[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
26. jan. - 7. feb. 2003

KASPAROV tapaði þriðju skákinni í einvígi sínu við skákforritið Deep Junior og er staðan nú jöfn, 1½-1½. Þrjár skákir eru eftir. Einvígið hefur nú tekið svipaða stefnu og einvígi Kasparovs við Deep Blue og einvígi Kramniks gegn Deep Fritz. Stórmeistarinn sýnir yfirburði í upphafi, en lendir síðan í erfiðleikum þegar líður á einvígið. Þetta var ástæðan fyrir því að höfundar Deep Junior kusu fremur að hafa svart en hvítt í fyrstu skákinni. Þeir sáu fyrir, að ef forritið ætti á annað borð eitthvert erindi í Kasparov þá gæti lokaskákin ráðið úrslitum og þar verður Deep Junior með hvítt.

Í upphafi þriðju skákarinnar töldu margir skákskýrendur að Kasparov væri á góðri leið með að afgreiða Deep Junior eins og hvern annan byrjanda. Það kom þó í ljós, að málið var ekki alveg svo einfalt. Forritið varðist vel og staðan jafnaðist. Þegar fór að saxast á tímann hjá Kasparov urðu honum síðan á mistök sem kostuðu hann skákina.

Hvítt: Kasparov

Svart: Deep Junior

Hálf-Meranvörn

1.d4 d5 2.c4 c6 3.Rc3 Rf6 4.e3 e6 5.Rf3 Rbd7 6.Dc2 b6

Í fyrstu skákinni vann Kasparov létt, eftir 6.-- Bd6 7.g4 dxc4 8.Bxc4 b6 9.e4 e5 10.g5 Rh5 11.Be3 0-0 12.0-0-0 Dc7 13.d5! b5 14.dxc6 bxc4 15.Rb5 Dxc6 16.Rxd6 Bb7 17.Dc3 Hae8 18.Rxe8 o.s.frv.

7.cxd5 exd5 8.Bd3 Be7 9.Bd2 0-0

Nýr leikur. Þekkt er 9...Bb7, t.d. 10.0-0-0 c5 11.Kb1 Dc7 12.Hhg1 c4 13.Bf5 g6 14.Bh3 a6 15.g3 b5 16.e4 Rxe4 17.Rxe4 dxe4 18.Rg5 Rf6 19.Bg2 0-0 20.Rxe4 Rxe4 21.Bxe4 Bxe4 22.Dxe4 Bf6 23.Bf4 Db6 24.Be5 Bxe5, jafntefli (Bergez-Nezar, Bescanon 1999).

10.g4!? Rxg4!?

Djarfur leikur, en "álskrímslið" hefur jú engar taugar!

11.Hg1 --

Það kemur sterklega til greina að leika 11.Bxh7+ Kh8 12.Bd3 Rdf6 13.h3 Rh6 14.Re5 o.s.frv.

11...Rdf6 12.h3 Rh6 13.e4 --

13...dxe4!

Eftir 13...Kh8 14.e5 Rfg8 15.Bxh7 stendur hvítur betur.

14.Bxh6

Einnig kom til greina að taka til baka á e4 og bíða með þennan leik.

14...exd3 15.Hxg7+ --

Engu betra er að leika 15.Bxg7 Rg4 (15...dxc2? 16.Bxf6+ Bg4 17.Hxg4+ mát) 16.Dxd3 Kxg7 17.hxg4 He8 18.Hh1 Bg5+ 19.Re2 h6 20.Rxg5 Dxg5 o.s.frv.

15...Kh8 16.Dxd3 Hg8 17.Hxg8+ Rxg8 18.Bf4 f6 19.0-0-0 Bd6 20.De3 Bxf4 21.Dxf4 Bxh3 22.Hg1 Db8 23.De3 Dd6 24.Rh4 Be6 25.Hh1 Hd8 26.Rg6+ Kg7 27.Rf4 Bf5 28.Rce2 Re7 29.Rg3 Kh8 30.Rxf5 Rxf5 31.De4 Dd7 32.Hh5? --

Tapar skákinni. Eftir 32.Rg6+ Kg7 33.Rf4 He8 34.Dg2+ Kf8 35.Rg6+ hxg6 36.Dxg6 Dg7 37.Dxf5 Dg5+ 38.Dxg5 fxg5 39.Kd2 Kg7 er staðan jöfn.

