Sigurður Loftur Tómasson fæddist að Bolafæti, nú Bjargi, í Hrunamannahreppi 16. september 1915. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 21. október síðastliðinn. Hann var sonur Tómasar Júlíusar Þórðarsonar bónda og söðlasmiðs í Bolafæti og síðar á Grafarbakka II í Hrunamannahreppi, f. 21. júlí 1876 í Gröf í sömu sveit, d. 23. mars 1960, og konu hans Þóru Loftsdóttur, f. 10. júlí 1885 í Steinsholti í Gnúpverjahreppi, d. 6. júlí 1970. Systkini Sigurðar eru Sveinn, fyrrv. bifreiðastjóri á Selfossi, f. 1913, Þóra, fyrrv. garðyrkjubóndi á Reykjabakka, f. 10. september 1917, og Sigrún, fyrrv. garðyrkjubóndi á Grafarbakka II, f. 4. febrúar 1924.

Sigurður kvæntist 23. apríl 1953 eftirlifandi eiginkonu sinni Svövu Sveinbjarnardóttur, f. 19. júlí 1926 á Ysta-Skála, V-Eyjafjöllum. Foreldrar Svövu voru Sveinbjörn Jónsson bóndi og kennari á Ysta-Skála, f. 14. janúar 1882, d. 13. júlí 1971, og Anna Einarsdóttir, f. 29. júlí 1985, d. 20. nóvember 1943. Dætur Sigurðar og Svövu eru a) Anna, leikskólakennari, f. 19. nóvember 1953, gift Jakobi Marinóssyni húsasmíðameistara, f. 1956. Börn þeirra eru Sigurður Valur, f. 1977 en sambýliskona hans er Arna Svanlaug Sigurðardóttir, f. 1979, og eiga þau soninn Dag Loga, f. 2001, Helga, f. 1983, og Marinó Þór, f. 1990. b) Þóra, kennari, f. 13. janúar 1956. Börn hennar og Tryggva Gunnarssonar lögfræðings eru Gunnar Smári, f. 1979, Sigurður Kári, f. 1984, og Hallfríður Þóra, f. 1990. c) Sjöfn, kennari og garðyrkjubóndi, f. 1. ágúst 1957, gift Þorleifi Jóhannessyni kennara og garðyrkjubónda, f. 1955. Börn þeirra eru Jóhannes Freyr, f. 1979, Svava, f. 1983, Hildur Guðrún, f. 1991, og Þórný Vaka, f. 2000.

Sigurður fluttist 1935 með foreldrum sínum að Grafarbakka II í Hrunamannahreppi. Hann stofnaði nýbýlið Hverabakka úr landi Grafarbakka II árið 1950 og stundaði þar í upphafi kúabúskap ásamt garðyrkju en síðar eingöngu matjurtaræktun. Hann rak um skeið verslun og var einn af stofnendum Sölufélags garðyrkjumanna. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Hrunamanna og tók virkan þátt í leiklistarstarfi sem leikari og leiktjaldamálari. Hann var um langt árabil formaður sóknarnefndar Hrunasóknar og söng í kirkjukórnum.

Útför Sigurðar verður gerð frá Hrunakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virzt mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. S. Egilsson.)

Sigurður, móðurbróðir minn, er horfinn á braut eftir langa og farsæla ævi. Það var siður Sigurðar að bera lof á menn að þeim viðstöddum sem er mun vænlegra en að bíða með það til minningargreinaskrifa. Þegar Sigurður varð 85 ára gamall gafst mér tækifæri til að tjá honum í eigin persónu megnið af því sem hér er sett á blað.

Sigurður var að mörgu leyti á undan sinni samtíð, sérstaklega í því rótgróna bændasamfélagi sem hann var fæddur inn í. Hann tók virkan þátt í starfi Ungmannafélags Hrunamanna og var ritari félagsins um árabil. Sigurður var listaskrifari og bera gamlar fundargerðir félagsins og ársskýrslur listfengi hans fagurt vitni. Sigurður tók virkan þátt í leiklistarstarfsemi og lá afar vel fyrir honum að fara með gamanhlutverk. Hann sá einnig um leiktjaldamálun en þar komu listrænir hæfileikar hans líka að góðu gagni. Sigurður fór lengi með stærsta hlutverkið á jólatrésskemmtunum á Flúðum.

