast næstum heil öld sem fyrirmynd okkar yngri.
Tímarnir breytast og fólkið með, nú er það ekki lengur merkilegt að vera sigldur eða mælandi á nokkrar heimstungur. Hins vegar er söknuður að virðuleika, reisn og mannkærleika hins gamla samfélags, sem Soffía var svo glæsilegur fulltrúi fyrir. Guð blessi minningu Soffíu Sigurðardóttur.
Páll Valdimarsson.
Mig langar að minnast ömmu minnar með örfáum orðum. Amma var sjálfstæð, góð og kærleiksrík manneskja. Það er mikið ríkidæmi að eiga ömmu sem nær eins háum aldri og amma. Hún minnti mann á ýmis gildi lífsins sem maður átti stundum til að gleyma í hraða nútímans. Amma ætlaði alltaf að verða gömul; eins og hún svo oft sagði sjálf ætlaði hún að verða með elstu kellingum á Íslandi. Hún vildi lengi vel ekki vera minnt á aldurinn. Ég minnist þess þegar hún varð áttræð og við systkinin gáfum henni lampa með stækkunargleri til að hún gæti notið hannyrðanna lengur. Henni hálfsárnaði gjöfin og lét okkur heyra að hún væri ekki orðin það gömul að hún þyrfti á þessu að halda. Amma var mikil hannyrðakona og trúi ég því að við afkomendur eigum öll eitthvað frá henni.
Amma bjó sjálfstætt í eigin íbúð þar til fyrir rúmu ári, en þá flutti hún á öldrunardeild Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi. Þótti henni það miður en aðlagaðist þó fljótt breyttum aðstæðum. Alltaf var gott og mannbætandi að hitta ömmu, en við Palli reyndum alltaf að koma við á leið norður. Við gerðum það að venju að ljúka alltaf árlegri veiðiferð okkar í Vatnsdalsá hjá henni með því að færa henni silung úr heimasveit hennar. Yfir kaffinu var spjallað um heima og geima, lífsreynslusögur og stjórnmál. Á þessum stundum naut ég líka leiðsagnar hennar um ættir og staðhætti í Vatnsdalnum.
Góðar og ríkar minningar fylgja ömmu, ömmu og Möggu frænku, systur ömmu, á Hnitbjörgum. Einnig minnist ég bernskunnar og unglingsáranna þegar ég með foreldrum og systkinum kom í heimsókn til afa og ömmu á Skagaströnd og að Njálsstöðum. Þá minnist ég alltaf ömmu í eldhúsinu og afa við útistörfin. Hlýja og virðing einkenndi alla samveru.
Ég þakka fyrir að hafa átt ömmu svo lengi og kynnst virðuleika og reisn gamla samfélagsins. Minningin mun lifa. Á heimili mínu tifar nú fallega klukkan þeirra ömmu og afa sem hljómaði í nær fimmtíu ár hjá ömmu.
Guð geymi þig, elsku amma.
Þín
Björk Pálsdóttir.
Hörður Jónasson.