VERÐI frumvarp það sem dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær að lögum geta þeir sem lokið hafa embættisprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík fengið réttindi sem héraðsdómslögmenn.

VERÐI frumvarp það sem dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, kynnti á ríkisstjórnarfundi í gær að lögum geta þeir sem lokið hafa embættisprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík fengið réttindi sem héraðsdómslögmenn. Samkvæmt núgildandi lögum eru þessi réttindi bundin við Háskóla Íslands.

Eftir að lagadeild tók til starfa við Háskólann í Reykjavík á síðasta ári var farið fram á að lögunum yrði breytt í þá veru sem ráðherra kynnti í gær. Í frumvarpinu segir m.a. að skv. núgildandi lögum sé það skilyrði sett að sá sem sækir um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður skuli hafa lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands. Ástæða hafi þótt til að breyta þessu þar sem Háskóli Íslands sé ekki lengur eini háskólinn á Íslandi sem kennir lögfræði. Skv. frumvarpinu getur því sá hlotið réttindi sem héraðsdómslögmaður sem hefur lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi við lagadeild háskóla sem viðurkenndur er af menntamálaráðuneytinu skv. lögum um háskóla. Í frumvarpinu er einnig lagt til að veita megi þeim lögmönnum héraðsdómslögmannsréttindi sem skráðir séu hér á landi og hafi starfað reglubundið með virkum hætti hér á landi í þrjú ár undir lögmannsheiti heimalands síns.