Sem dæmi um framsýni Sigurðar má nefna að hann stundaði hænsnarækt á yngri árum og stofnaði árið 1955 fyrstu verslun í Hrunamannahreppi sem hann rak nokkur ár í húsi sem Sveinn bróðir hans hafði byggt á Laxárbakka.

Um 1944 reisti hlutafélagið Gróður eina af fyrstu garðyrkjustöðum á landinu á Grafarbakka og gerist Sigurður þegar starfsmaður hennar. Fljótlega keypti hann gróðrarstöðina og hóf umfangsmikla gróðurhúsa- og útirækt.

Um 1950 stofnaði Sigurður nýbýlið Hverabakka úr landi Grafarbakka II og reisti sér íbúðarhús. Hann teiknaði húsið sjálfur og var það mörgu leyti frábrugðið íbúðarhúsum sem reist voru í sveitum um það leyti. Hátt var til lofts, stórir gluggar og stórar stofur. Svava Sveinbjarnardóttir kom til Sigurðar sem ráðskona vorið 1952 og gengu þau í hjónaband 23. apríl 1953. Bróðir Svövu, séra Sveinbjörn heitinn Sveinbjörnsson, var prestur í Hruna í yfir 40 ár og var mikill samgangur á milli heimilanna.

Sigurður hafði mikinn metnað fyrir hönd dætra sinna og þótti sjálfsagt að þær gengju menntaveginn sem var ekki orðið mjög algengt í sveitum á þeim tíma. Hann ók þeim t.d. öllum á Land-Rovernum til náms að Skógum í heimasveit Svövu. Þau hjónin studdu vel við bakið á dætrum sínum alla tíð og hefur uppskeran verið í samræmi við það. Þær lögðu allrar fyrir sig uppeldismenntun, Anna er leikskólakennari og þær Þóra og Sjöfn grunnskólakennarar. Barnabörnin eru orðin tíu og á síðasta ári fæddist fyrsta barnabarnabarnið. Sjöfn yngsta dóttir þeirra og Þorleifur maður hennar tóku upp merki Sigurðar og reka þau myndarlega garðyrkjustöð á Hverabakka. Anna og Þóra og fjölskyldur þeirra búa í Reykjavík en hafa alltaf átt traustar rætur heima á Hverabakka.

Sigurður var garðyrkjumaður af lífi og sál. Gaman var að sjá til hans á skyrtunni í hellirigningu eftir langan þurrkakafla á vorin við að bera áburð á kálgarðana. Þá naut hann þess að blotna eins og gróðurinn. Garðyrkjan á Hverabakka krafðist oft mikils mannafla og fjöldi unglinga starfaði þar á sumrin. Það var gott að vinna á Hverabakka, unglingarnir hvattir áfram með miklu hrósi og engin smámunasemi þótt eitthvað færi úrskeiðis. Á uppskerudögum var oft glatt á hjalla og handagangur í öskjunni þegar koma þurfti mörgum tonnum af káli og öðru grænmeti á markað. Sigurður notaði oft orðatiltækið "sjaldan stendur liðsmaður lengi hjá" þegar honum fannst vinnufólkið taka rösklega til hendinni. Viðurgjörningur hjá Svövu var einnig eins og best varð á kosið. Margt þessa vinnufólks tengdist heimilisfólki ævarandi vináttuböndum.

Nokkuð var um að fólk falaðist eftir grænmeti hjá Sigurði heima en það var sjaldnast til þægindaauka í miðri uppskeru. Eftir að hafa valið besta grænmetið vigtaði hann það afar ríflega kaupandanum í hag, sló síðan helming af heildsöluverði, jafnaði svo töluna sér í óhag og gaf kaupandanum loks góðan kaupbæti. Margir vildu því eiga viðskipti við Sigurð.

Innandyra á Hverabakka var gjarnan mikið blómskrúð og einkennisplanta heimilisins var lengi risastórt pálmatré sem setti suðrænan blæ á heimilið. Sigurður ræktaði mjög stóran og vel skipulagðan trjágarð í kringum húsið. Garðinn prýddi gjarnan fjöldi fjölærra jurta og sumarblóma sem Sigurður ræktaði sjálfur. Í trjálundi í garðinum kom hann fyrir bekk og hafði mikla ánægju af að spjalla þar við gesti sína í laufskrúðinu. Aldrei fannst honum of mikið komið af trjám í kringum sig.

