ÞORSTEINN Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að tillaga Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, VST, í úrskurði um Norðlingaölduveitu svipi að verulegu leyti til áforma Landsvirkjunar um 6. áfanga Kvíslaveitu.

ÞORSTEINN Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að tillaga Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, VST, í úrskurði um Norðlingaölduveitu svipi að verulegu leyti til áforma Landsvirkjunar um 6. áfanga Kvíslaveitu. Um sé að ræða útfærslu á þeirri hugmynd þar sem setlón vestan Þjórsárlóns sé stækkað og vatn látið renna inn í Kvíslaveitu, á svipuðum slóðum og fyrirhugað var.

Þorsteinn segir að það sé því ómakleg gagnrýni á Landsvirkjun að halda því fram að fyrirtækið hafi ekki skoðað þá kosti sem settir eru fram í úrskurði ráðherra. Landsvirkjun hafi sett fram áform sín fyrir nokkrum árum en vegna mikillar andstöðu, m.a. frá Þjórsárveranefnd og heimamönnum, hafi verið hætt við þau árið 2001. Heimamenn og ýmsir vísindamenn hafi t.d. verið mjög andsnúnir því að draga úr vatnsrennsli í gegnum Þjórsárverin, sem nú sé gert ráð fyrir í úrskurði setts umhverfisráðherra. Frekar hafi verið bent á miðlunarlón sem næði jafnvel inn fyrir friðlandið. Landsvirkjun hafi því ekki yfirsést þessi útfærsla sem VST bendi á.

Unnt að taka vatn ofar í Þjórsá

"Við höfum fyrir löngu síðan bent á það og útfært að hægt sé að taka vatn ofar í Þjórsánni heldur en friðlandið nær til og beina því inn í Kvíslaveitu. Einnig er hægt að fikra sig neðar með ánni og fara neðar með vatnsborðið en því meira sem slíkt er gert, þeim mun óhagkvæmari verður framkvæmdin. Einhvers staðar verður að velja lágmarkspunkt, sem við gerðum í 575 metra lónhæð yfir sjó, á grundvelli viðræðna við ýmsa aðila, en án veituleiðar inn í Kvíslaveitu. Fyrir lá að möguleiki væri á að vatn færi inn á friðlandið, enda var gert ráð fyrir því í friðlýsingu Þjórsárvera."