Verðlaunahafar á mótinu á Selfossi ásamt fulltrúum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Pedrag Nikolic og Ivan Sokolov eru á miðri mynd og milli þeirra Arndís Harpa Einarsdóttir skólastjóri.
Verðlaunahafar á mótinu á Selfossi ásamt fulltrúum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Pedrag Nikolic og Ivan Sokolov eru á miðri mynd og milli þeirra Arndís Harpa Einarsdóttir skólastjóri.
SKÁKFÉLAGIÐ Hrókurinn stendur fyrir sannkallaðri skákveislu á næstunni en félagið heldur tvö alþjóðleg mót í Reykjavík í febrúar og mars.

SKÁKFÉLAGIÐ Hrókurinn stendur fyrir sannkallaðri skákveislu á næstunni en félagið heldur tvö alþjóðleg mót í Reykjavík í febrúar og mars. "Við höldum sókninni áfram frá fyrra ári, þegar við héldum fjögur alþjóðleg skákmót," segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins.

Stórmót Hróksins fer fram á Kjarvalsstöðum 18. til 27. febrúar og er um að ræða eitt öflugasta skákmót sem hefur farið fram hér á landi. "Þetta verður eitt sterkasta skákmótið í heiminum í ár og metnaðarfyllsta verkefni Hróksins til þessa," segir Hrafn, en meðalstigafjöldi keppenda er 2.617 Elo-stig.

Michael Adams er stigahæsti skákmaður mótsins með 2.734 stig en hann er jafnframt stigahæsti skákmaður Vestur-Evrópu. Alexei Shirov, einn vinsælasti skákmaður heims, er skammt undan með 2.723 stig, en aðrir keppendur eru Ivan Sokolov með 2.688 stig, Etienne Bacrot (2.671), Victor Korchnoi (2.642), Bartomil Macieja (2.629), Hannes Hlífar Stefánsson (2.569), Luke McShane (2.568), Helgi Áss Grétarsson (2.514) og Stefán Kristjánsson (2.432).

Minningarmót um Guðmund J.

Að loknu stórmótinu gengst Hrókurinn fyrir alþjóðlegu atskákmóti til minningar um Guðmund J. Guðmundsson, formann Dagsbrúnar og mikinn áhugamann um skák, og verður það haldið í Borgarleikhúsinu 3. til 5. mars. "Minningarmótið verður okkar stærsta framkvæmd til þessa, því þar verða svo margir af sterkustu skákmönnum heims og verðlaunin eru með þeim hæstu á árinu," segir Hrafn, en mótið er öllum opið.

Stigahæsti skákmaður mótsins er Búlgarinn Veselin Topalov sem hefur 2.743 Elo-stig og er fjórði á heimslistanum. Næstir koma Englendingurinn Michael Adams, Lettinn Alexei Shirov og Ivan Sokolov frá Bosníu sem unnið hefur marga góða sigra á Íslandi. Tveir bestu skákmenn Frakklands, Etienne Bacrot og Joel Lautier, mæta til leiks og þeir þrír skákmenn sem hampað hafa Evrópumeistaratitli, síðan byrjað var að tefla um þann titil 1999, verða með eða Rússinn Pavel Tregubov, Ísraelinn Emil Sutovsky og Pólverjinn Bartlomiej Macieja. Allir eru þeir í hópi ofurstórmeistara, með meira en 2.600 Elo-stig. Af öðrum ofurstórmeisturum á skákmótinu má nefna Viktor Bologan frá Makedóníu, Mikail Krasenkow frá Póllandi og Predrag Nikolic frá Bosníu.

Gert er ráð fyrir að 25 stórmeistarar keppi á mótinu og er vonast til þess að sem flestir af íslensku stórmeisturunum verði með. Þegar eru skráðir til keppni Jóhann Hjartarson, stigahæsti skákmaður Norðurlanda, Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga, Hannes Hlífar Stefánsson, Þröstur Þórhallsson, Margeir Pétursson, Helgi Áss Grétarsson og Helgi Ólafsson.

Mikilvægir bakhjarlar

Verðlaun nema samtals 30.000 dollurum, en fyrstu verðlaun eru 10.000 dollarar. Sérstök verðlaun verða veitt fyrir bestan árangur kvenna, ungmenna og stigalausra skákmanna. Heildarverðlaunin á Stórmótinu nema 15.000 dollurum.

Edda - miðlun og útgáfa hf. og Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi fyrirtækisins, eru helstu styrktaraðilar atskákmótsins. Margir fjármagna mótið á Kjarvalsstöðum, en mestur stuðningurinn er frá Reykjavíkurborg, Baugi og Viðskiptanetinu.

Að sögn Hrafns er tímabært fyrir Íslendinga að halda á ný alþjóðleg stórmót í skák og þessi mót séu liður í nýrri sókn. Mikið er lagt í bæði mótin.

Skákfélagið Hrókurinn hefur hleypt miklu lífi í íslenskt skáklíf með margvíslegum hætti. Í fyrravor stóð félagið fyrir alþjóðlegu skákmóti í fyrsta sinn, Símaskákmótinu 2002, þar sem 25 stórmeistarar voru á meðal keppenda í Ráðhúsi Reykjavíkur. Í september sem leið hélt Hrókurinn Hreyfilseinvígið 2002 í Þjóðarbókhlöðunni, en þar áttust Hróksmennirnir Tomas Oral frá Tékklandi og Stefán Kristjánsson við í sex skáka einvígi. Í kjölfarið var félagið með Mjólkurskákmótið á Selfossi. Samhliða því var efnt til skákveislu á Suðurlandi á þar sem mörg hundruð börn áttu hlut að máli.