Sigurður lagði óvenju mikið upp úr að fegra og skreyta heimilið. Hafði gaman af fallegum munum og málverkum og safnaði bókum. Sérstaklega naut hann sín við undirbúning jólanna. Minnisstæðar eru jólaskreytingar sem hann bjó til. Einnig málaði hann jólamyndir en fyrir kom að hann seldi slíkar myndir í Kaupfélaginu á Selfossi. Reyndar var Sigurður alla tíð sjálfstæðismaður og átti viðskipti við Kaupfélagið Höfn.

Á Hverabakka hefur alla tíð verið afar gestkvæmt og þau Sigurður og Svava vinamörg. Hjónin voru samhent í því að taka vel á móti gestum. Sigurður veitti vel í drykk og Svava í mat og oft var tekið lagið. Sigurður gat sungið bassa við öll nánast öll lög, jafnvel popp og önnur dægurlög. Einn var sá eiginleiki Sigurðar að hann átti afar auðvelt með að hrósa fólki. Hólinu kom Sigurður til skila á þann einstaka hátt að útilokað var að líta á það sem uppgerð, smjaður eða oflof. Flestir fóru því frá Hverabakka glaðari og bjartsýnni en þegar þeir komu og konurnar yngdust upp. Auk fjölda vina og kunningja vöndu komu sína að Hverabakka flestir þeir læknar, prestar, þingmenn, skólastjórar og aðrir fyrirmenn sem í sveitinni störfuðu um skemmri eða lengri tíma. Við þetta fólk kom Sigurður fram sem sannur heimsborgari. Hann hafði alla tíð gaman af því að eiga vín og veita vín, svo sem verið hafði um Tómas föður hans, en fór hóflega með sjálfur og var raunar bindindismaður á vín og tóbak fram á fertugsaldur.

Sigurður hélt oft skemmtilegar tækifærisræður og gat verið afar orðheppinn. Ýmis skemmtileg tilsvör hans munu lifa áfram í minningu þeirra sem hann þekktu. Sem dæmi um kímni Sigurðar má nefna að eitt sinn er tveir löglærðir kunningjar mínir voru við uppskerustörf á akri móður minnar kom Sigurður bróðir hennar þar að og sagði stundarhátt: "Hvernig hefur þú ráð á að hafa þrjá lögfræðinga í vinnu við að skera upp kál, Sigga?"

Sigurður var alla tíð afar heimakær. Hann hafði meira gaman af því að taka á móti gestum en að sækja aðra heim. Þegar hann taldi sig hafa dvalið nægjanlega lengi sagði hann oft: "Gestir geta nú stundum verið þreytandi," og fór við svo búið. Þó hafði hann afar gaman af því að ferðast og sækja veislur og mannfagnaði. Sigurður kom nær daglega á bernskuheimili mitt á leiðinni í eða úr gróðurhúsunum og fékk sér kaffibolla. Það er mér í fersku minni þegar hann sagði Þóru móður sinni og öðru heimilisfólki ferðasögur sínar og fjálglegar lýsingar á höfðinglegum móttökum. Magnúsi föður mínum og Sigurði varð vel til vina og þótt nábýlið væri mikið milli Grafarbakka og Hverabakka bar aldrei skugga á í samskiptum milli bæjanna.

Í jarðskjálftunum á Suðurlandi á þjóðhátíðardaginn árið 2000 skemmdist íbúðarhúsið á Hverabakka mjög illa. Hjónin festu þar vart yndi eftir það og var það Sigurði mikið kappsmál að byggja nýtt hús. Fyrir tilstilli Jakobs tengdasonar hans var þeim hjónum reist nýtt, bjart og fallegt hús sunnan gamla hússins og fluttu þau inn síðsumars 2001. Sigurður undi hag sínum afar vel í nýja húsinu og naut vel sumarblíðunnar og útsýnisins þaðan síðastliðið sumar.

