Samanlögð verðvísitala sjávarafurða mæld í SDR hækkaði um 1,8% í síðasta mánuði og mældist 108,1 stig. Yfir sama tímabil styrktist íslenska krónan nokkuð þannig að mæld í íslenskum krónum lækkaði vísitalan lítið eitt.

Samanlögð verðvísitala sjávarafurða mæld í SDR hækkaði um 1,8% í síðasta mánuði og mældist 108,1 stig. Yfir sama tímabil styrktist íslenska krónan nokkuð þannig að mæld í íslenskum krónum lækkaði vísitalan lítið eitt. Mæld í SDR hækkaði verðvísitala allra afurðaflokka.

Þetta kemur fram í morgunpunktum Íslandsbanka, en það er Hagstofan sem reiknar og gefur vísitölurnar út.

Samanlögð verðvísitala botnfiskafurða hækkaði um 1,8% en þar munar mest um 2,6% hækkun verðvísitölu saltfiskafurða. Verðvísitala rækju hækkaði um 2,1% milli mánaða en verðvísitala mjöls, lýsis og síldar hækkaði um 1,1%.

Frá því desember 2001 hefur samanlögð verðvísitala sjávarafurða, mæld í SDR, hækkað um 3,8%. Mæld í íslenskum krónum hefur verðvísitala sjávarafurða lækkað um 12,4% frá desember í fyrra. Sú lækkun skýrist af styrkingu íslensku krónunnar frá sama tímabili í fyrra.

Verðvísitölur sjávarafurða eru teknar saman og birtar af Hagstofunni og eru þær byggðar á upplýsingum frá helstu útflytjendum um dagverð um miðjan hvern mánuð og verð í þeim gjaldmiðli sem við á hverju sinni.