Örlygur Sigurðsson listmálari fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1920. Hann lést á Droplaugarstöðum 24. október síðastliðinn og var útför hans gerð frá Langholtskirkju 1. nóvember.

Mér var alla tíð hlýtt til Örlygs Sigurðssonar og minnist ég hans fyrir margra hluta sakir. Örlygur var góðvinur föður míns en þeir höfðu kynnst í Bandaríkjunum, á styrjaldarárunum, þar sem þeir voru báðir við nám. Við heimkomuna urðu þeir nágrannar í Laugarneshverfinu, báðir komnir með trygga lífsförunauta. Vinskapur myndaðist á milli þeirra hjóna með tilheyrandi heimsóknum og oft fengum við krakkarnir að fljóta með. Sunnudagsheimsóknir á heimili listamannsins að Hafrafelli, í hinum friðsæla Laugardal, eru eftirminnilegar. Þá var oft glatt á hjalla og Örlygur lék á als oddi. Ég held að ekki sé hallað á neinn þó ég segi að Örlygur sé fyndnasti maður sem ég hef fyrir hitt um æfina. Ævinlega er ég mætti honum á förnum vegi var hann með veislu af húmor og skemmtilegheitum í farangrinum. Mér segir svo hugur, að Örlygi hafi fundist ríkari þörf fyrir húmor eftir því sem þjóðfélagið yrði tæknivæddara og ofstýrðara. Það bera bráðskemmtilegu bækurnar hans Örlygs svo sannarlega með sér sem útgáfufyritækið hans Geðbót gaf út. Hann var einnig gæddur náðargáfu dráttlistarinnar og teikningin var honum alla tíð afar hugleikin. Örlygur hefur með mannamyndum sínum kennt löndum sínum að sjá og meta teikninguna. Af mörgu er að taka en mér eru sérlega minnistæðar myndir af grænlensku fólki sem Örlygur teiknaði af miklum næmleika og skilningi á viðfangsefninu. Sjálfur segir Örlygur í bók sinni Nefskinnu, að þegar við hættum að teikna, hættum við að sjá. Eftirlifandi eiginkonu hans, Unni og börnum þeirra hjóna, Malín og Sigurði, sendi ég einlægar samúðarkveðjur. Ég þakka Örlygi margar góðar stundir og öll þau skipti sem hann kom mér og mínum til að hlæja. Því eins og hann sagði sjálfur "að framkalla bros á vör og gleðitár á brá hlýtur að vera guði þóknanlegt".

Dennis Davíð Jóhannesson.

Dennis Davíð Jóhannesson.