Sigurður var alla tíð harðduglegur og slakaði lítið á í vinnu fyrr en hann var kominn yfir áttrætt. Hann var síungur í anda og lengi vel kom hann ekki nálægt neinu sem kallaðist tómstundastarf aldraðra. Taldi slíkt ekki vera nema fyrir gamalmenni þótt þar hafi starfað að kappi fólk sem var 10-15 árum yngra en hann. Allra síðustu árin fór heilsan að bila en hann hélt þó fullum andlegum kröftum og fylgdist vel með fram á síðasta dag. Æðruleysi hans í alvarlegum veikindum síðustu vikur var einstakt og stutt í gamansemina við starfsfólk Sjúkrahúss Suðurlands sem annaðist hann af kostgæfni síðustu sjö vikurnar.

Ég kveð Sigurð frænda minn með söknuði.

Sigurður Tómas Magnússon.

Minn góði vinur og tengdafaðir, Sigurður Loftur Tómasson garðyrkjubóndi, er fallinn frá. Sigurður var óvenjulegur maður fyrir margra hluta sakir. Ég dróst strax að honum frá fyrstu kynnum og með okkur tókst vinskapur sem aldrei bar skugga á. Þegar ég hóf að stunda garðyrkju með honum að Hverabakka var hann ætíð tilbúinn að aðstoða og leiðbeina og gefa eftir það rými sem til þurfti.

Sigurður var einn af frumkvöðlum í garðyrkju á Íslandi. Hann var fagurkeri og byggði sér veglegt einbýlishús áður en hann gifti sig. Hús þetta þótti framúrstefnulegt og óvenjulegt og hann skreytti það að innan eftir eigin höfði með fallegu grjóti, speglum, blómum og ljósum þvert á skoðanir manna um hýbýlaskreytingar í þá daga.

Sigurður var svo lánsamur að kynnast konu sinni, Svövu Sveinbjarnardóttur, þegar hann var kominn á fertugsaldurinn og eignuðust þau þrjár fallegar dætur. Urðu við það miklar breytingar á högum einyrkjans að Hverabakka. Þau hjón voru samhent og framúrskarandi gestrisin og vinsæl. Fáar helgar man ég þar án gesta. Siggi var mikill gleðimaður og fátt þótti honum skemmtilegra en að eiga góða stund með vinum sínum og fá sér örlítið í glas.

Allir sem kynntust Sigga löðuðust að hlýju hans og skemmtilegheitum því hann sá alltaf það besta í hverjum manni og hafði lag á að laða það fram. Einhver hafði orð á því að hann kæmi reglulega á Hverabakka til að fá betra sjálfstraust.

Jólin voru skemmtilegur tími á Hverabakka og mögnuð stemmning því Siggi lagði mikla alúð við jólaskrautið og bjó til margslungnar kertaskreytingar úr gipsi og trjábútum.

Siggi var mikill söngmaður og söng í mörgum kórum, m.a. í kirkjukórnum í Hruna. Auk þess söng hann gamanvísur í áraraðir á hjónaskemmtunum á Flúðum.

Siggi var góður og hlýr faðir og ekki síðri afi og voru barnabörnin honum afar kær og lá við að hann treysti okkur foreldrunum tæplega fyrir þeim því hann hringdi iðulega áður en hann fór að sofa til að athuga hvort börnin væru öll heima og hvort þau hefðu ekki örugglega fengið nóg að borða.

Nú þegar komið er að leiðarlokum hjá Sigurði fyllist ég þakklæti fyrir þann tíma sem ég átti með honum og kveð hann sáttur eins og hann kvaddi sáttur við Guð og menn í þeirri vissu að hann verði áfram ávallt hluti af sjálfum mér.

Þorleifur.

Elsku afi minn, þá er komið að kveðjustund. Við áttum samleið í tuttugu og fimm ár og lifir það sem falleg minning um ókomna tíð.

Þeir eru ekki auðfundnir jafnyndislegir og góðir menn eins og hann afi minn var.

Hann var þekktur fyrir hjartagæsku, góðan húmor, dugnað og síðast en ekki síst mikla gestrisni en allt frá því að ég man eftir mér heima hjá afa og ömmu var þar mikið um gestagang enda vissi fólk alltaf hverju það átti von á. Afi var nefnilega þekktur fyrir að veita vel í drykk á meðan amma bar á borð dýrindiskræsingar og oft mætti halda að kóngafólk væri í heimsókn þótt ekki væri nema sveitarómaginn á ferð.

