Cesar Ólafsson vélstjóri fæddist á Kvígindisfelli í Tálknafirði 9. ágúst 1925. Hann lést 25. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru þau Sesselja Ólafsdóttir frá Hellnafelli á Snæfellsnesi, f. 13.6. 1897, d. 28.4. 1988, dóttir Oddnýjar Björnsdóttur og Ólafs Magnússonar og Ólafur Jósúa Guðmundsson frá Stóra-Laugardal í Tálknafirði, f. 1.10. 1900, d. 5.11. 1993, sonur hjónanna Guðmundar Jóhannesar Guðmundssonar frá Stóra-Laugardal og Svanborgar Einarsdóttur frá Geitargili í Rauðasandshreppi í V-Barð. Sesselja og Ólafur hófu búskap í Litla-Laugardal og ólu flest börn sín þar upp, en fluttu síðan til Patreksfjarðar árið 1949 og bjuggu þar uns þau fluttust til Hafnarfjarðar og bjuggu þau þar síðustu ár ævi sinnar. Systkini Cesars eru Guðmundur Jóhannes, f. 30.10. 1921, d. 31.8. 1997, Hulda, f. 16.12. 1922, Haraldur, f. 10.3. 1924, d. 5.6. 1990, Kristján Júlíus, f. 1.4. 1927, d. 16.11. 1993, Sverrir, f. 25.10. 1928, Aðalsteinn, f. 23.5. 1930, d. 5.6. 1945, Svanborg, f. 8.5. 1932, Gróa, f. 9.11. 1934, Oddný, f. 28.2. 1936, d. 5.5. 1936, og Erla Þorgerður, f. 12.4. 1937.
Cesar stundaði sjó og var m.a. háseti og kyndari á ýmsum bátum og togurum á síld, trolli og öðrum veiðarfærum. Cesar lauk vélskólaprófi frá Ísafirði og vann við vélstjórn bæði á sjó og í landi. Vann í vélsmiðju eftir að hann hætti á sjó. Stundaði síðan ýmis störf í landi.
Útför Cesars verður gerð frá Patreksfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)
Það var ein okkar systkinina mesta gæfa að alast upp í skjóli afa og ömmu í Krók. Cesar var einn af mörgum móðurbræðrum sem var stór hluti af uppvexti okkar. Dedi eins og amma kallaði hann var alltaf litli strákurinn hennar, enda lengi stór hluti af heimilishaldinu í Krók. Oft hafði amma áhyggjur af drengnum og sérstaklega af því að hann hafði ekki enn fundið sér konu. Það var hins vegar alltaf ljóst að ömmu þóttu ekki margar konur á Patró nógu álitlegar fyrir drenginn. Fram koma minningar um hádegis- og kvöldmat í Krók þegar Cesi og afi voruð að koma heim að vinnu lokinni. Amma að snúast í kringum þá til að vera viss um að þá skorti ekkert. Cesi var ekki margmáll maður, en fylgdist vel með og aldrei fundum við krakkarnir fyrir því að gassagangurinn í okkur, sem oft var nokkur, truflaði hann. Hann tók ýmsu með mikilli þolinmæði m.a. að vera árlega bollaður og hlaðinn öskupokum. Þegar amma fór að eldast fengum við það verk að fara út í Ingólfsbúð og kaupa bók fyrir Cesa, en amma sá til þess að hann fengi alltaf bók eftir uppáhaldshöfundinn sinn. Cesi og amma voru að mörgu leyti lík. Alltaf kát, en létu samt ekki mikið fyrir sér fara. Þrjósk gátu þau líka verið og vildu lítið umstang í kringum sig, en voruð alltaf manna tilbúnust til að gera allt fyrir aðra. Systkinamótin sem haldin hafa verið frá árinu 1975 vekja líka upp góðar minningar en á þau mætti Cesi alltaf og tók þátt í glensinu og gamaninu á sinn hljóðláta hátt. Eftir að Cesi eignaðist tíkina hana Bollu kom hún með á mótin. Það var alveg ljóst að samband Cesa og Bollu var einstakt og sönnun þess hve djúp vinátta getur myndast á milli manna og dýra. Það kom því ekki á óvart að heyra að Bolla var við hlið Cesa þegar hann andaðist og hafði ekki vikið frá hlið hans.
Kæri Cesi við þökkum þér samfylgdina og þann þátt sem þú áttir í því öryggi og þeim kærleika sem ætíð var til staðar hjá afa og ömmu í Krók. Samúðarkveðjur sendum við systkinum þínum og þeim ástvinum sem þér voru kærir.
Kristjana, Eymundur
og Sesselja.
Kristjana, Eymundur og Sesselja.