George W. Bush og Tony Blair í gærkvöldi.
George W. Bush og Tony Blair í gærkvöldi.
GEORGE W.

GEORGE W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í gær að hann væri ekki mótfallinn því að leitað yrði eftir nýrri samþykkt á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ef það yrði til að senda Saddam Hussein Íraksforseta skýr skilaboð um að full alvara væri á bak við þann ásetning að afvopna Írak. Bush sagði nýja ályktun í öryggisráðinu hins vegar enga forsendu þess að hægt yrði að grípa til aðgerða. Bush átti viðræður við Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í gær og mátti ráða af blaðamannafundi leiðtoganna tveggja í gærkvöldi að þeir eru samstiga í málinu. Ekki kom hins vegar fram hvað þeir vildu nákvæmlega að SÞ gerðu næst.

Þrýst hefur verið á um að vopnaeftirlitsmenn SÞ fái meiri tíma til að ljúka verki sínu í Írak, auk þess sem margir vilja ekki að ráðist verði í hernaðaraðgerðir gegn Írak nema öryggisráð SÞ hafi fyrst samþykkt ályktun þar að lútandi.

Hafði Blair í viðtali á CNN-sjónvarpsstöðinni fyrr í gær lýst stuðningi við að öryggisráðið ályktaði um málið að nýju. Blair lagði hins vegar áherslu á að þetta fæli í sér að SÞ yrðu að "taka á málinu" en ekki hlaupast undan ábyrgð. Hann ítrekaði þessa afstöðu sína í gærkvöldi. "Þetta er próf á staðfestu alþjóðasamfélagsins," sagði hann. "Ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu á þessari stundu en að Saddam Hussein sýni vopnaeftirlitsmönnunum ekki samstarfsvilja og þar af leiðandi er hann brotlegur við ályktanir [öryggisráðsins]," sagði Blair. "Það mun draga til tíðinda í þessu máli innan fárra vikna, ekki mánaða," sagði Bush.

Bjóða eftirlitsmönnum til Bagdad

Írösk stjórnvöld höfðu áður tilkynnt að þau hefðu boðið yfirmönnum vopnaeftirlits SÞ til skrafs og ráðagerða í Bagdad. Bush gaf hins vegar lítið fyrir slíka fundi er hann var spurður í gær um boð Íraka. Ekki yrði samið um neitt við Íraka, þeim bæri einfaldlega að afvopnast.

Washington. AFP, AP.

Höf.: Washington. AFP, AP