Afi var dugmaður mikill og vann í görðunum fram yfir áttrætt og sló þar mörgum yngri manninum við. Ég var einn þeirra fáu sem varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna með afa síðustu sumrin hans í garðyrkjunni, en ég lærði mikið af honum enda maður sem hlustað var á og borin virðing fyrir. Á síðustu árum hans fór heilsunni hægt hrakandi en það varð þó ekki til þess að stöðva hann í að byggja sér og ömmu nýtt og fallegt hús með hjálp góðra manna. Afi hafði gaman af því að fylgjast með framkvæmdum nýja hússins og kom oft með góðar tillögur um eitthvað sem mátti breyta. Ein er mér þó minnisstæðust. Þegar gamla manninum fannst vanta glugga á syðri gafl hússins voru menn fljótir að kippa því í liðinn og saga út fyrir nýjum glugga. Nýja húsið var honum mjög kært og leið honum vel í því. Þó líkaminn hafi gefið sig var andlega hliðin ávallt sterk og stutt í grínið eins og þegar við komum að heimsækja hann um daginn á sjúkrahúsið. Þá var verið að gefa honum einhvern vökva og sagði hann við hjúkrunarfræðinginn að það væri nú skemmtilegra ef þetta væri koníak.

Við fráfall þitt hefur myndast stórt skarð sem verður vandfyllt. Afi minn, þakka þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman, þótt auðvitað hefðu þær mátt vera fleiri. Guð geymi þig og varðveiti á nýjum og fallegum stað. Elsku amma mín, megi guð styrkja þig við þennan mikla missi.

Sigurður Valur.

Elsku afi. Nú sitjum við hér saman systkinin og rifjum upp allar þær góðu minningar sem við eigum frá samverustundum okkar. Við vorum svo lánsöm að fá að dvelja hjá þér og ömmu í lengri og skemmri tíma heima á Hverabakka. Þær stundir sem við dvöldum þar, hvort sem var við leik eða störf, hefðu ekki verið þær sömu ef ekki hefði komið til nálægðin við þig og ömmu. Að fá að kynnast þér jafnvel og við fengum eru forréttindi sem aldrei verða tekin frá okkur. Þú áttir þinn þátt í að móta okkur og gera okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag. Góðvild þín og lífsgleði var ætíð uppspretta margra gleðistunda sem við deildum með þér hvert okkar á sinn hátt. Þú barst alltaf hag okkar fyrir brjósti og vildir að við stæðum okkur vel í því sem við tækjum okkur fyrir hendur. Þau voru ófá samtölin sem við systkinin áttum við þig um það hvernig okkur gengi í skólanum eða í því sem við höfðum fyrir stafni þá stundina. Þessi samtöl veittu okkur mikla ánægju og efldu okkur til dáða enda var gaman að vita til þess hvað þú fylgdist vel með okkur. Við bræðurnir vorum svo lánsamir að fá að vinna undir þinni leiðsögn við garðyrkjustörfin og veitti það okkur gott veganesti inn í framtíðina.

Við þökkum fyrir allar þær stundir sem við áttum í samfylgd með þér. Guð blessi minningu þína.

Gunnar Smári,

Sigurður Kári

og Hallfríður Þóra.

Elsku afi við kveðjum þig með söknuði og þökkum fyrir allar þær stundir sem við áttum með þér í sveitinni. Það verður tómlegt án þín í nýja húsinu, sem pabbi byggði fyrir ykkur ömmu, og við eigum eftir að sakna þín mikið. Þetta hús var þér mikils virði og þótti þér mikið til þess koma. Í sumar var smíðaður stór pallur fyrir utan húsið sem þú settist oft út á í góðu veðri og horfðir á útsýnið til fjallanna og naust þess að vera úti.

Það eru margar dýrmætar minningar sem við eigum um þig og það voru forréttindi að eiga þig sem afa. Guð styrki ömmu og okkur í sorginni.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virzt mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson.)

Guð geymi þig, elsku afi.

Helga og Marinó Þór.

