Kínaklúbbur Unnar fagnar ári geitarinnar samkvæmt kínverska almanakinu í dag, laugardaginn 1. febrúar, kl. 16 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Unnur Guðjónsdóttir sýnir skyggnur úr fyrri ferðum Kínaklúbbsins til Kína, ásamt kínverskum dansi. Allir velkomnir.
Kínaklúbbur Unnar fagnar ári geitarinnar samkvæmt kínverska almanakinu í dag, laugardaginn 1. febrúar, kl. 16 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Unnur Guðjónsdóttir sýnir skyggnur úr fyrri ferðum Kínaklúbbsins til Kína, ásamt kínverskum dansi. Allir velkomnir. Næsta ferð klúbbsins verður farin 8.-30. maí nk.

Hársnyrtistofan Hárný, Nýbýlavegi 28, Kópavogi, verður með hárgreiðslusýningu í sal Toyota, Nýbýlavegi 6 í Kópavogi, í dag, laugardaginn 1. febrúar, kl. 15. No Name sér um förðun, og Ný-blóm sjá um skreytingar einnig verður brúðarkjóll frá Brúðarbæ. Kynnir verður Signý Sæmundsdóttir söngkona. Allir velkomnir.

Gönguferð um Laugardalinn Gigtarfélag Íslands stendur fyrir gönguferð um Laugardalinn í dag laugardaginn 1. febrúar kl. 11. Hist verður við inngang Gigtarfélagsins að Ármúla 5. Gert er ráð fyrir fremur þægilegri klukkutíma göngu sem ætti að henta flestum. Einn af kennurum hópþjálfunar gengur með hópnum og sér um létta upphitun í byrjun og teygjur í lokin. Öllum er frjáls þátttaka, ekkert gjald.

Þorraball í Árseli fyrir fatlaða verður haldið í kvöld, laugardagskvöldið 1. febrúar kl. 19.30-22.30. Harmonikkuleikari verður á staðnum og boðið verður upp á harðfisk. Verð kr. 400 og 16 ára aldurstakmark.

Mótmælastaða Friðarsinnar efna í dag, laugardag, til stöðu við bandaríska sendiráðið í Reykjavík til að leggja áherslu á andstöðu friðarsinna við stríðsáform Bandaríkjastjórnar í Írak. Safnast verður saman við sendiráðið kl. 14.

Þetta er þriðji laugardagurinn í röð sem friðarsinnar koma saman í miðbænum til að vekja athygli á þessu máli. Fyrir hálfum mánuði kom fjöldi fólks saman á Lækjartorgi til að mótmæla og fyrir viku síðan mættu á milli 150 og 200 manns að bandaríska sendiráðinu.