"Það þarf að vera minnst þriggja sekúndna bil á milli bíla."

EKUR þú of nálægt næsta bíl á undan? Ef svo er getur þú átt á hættu að valda aftanákeyrslu. Þú getur á einfaldan hátt prófað hvort fjarlægðin á milli þíns bíls og næsta bíls á undan sé nægilega mikil á eftirfarandi hátt: Þú ákvarðar staðsetningu næsta bíls á undan og telur: 1.001 - 1.002 - 1.003. Ef þú ert kominn langt fram fyrir þann stað sem næsti bíll á undan var á þegar þú endar að telja þá er fjarlægðin á milli bílanna ekki nægilega mikil. Það þarf að vera minnst þriggja sekúndna bil á milli bíla og meira þegar aksturskilyrði eru slæm. Núna fer í hönd sá árstími þegar innanbæjarárekstrar eru tíðir vegna slæmra akstursskilyrða. Rannsóknir sýna að um 30% þeirra sem lenda í innanbæjarákeyrslum þróa viðvarandi einkenni frá hálshrygg og/eða mjóbaki og aðliggjandi svæðum. Hreyfingin sem verður á mannslíkamanum við aftanákeyrslu tekur aðeins eitt lítið augnablik eða um 500 millisekúndur. Mjög tæknivæddur búnaður hefur verið þróaður til að mæla þessar hreyfingar. Rannsóknarteymi á mismunandi stöðum í Bandaíkjunum, Japan, Þýskalandi og Kanada hafa komist að nánast sömu niðurstöðu. Þessar rannsóknir sýna að það verður óeðlileg bylgjuhreyfing á hálshryggnun við aftanákeyrslu sem hálshryggurinn er ekki hannaður fyrir. Við aftanákeyrslu verður hálshryggurinn eins og S í laginu um 100 millisekúndum eftir að bílarnir rekast á. Þetta er því mjög ólíkt þeirri C-lögun sem er hálshryggnum eðlileg. Miklar líkur benda til að þessi óeðlilega hreyfing geti valdi tognun á hálsliðunum í vissum tilvikum. Þetta á sérstaklega við þegar sá sem keyrt er á er óviðbúinn og þegar höfuðið er snúið í árekstursaugnablikinu.

Hvað er til ráða? Bílaframleiðendur hafa verið tregir til að bæta öryggisbúnað bifreiða vegna aukins framleiðslukostnaðar og hærra bílaverðs. Rannsóknir beinast núna að því að minnka þann mun sem verður á hreyfingu höfuðsins og búksins og koma þannig í veg fyrir þá bylgjuhreyfingu sem verður á hálshryggnum. Höfuðið vegur um 4-5 kíló og virkar eins og slöngusteinn í enda hálshryggjar. Þetta veldur því að bylgjuhreyfingin á hálshryggnum verður 4-5 sinnum kröftugri en ella. Það sem þarf að gera er að hanna höfuðpúða sem hindrar hreyfingar höfuðsins og einnig þarf að hanna sætisbakið þannig að það gefi mátulega eftir. Þetta er nauðsynlegt til að þessir líkamshlutar hreyfist saman sem ein heild við aftanákeyrslu. Rannsóknir hafa þegar sýnt miklar framfarir í þessa átt. Það er þó enn nokkuð langt í land að þetta verði að veruleika vegna þess hve slíkur öryggisbúnaður er dýr. Annar kostur er að bæta læknisfræðilegar greiningaraðferðir og grípa til meðferðarúrræða sem koma í veg fyrir að svona stór hópur fólks (30%) þrói viðvarandi einkenni frá hryggjarsúlunni eftir bílákeyrslur. Þetta er kostur sem lítið hefur verið sinnt fyrr en á allra seinustu árum. Það er núna hægt að greina þessi meiðsl mun nákvæmar en áður þannig að meðferðin verður markvissari. Þriðji kosturinn og sá ódýrasti vegfarandi góður er að þú sýnir ábyrgð og tillitssemi í umferðinni. Þetta getur þú t.d. gert með því að aka ekki of nálægt næsta bíl á undan.

Eftir Eyþór Kristjánsson

Höfundur er fagstjóri Hreyfigreiningar.

Höf.: Eyþór Kristjánsson