RAPPARINN Móri kom óvænt fram á sjónarsviðið á síðasta ári með sína fyrstu plötu, samnefndri sér. Platan hefur fengið góðar viðtökur, jafnt gagnrýnenda sem og kaupenda, og var Móri tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum besta platan.

RAPPARINN Móri kom óvænt fram á sjónarsviðið á síðasta ári með sína fyrstu plötu, samnefndri sér. Platan hefur fengið góðar viðtökur, jafnt gagnrýnenda sem og kaupenda, og var Móri tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum besta platan. Nú fyrir helgi vann hann svo til tvennra verðlauna á tónlistarverðlaunum Radio X og Undirtóna, fyrir besta lagið auk þess að vera valinn besti rapparinn.

Sumir vilja kalla rapplist Móra hrapparapp, þar sem hann yrkir um skuggalega hluti eins og fíkniefni og aðra óáran. Líkt og annar bleiknefji, Eminem, getur verið erfitt að greina á milli alvörunnar og skáldskapar í efnistökum Móra, eitthvað sem er hiklaust eitt af aðdráttarafli pilts. Hér verður gerð tilraun til að skyggnast á bak við húfuna hjá dáðadrengnum dularfulla.

Hvernig hefur þú það í dag?

Fínt, takk!

Hvað ertu með í vösunum?

Hníf, 8 búdda, 11 þúsund kall, 210 í klinki.

Ef þú værir ekki rappari, hvað vildirðu þá helst vera?

Trúarleiðtogi shamanista á Íslandi.

Hefurðu tárast í bíói?

Ehhh... nei.

Hverjir voru fyrstu tónleikarnir sem þú fórst á?

Sigur Rós í gamla daga þegar þeir voru óþekktir.

Hvaða leikari fer mest í taugarnar á þér?

Russell Crowe. Hata þann ára!

Hver er þinn helsti veikleiki?

Skapið.

Finndu fimm orð sem lýsa persónuleika þínum vel.

Taugaveiklaður, glettinn, dreyminn, uppstökkur, listrænn!

Eminem eða Nelly?

Eminem. Nelly getur skotið sig í hausinn fyrir mér.

Hver var síðasta bók sem þú last?

Hampur eftir Þorstein Úlfarsson.

Hvaða lag kveikir blossann?

"Subtle Ways" með Delphi.

Hvaða plötu keyptir þú síðast?

Kritikal Mazz.

Hvert er þitt mesta prakkarastrik?

Gefa út Móra-diskinn.

Hver er furðulegasti matur sem þú hefur bragðað?

Slátur.

Hverju sérðu mest eftir í lífinu?

Að hafa treyst fávitum - þið vitið hverjir þið eruð!

Trúir þú á líf eftir dauðann?

Dauðinn er ekki endirinn á lífinu heldur upphaf sjálfs síns.

Móri