Í dag kveðjum við þig, elskulegi afi okkar. Það eru mikil viðbrigði fyrir okkur systkinin að þú sért farinn, þar sem þú hefur verið hluti af umhverfi okkar allt okkar líf. Þú varst alltaf svo hress og jákvæður og studdir okkur í einu og öllu sem við tókum okkur fyrir hendur, hvort sem var í námi eða öðru. Þú gafst okkur hollráð og vildir vera viss um að við byggjum við fullkomið öryggi og fengjum ávallt það besta.

Þú varst mikill fagurkeri og hafðir ánægju af ýmiskonar skrauti og fallegum hlutum. Þú hafðir líka gaman af allri ræktun og var gamla húsið ykkar ömmu umlukt blómum og trjám. Þú sast oft úti í garði og fylgdist með hvernig gróðurinn dafnaði á sumrin. Við minnumst þess að húsið ykkar ömmu var opið öllum og alltaf gestir í heimsókn og oft var mikið líf og fjör þegar allar fjölskyldurnar hittust saman á Hverabakka. Við eigum eftir að finna fyrir breytingu þegar við komum í heimsókn á Hverabakka og þú situr ekki lengur við eldhúsborðið með Morgunblaðið fyrir framan þig og tekur okkur fagnandi.

Við munum alltaf minnast þín sem duglegs og jákvæðs manns sem vildi öllum vel og maður fann alltaf fyrir hlýju í nálægð þinni. Þó að heilsu þinni hafi hrakað síðustu árin varst þú alltaf jafnyndislegur og -áhugasamur um okkar hagi. Afi, þú varst sönn hetja þar sem þú lást sjúkur á spítalanum í margar vikur, því þú varst alltaf mjög heimakær og fannst gott að vera heima með ömmu í rólegheitum.

Við viljum þakka þér fyrir öll árin sem við áttum með þér og ógleymanlegar minningar.

Guð blessi þig, elsku afi.

Jóhannes Freyr, Svava,

Hildur Guðrún

og Þórný Vaka.

Það var í sumarbyrjun og ég var í rútu á leiðinni upp í sveit til Svövu föðursystur minnar og Sigurðar á Hverabakka. Ég var full tilhlökkunar og fannst ferðin ganga fullseint, en Ólafur Ketilsson bílstjóri var ekkert að flýta sér. Um vorið í fermingarveislunni minni buðu þau mér að koma og dvelja hjá þeim á Hverabakka í nokkrar vikur og hjálpa til við garðyrkjustörfin. Ég hafði sjaldan heimsótt þau og dæturnar þrjár. Loksins var ég komin og þau tóku á móti mér opnum örmum.

Við Magga frænka og systurnar Anna, Þóra og Sjöfn unnum við matjurtaræktunina og var glatt á hjalla, mikið hlegið og sungið. Þótt oft væri mikill gusugangur á okkur stelpunum tók Sigurður öllu með hlýju og brosi á vör. Hann var mjög skapgóður, þolinmóður og óspar á hrós og hvatningu. Ég naut þess að vinna undir handleiðslu hans og að vera umvafin gróðrinum. Ég á það eflaust Sigurði að þakka að ég lærði garðyrkju og vann við það starf í mörg ár.

Það var ævintýri líkast að dvelja á Hverabakka. Fallega húsið þeirra stóð inni í miðjum skógi með fallegum blómagarði og skógarlundi. Mjög gestkvæmt var á Hverabakka, því gestrisnari hjón var vart hægt að finna. Þau tóku á móti öllum fagnandi með glaðværð sinni og hlýju.

Ég kveð Sigurð með söknuði og þakka honum fyrir góðar minningar.

Elsku Svava mín, Anna, Þóra og Sjöfn og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Sigurðar á Hverabakka.

Guðbjörg Garðarsdóttir (Dídí).

Heiðursmaður er fallinn. Það fylgdi Sigurði á Hverabakka jafnan reisn þar sem hann var. Hann var glaðlyndur, hárprúður og hár maður. Gestum tók hann fagnandi og vildi síður fara af bæ um helgar. Það gætu komið gestir.

