Deildar meiningar eru um úrskurð samkeppnisráðs.
Deildar meiningar eru um úrskurð samkeppnisráðs.
HÖSKULDUR Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., FLE, segir að úrskurður samkeppnisráðs þar sem lagt er fyrir FLE að hún fresti fyrirhugaðri framkvæmd forvals rekstraraðila og fyrirhuguðum skipulagsbreytingum til 1.

HÖSKULDUR Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., FLE, segir að úrskurður samkeppnisráðs þar sem lagt er fyrir FLE að hún fresti fyrirhugaðri framkvæmd forvals rekstraraðila og fyrirhuguðum skipulagsbreytingum til 1. júní til að tryggja að samkeppni verði ekki raskað frekar, komi sér verulega á óvart. Logi Úlfarsson, framkvæmdastjóri Íslensks markaðar, segist sáttur við úrskurðinn og hann staðfesti að brotið hefði verið á rekstraraðilum.

Vegið að rétti eigenda

Höskuldur Ásgeirsson segir að með úrskurðinum sé vegið að skýrum rétti eiganda Flugstöðvarinnar til að ákveða hverjir eru leigutakar í byggingunni. Hann segist í samtali við Morgunblaðið ekki telja ósennilegt að úrskurðinum verði áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, en stjórn Flugstöðvarinnar muni koma saman í næstu viku til að ræða viðbrögð við úrskurðinum. "Okkur finnst þessi úrskurður mjög undarlegur. Í honum er tekið undir sjónarmið eins leigutaka og ekki litið á þær breytingar sem við erum að boða með þessu forvali, sem felast í því að efla þjónustu við ferðamenn með fjölgun verslana og veitingastaða og auka þar með samkeppni á svæðinu. Okkur finnst það skjóta skökku við að samkeppnisráð tekur ekki undir þau sjónarmið okkar," sagði Höskuldur Ásgeirsson.

Aðspurður hvort aðrir rekstraraðilar en Íslenskur markaður hafi látið í ljósi óánægju með forvalið segir Höskuldur að enginn þeirra hafi látið óánægju í ljós við Flugstöðina og allir hafi þeir sótt um í forvalinu. "Markmiðið með forvalinu er meðal annars að gefa aðilum sem eru ekki inni á svæðinu í dag, tækifæri til að komast þar inn til að geta gert flugstöðina almennt að fjölbreyttara verslunar- og þjónustusvæði."

Um þá gagnrýni Íslensks markaðar að Flugstöðin sjálf vilji tryggja sér bestu verslunarplássin á svæðinu segir Höskuldur að eigandi Flugstöðvarinnar hafi miklar skuldbindingar út af rekstri byggingarinnar og verði að standa undir þeim. "Það félag sem á og rekur þessa byggingu hlýtur að hafa allt um það að segja hverjir eru leigutakar í byggingunni. Þetta fyrirkomulag er þekkt víða erlendis að það sé sami eignaraðili að Flugstöð og kjölfestuverslun á fríhafnarsvæði. Svo má benda á að það er alþekkt að eigendur verslunarmiðstöðva séu með kjölfestuverslun og fái síðan aðra aðila til að koma inn með annan verslunarrekstur."

Sáttur við úrskurðinn

Logi Úlfarsson framkvæmdastjóri Íslensks markaðar í flugstöð Leifs Eiríkssonar segist vera sáttur við úrskurðinn og segir hann vera staðfestingu á því sem Íslenskur markaður hefur haldið fram allan tímann. "Það að leigusali sé aðalsamkeppnisaðili annarra rekstraraðila finnst okkur einkennilegt og þessi úrskurður er fyrst og fremst staðfesting á því að við höfðum rétt fyrir okkur; það var verið að brjóta á okkur og ekki bara okkur heldur öllum sem starfa í flugstöðina og öllum sem tóku þátt í forvalinu," sagði Logi í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að inntakið í kærunni hafi verið að allir fái að sitja við sama borð. "Við vildum ekki að Flugstöðin gæti tekið bestu vöruflokkana og bestu svæðin fyrir sig og látið hina bítast um restina. "Ég get ekki séð annað en að forvalið sé ónýtt. Það þarf að breyta það miklu áður en verður farið af stað aftur. Þessi niðurstaða verður til þess að menn vita hvað má og hvað má ekki og fyrir allt framtíðarstarf er þetta mjög góð niðurstaða. Menn eru með hreint borð og árekstrar þurfa ekki að koma upp ef rétt verður úr spilað. Ég held að það sé mjög mikilvægt því menn ætla sér að vera áfram þarna í húsinu."