Marie N. sigraði Evróvisjón í fyrra með "I Wanna".
Marie N. sigraði Evróvisjón í fyrra með "I Wanna".
ÞEGAR "Gleðibanki" okkar Íslendinga fór út til Noregs að keppa í Evróvisjón árið 1986 veltum við Íslendingar okkur dálítið upp úr því hvar við ættum að halda keppnina þegar við værum búin að vinna.

ÞEGAR "Gleðibanki" okkar Íslendinga fór út til Noregs að keppa í Evróvisjón árið 1986 veltum við Íslendingar okkur dálítið upp úr því hvar við ættum að halda keppnina þegar við værum búin að vinna. Ekki hefur enn reynt á þann möguleika en fyrir Lettland, sem er þjóð í smærra lagi eins og Ísland, er þetta nú bláköld staðreynd. Lettland sigraði í fyrra með laginu "I Wanna", sem þokkadísin Marie N. flutti en nú er kvittur kominn upp um að Lettland hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda keppnina og keppast aðstandendur nú við að bægja þessum orðrómi frá.

Þannig er mál með vexti að yfirvöld í Riga, höfuðborg Lettlands, hafa hótað að minnka fjárútlát vegna deilna við ríkisstjórnina sem hafði samþykkt að setja 760 milljónir króna í keppnina. Ríkisstjórnin gagnrýndi yfirvöld í Riga fyrir nísku í garð keppninnar og því hótuðu ráðamenn í borginni að skera verulega niður.

"Mér þykir leiðinlegt að meiðandi yfirlýsingar opinberra aðila hafi farið af stað," segir Uldi Grava, sjónvarpsstjóri hjá Lettneska sjónvarpinu. "En keppnin mun fara fram, því get ég lofað."

Ef sjónvarpsstjórinn er maður orða sinna fer keppnin fram 24. maí næstkomandi í Skonto-höllinni í Riga.

Jóhanna Jóhannsdóttir, aðstoðardeildarstjóri hjá Ríkisútvarpinu, segist kannast við þetta og hefur jafnframt fengið send opinber bréf frá Lettlandi þar sem því er algerlega hafnað að keppnin sé í uppnámi.

"Við erum því sallaróleg hérna megin," segir hún.

Aðspurð hvort einhverjar áætlanir liggi fyrir hér innanlands ef til þess myndi koma að Ísland sigraði keppnina segir Jóhanna það ekki vera.

"Ekki mér vitanlega nei. Ég held að það liggi engin hernaðaráætlun fyrir."

Jóhanna segir að í þessum efnum sé löndum leyfilegt að gefa réttinn á að halda keppnina frá sér og það hafi gerst.

"Þegar Ítalía hélt keppnina árið 1991 gerðu þeir þetta t.d. smátt, keppnin fór fram í litlu myndveri. Þannig að það er ekkert sem útilokar minni stærðargráður. Ef Ísland ynni myndum við bara bregðast við því á okkar hátt, eins og Íslendingum er einum lagið."