Það var þessi umhyggja sem einkenndi samskiptin við Sigurð. Hann spurði frétta og var ræðinn um landsmálin og viðfangsefni dagsins. Þótt líkamlegir kraftar væru teknir að þverra var síðasta samtalið sem ég átti við hann á sjúkrahúsi engin undantekning. Hann ræddi þjóðmálin og spurði um margt. Spurði eins og jafnan frétta af unga fólkinu, barnabörnunum. Það vakti reyndar strax athygli mína þegar ég kynntist Sigurði, sem þá var orðinn fullorðinn maður, hversu hann og ungt fólk átti góða samleið. Hann hafði næman skilning á þörfum þeirra og áhugamálum. Lagði sig eftir að hvetja þau og ekki síst til menntunar. Þessa nutu barnabörnin.

Sigurður var af þeirri kynslóð sem hafði á stuttum tíma upplifað miklar breytingar allt frá bernskuárum í torfbænum í Bolafæti. Mér er ekki grunlaust um að þessar miklu og hröðu breytingar hafi einmitt sett mark sitt á líf Sigurðar. Hann vildi gjarnan að hlutirnir gengju hratt fyrir sig og dró þá ekki sjálfur af sér í vinnu. En hann kunni líka að njóta þessara breytinga. Heimili þeirra Sigurðar og Svövu á Hverabakka ber merki um það. Sigurður hafði reyndar sjálfur áður komið upp íbúðarhúsinu og það vakti víst nokkra undrun á sínum tíma að hann kaus að setja á húsið kvistglugga sem hafði þann eina tilgang að auka birtu í húsinu. Umvafinn birtu og yl naut hann þess að hlúa að blómum og rósirnar voru þar í uppáhaldi. Stór og mikill pálmi var lengi í öndvegi í stofunni. Úti fyrir settu trén og sumarblómin svip á garðinn. Bækur voru í öndvegi á heimilinu. Sigurður naut þess að hafa fallega hluti í kringum sig. Áhugi og elja Sigurðar við ræktun hvort sem það var grænmeti, blóm eða trjágróður hreif aðra með. Ég var í þeim hópi. Á kveðjustund koma upp í hugann margar minningar frá samverustundum með Sigurði og fyrir þær þakkar sá sem þetta ritar og sendir Svövu og fjölskyldunni á Hverabakka samúðarkveðjur.

Tryggvi Gunnarsson.

Fyrir nærri sextíu árum reistu foreldrar okkar sér bú við norðanverðan bakka Litlu-Laxár. Á sama tíma var ungur maður að koma sinni gróðrarstöð á fót handan árinnar, Sigurður Tómasson á Grafarbakka, seinna Siggi á Hverabakka. Öll þessi ár hefur Siggi verið heimilisvinur okkar fjölskyldu og varla leið sá dagur að þeir hittust ekki, pabbi og hann, svo lengi sem báðir lifðu.

Þótt Siggi gerði ekki víðreist um dagana kom hann ótrúlega víða við og var einstaklega fjölhæfur maður. Ég veit að hrós og lof í sinn garð var honum ekki að skapi þótt hann væri óspar á það öðrum til handa, en það hlýtur að mega segja frá staðreyndum.

Hann setti á fót verslun, Siggabúð, sem pabbi kallaði "Thomsens-magasín", fyrstu alvöru búðina í sveitinni. Þangað var ekki amalegt að koma, allt fullt af sælgæti og gosi sem lá undir skemmdum ef við ekki hjálpuðum honum að eyða því. Hann var fagurkeri og listunnandi, góður söngmaður og hann málaði myndir sem hann gaf eins og svo margt annað. Gefandi, veitandi, rausnarlegur höfðingi heim að sækja. Að fá að passa systurnar á Hverabakka var með því besta sem við systkinin komumst í. Kökur og kræsingar, sælgæti, Spur og Appelsín og húsráðendum misboðið ef ekki var öllu lokið þegar þau komu heim.

Nú hittast þeir aftur fyrir handan vinirnir. Kannski í skúr á árbakka og spjalla þar og spekúlera um pólitík, ræktunina og Sölufélagið. Báðir held ég séu fegnir að hafa þar engin afskipti lengur.

Svövu og dætrunum vottum við innilega samúð, sérstaklega vill mamma þakka áratuga vináttu og tryggð.

Siggi var einstaklega góður maður.

Örn, Hallgrímur, Björn Hreiðar, Eiður Örn og Helga Ragnheiður

Einarsbörn frá Garði.