32...Rxd4 --

Kasparov uppgötvar nú, að hann á erfitt um vik vegna máthótunarinnar 35...Rb3+ 36.Kc2 Ra1+ 37.Kc3 (37.Kc1 Dd1+) 37...Dd2+ 38.Kc4 b5+ 39.Kc5 Dd6+. Hann hugsaði sig um í sex mínútur, þrátt fyrir að umhugsunartíminn væri orðinn stuttur, en fann ekki leið út úr ógöngunum sem 32. Hh5 hafði leitt hann í.

33.Rg6+ Kg8 34.Re7+ Kf8 35.Rd5 Dg7 36.Dxd4 --

Eða 36.Rf4 Dg1+ 37.Kd2 Dxf2+ 38.Kc3 Dxf4 39.Dxf4 Re2+ 40.Kc4 Rxf4 og svartur vinnur.

36...Hxd5 og hvítur gafst upp, því að hann á tapað endatafl, eftir 37.Hxd5 cxd5 38.Dxd5 Dg1+ 39.Dd1 Dxd1+ 40.Kxd1 h5 o.s.frv.

Fjórða skák einvígisins verður tefld á sunnudag.

Viltu slá Íslandsmet?

Þeir sem vilja taka þátt í að slá merkilegt Íslandsmet ættu að taka þátt í unglingaæfingu Taflfélagsins Hellis mánudaginn 3. febrúar kl. 17:15 eða atkvöldi félagsins sama dag kl. 20:00. Bæði mótin fara fram í félagsheimili Hellis, Álfabakka 14a í Mjódd. Þeir sem raða sér í efstu þrjú sætin á unglingaæfingunni og tveir efstu á atkvöldinu munu ásamt einum útdregnum keppanda í hvoru móti fyrir sig eiga rétt á að tefla á móti Helga Áss Grétarssyni, stórmeistara, þegar hann gerir atlögu að Íslandsmetinu í blindskák 12. febrúar.

Blindskákarfjölteflið fer fram í höfuðstöðvum Olís, Sundagörðum 2, og er hluti af skákhátíð í tengslum við Olís-einvígið milli Hannesar Hlífars Stefánssonar og Sergei Movsesjan. Alls mun Helgi tefla við ellefu andstæðinga í fjölteflinu, sem allir fá að tefla á venjulegan hátt með skákborð fyrir framan sig, en Helgi verður að tefla blindandi. Það er erfitt að tefla eina skák blindandi, en það er einungis á færi örfárra að tefla margar slíkar skákir samtímis.

Núverandi Íslandsmet eiga Helgi Ólafsson og Dan Hansson, en þeir tefldu tíu blindskákir í einu.

Helgi mun í fjölteflinu hafa 90 mínútna umhugsunartíma og 30 sekúndur fyrir hvern leik, en andstæðingar hans 45 mínútur.

Skákveisla framundan

Það er sannkölluð skákveisla framundan á næstu vikum og mánuðum. Dagana 10.-15. febrúar verður Olís-einvígið haldið milli Íslandsmeistarans Hannesar Hlífars Stefánssonar og Evrópumeistarans Sergei Movsesjan. Í kjölfar þess, 18.-27. febrúar, verður Stórmót Hróksins haldið á Kjarvalsstöðum. Þetta verður eitt sterkasta mót sem haldið hefur verið hér á landi. Meðal keppenda verða enski stórmeistarinn Michael Adams (2.734) og Alexei Shirov (2.723), en hann er búsettur á Spáni. Þá verður gamla kempan Viktor Korchnoi (2.642) einnig meðal keppenda. Íslensku keppendurnir í þessu tíu manna móti verða Hannes Hlífar Stefánsson, Helgi Áss Grétarsson og Stefán Kristjánsson. Síðan má búast við að lið Hróksins í Íslandsmóti skákfélaga, 28. feb. - 1. mars, verði að mestu skipað hinum erlendu keppendum mótsins. Að lokum verður svo haldið gríðarlega sterkt, opið atskákmót í Borgarleikhúsinu 3.-5. mars. Það verður skipulagt af Hróknum og haldið til minningar um verkalýðsleiðtogann Guðmund J. Guðmundsson.

Daði Örn Jónsson Bragi Kristjánsson

Höf.: Daði Örn Jónsson Bragi Kristjánsson