Grímur Stefán Bachmann fæddist í Reykjavík 1. desember 1921. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans-háskólasjúkrahúss 22. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru þau Geir Bachmann vélstjóri, f. 1. maí 1892 í Reykjavík, d. 19. maí 1964, og Helga Magnúsdóttir, f. 12. okt. 1888 á Heylæk í Fljótshlíð, d. 7. okt. 1970.
Jóna Sigríður Markúsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 30. maí 1923. Hún lést 6. mars 1988. Foreldrar hennar voru Markús Jónsson, f. 26. júlí 1893, d. 3. mars 1924, sjómaður, og Þuríður Pálsdóttir, f. 2. júlí 1889, d. 23. sept. 1978, verkakona.
Grímur og Jóna giftust 9. júlí 1949 og ættleiddu Önnu Þórdísi Grímsdóttur, f. 22. apríl 1955. Hún er gift Sveini Inga Lýðssyni, f. 10. mars 1955. Þau eiga a) Gerði Björk, f. 21. jan. 1977, í sambúð með Davíð Páli Bredesen, f. 24. okt. 1972, og eiga þau óskírða dóttur f. 6. okt. 2002, þau eru búsett á Patreksfirði; b) Ragnheiði Hörpu, f. 7. ágúst 1979; c) Hjalta Þór, f. 5. des. 1982; og d) Stefán Gauta, f. 14. sept. 1990.
Grímur var rennismiður að mennt og vann við málmiðnað stærstan hluta starfsævinnar. Jóna var heimavinnandi en síðustu æviárin vann hún hluta dagsins í sælgætisgerð.
Útför Jónu var gerð 10. mars 1988 en útför Gríms fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.
Sumri hefur hallað, haustið er komið með kólnandi tíð og vetur á næsta leiti. Lífkeðjan hægir á sér og bíður átekta næsta vors. Á þessari tíð kvaddi minn kæri tengdafaðir, Grímur Stefán Bachmann, þetta líf, þrotinn kröftum á krabbameinsdeild Landspítalans.
Ég kynntist þeim hjónum Grími og Jónu síðla sumars fyrir 27 árum þegar ég var að bera víurnar í einkadótturina, Önnu Þórdísi. Eins og margur var ég ekkert upplitsdjarfur og kannski kvíðinn að hitta þessa verðandi tengdaforeldra í fyrsta sinn en sá kvíði hvarf strax því bæði tóku þau mér sem týndum syni og aldrei síðan hefur borið þar skugga á.
Grímur var járniðnaðarmaður, hafði lært rennismíði hjá Landssmiðjunni, og vann alla sína tíð við iðn sína hjá ýmsum vinnuveitendum, þó lengst hjá Glófaxa og síðar hjá Ísal allt þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1991. Á yngri árum hafði hann einnig sótt sjó með föður sínum á gömlu síðutogurunum. Um þriggja ára skeið varð ég þess aðnjótandi að hafa Grím sem vinnufélaga er við unnum báðir hjá Ísal.
Jóna Sigríður Markúsdóttir varð mér strax sem önnur móðir og alveg einstök amma. Hún hafði ung veikst af berklum og dvaldi langdvölum á Vífilsstaðaspítala. Eins og títt var í þá daga var Jóna lengst af heimavinnandi en síðustu árin vann hún úti hluta úr degi. Jóna dó síðan eftir stutta sjúkdómslegu í mars 1988 aðeins 64 ára.
Þau Jóna og Grímur voru samhent hjón en að mörgu leyti ólík, hún lífsglöð, drífandi og oft hæfilega ákveðin, hann rólyndur, glaðlyndur, vanafastur og traustur sem klettur. Fjölskyldugildin voru þar í heiðri höfð. Ekki hotnaðist þeim sú gæfa að eignast börn en ættleiddu dótturina Önnu Þórdísi sem alla tíð síðan var þeim augasteinn. Ekki var minna dálætið á barnabörnunum og fylgdust þau alla tíð nákvæmlega með hag þeirra með velferð þeirra að leiðarljósi.
Grímur var félagi í Frímúrarareglunni sem veitti honum gleði og lífsfyllingu. Það vissu allir sem til þekktu.
Þau hjónin höfðu mikla ánægju af ferðalögum og ferðuðst talsvert bæði innan sem utanlands.
Eftir fráfall Jónu bjó Grímur einn en í nánu vinfengi við Ólafíu Guðmundsdóttur (Lóu) sem einnig átti sitt heimili í húsinu í Stóragerði 12. Fyrir þeim var svipað komið en bæði höfðu þau misst maka sína og bjuggu ein í íbúðum sínum. Þau reyndust hvort öðru stoð og styrkur og svo var einnig um fjölskyldu Lóu.
Grímur kenndi sér þess sjúkdóms sem nú lagði hann að velli fyrir 14 árum. Lengst af tókst að halda honum í skefjum en svo kom að því að sjúkdómurinn tók sig upp þannig að ekki varð við ráðið. Hann lagðist inn á sjúkrahús í septemberbyrjun. Síðustu vikurnar naut hann umönnunar á deild 11E, krabbameinslækningadeild Landspítala - Háskólasjúkrahúss. Ég og fjölskylda mín viljum þakka starfsfólki þar fyrir einstaka umhyggu og alúð. Sú erfiða vinna sem þar er unnin verður seint metin að verðleikum.
Samfylgd tengdaforeldra minna, ástríki og vinátta er mér ómetanlegur fjársjóður við leiðarlok. Þessa samfylgd vil ég þakka. Minningin um þau heiðurshjón verður mér ætíð dýrmæt. Blessuð sé minning Jónu Sigríðar Markúsdóttur og Gríms Stefáns Bachmann.
Sveinn Ingi Lýðsson.
Sveinn Ingi Lýðsson.