Okkur langar að minnast manns sem var með þeim litríkari og skemmtilegri sem við höfum kynnst. Hvorki var hann þó víðförull né langskólagenginn og hvorki ríkur né frægur. Það átti þó við hann sem segir á einum stað í Töfraflautunni: "Hann er meira en prins - hann er manneskja."

Sigurður Tómasson garðyrkjubóndi á Hverabakka í Hrunamannahreppi var einstök manneskja, jafnt að útliti sem innræti. Þegar við kynntumst honum var hann orðinn fullorðinn. Samt var hárið þykkt og grátt, augun stór og hlýleg með góðlátlegri kímni. Einn þeirra manna sem eftir var tekið. Og ekki urðu áhrifin minni þegar manneskjan á bak við kom í ljós. Það óx nefnilega allt í kringum þennan mann, nema vandræði. Tré, plöntur, blóm, og manneskjur. Sigurður hjálpaði okkur hinum að komast til manns. Það gerði hann með því að hlúa að okkur eins og jurtunum sem hann ræktaði, hann gaf okkur af kæti sinni og kímni, hrósaði okkur og talaði vel um fjarstadda. Hann smitaði okkur af lífsgleði sinni. Gaf meira en þáði.

Sigurður Tómasson var sáttur við lífið og tilveruna, Guð og menn. Þegar hann fann dauðann nálgast þá gekk hann sáttur til þess fundar. Hann kenndi okkur hinum að lífið er gott. Hafi hann þökk fyrir, nú þegar hann gefur gengið inn til hins eilífa fagnaðar.

Guðrún Þ. Björnsdóttir,

Halldór Reynisson.

Þá er kominn tími til að kveðja um sinn og þakka fyrir liðnar samverustundir. Það var ávallt gott að koma í sveitina og hitta Sigurð, jafn góðhjartaðan og gestrisinn mann höfum við sjaldan fyrirhitt og umhyggja hans fyrir fjölskyldu sinni leyndi sér aldrei. Það fór aldrei svo að haldið væri heim á leið án þess að Sigurður og Svava gæfu okkur grænmeti og var nei aldrei tekið sem svar. Við trúum því að Sigurður sé á betri stað og hann komi alltaf til með að líta til með fjölskyldu sinni.

Elsku Svava, við vottum þér alla okkar samúð um leið og við kveðjum yndislegan og ljúfan mann.

Arna og Dagur Logi.

Skyldi ég eiga eftir að kynnast öðrum manni líkum Sigurði á Hverabakka? Heimili þeirra Sigurðar og Svövu Sveinbjarnardóttur var um margt sérstakt og vakti samheldni hjónanna og óvenjuleg gestrisni ásamt vinsamlegu viðmóti athygli allra sem þar komu. Segja má að heimili þeirra uppi í Hrunamannahreppi hafi legið um þjóðbraut þvera, svo var þar oft og tíðum margt gesta og vina. Allt lagðist þar á eitt að gera gestum komuna á þennan bæ minnisstæða. Samhent hjón, hugulsemi og hlýhugur húsfreyjunnar og óvenjulegt viðmót húsbóndans. Sigurður tók á móti öllum gestum sínum með sömu gleði. Þessi alþýðuheimspekingur virtist eins konar stórmeistari í mannlegum samskiptum.

Eitthvert mesta gæfuspor Sigurðar vinar míns var þegar hann giftist Svövu. Hann varð gæfumaður í sínu einkalífi. Þau hjón Sigurður og Svava höfðu oft hjá sér börn á sumrin. Þeir einstaklingar sem hjá þeim voru búa að því alla ævi. Það uppeldi sem þau fengu á Hverabakka jók þeim sjálfstraust og hlýja og myndarskapur heimilisins varð þeim veganesti inn í framtíðina. Það er undarlegt til þess að hugsa að það er eins og öllum sem dvöldu um tíma á Hverabakka finnist þeir eiga þar rætur.

Þegar ég sendi Svövu og dætrum þeirra Sigurðar og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur finn ég að ég sakna þessa vinar míns. Sigurður Tómasson komst hátt á níræðisaldur. Um meira er varla hægt að biðja. Honum tókst að lifa lífi sínu vammlaust, lifa þannig að til eftirbreytni er. Þegar skugga ber á leiðina lýsir af mörgum ánægjustundum á Hverabakka.

Guðm. G. Þórarinsson.

Sigurður Tómas Magnússon.