"Í stuttu máli er sýningin forvitnileg og áhugaverð þar sem hún reynir að afmá mörkin milli skáldskaparþáttanna og forðast hefðbundið leikhús með því að sprengja sig út úr ramma veruleikans."
"Í stuttu máli er sýningin forvitnileg og áhugaverð þar sem hún reynir að afmá mörkin milli skáldskaparþáttanna og forðast hefðbundið leikhús með því að sprengja sig út úr ramma veruleikans."
Höfundur: Sigurður Pálsson. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson. Leiktjöld, búningar og ljós: Egill Ingibergsson og Móeiður Helgadóttir. Tónlist: Jón Hallur Stefánsson. Dramatúrg: Magnús Þór Þorbergsson. Myndband: Hjörtur Grétarsson. Hárgreiðsla: Óli Boggi. Förðun: Kristín Thors. Smiðjan, frumsýning 31. janúar.

FYRIR þá sem unna leikhúsinu ætti að vera regla að sjá alltaf sýningar Nemendaleikhússins. Þar er undantekningalaust hægt að sjá og finna þann gríðarlega kraft sem ólgar í leikurum framtíðarinnar. Leikurum sem þyrstir í að sýna og reyna það sem þeir hafa lært og upplifað í þrjú ár í leiklistardeild Listaháskólans áður en Nemendaleikhúsið tekur við á fjórða og síðasta árinu. Þar er draumaleikhúsið lagt upp í hendurnar á þeim og unnið með færu atvinnufólki sem á auðvitað einnig við um námið í skólanum.

Í draumaleikhúsinu eru gerðar tilraunir og á það sannarlega við hér; reglan er sú að skólinn fær leikskáld til að semja fyrir sig eitt af þeim þremur verkum sem eru sýnd yfir veturinn. Það sem er best við þessa sýningu hér er áræðnin sem felst í því að velja óvenjulegt tilraunaverk Sigurðar Pálssonar þar sem mörk veruleika og ímyndunar eru óljós og margslungin. Enginn hefðbundinn söguþráður er í verkinu heldur fer fram tveimur sögum í senn þar sem persónur mætast í nútíð og fortíð, draumi og vöku, minningum, veruleika og ímyndun. Eins og höfundur segir í vandaðri og ítarlegri leikskránni mætast í verkinu skáldskapargerðirnar þrjár; epík, lýrík og dramatík. Vandi leikstjórans er verulegur við uppsetningu á svo fljótandi texta en Rúnar Guðbrandsson er rétti maðurinn þar sem tilraunir með form og óhefðbundna nálgun hafa hugnast honum best sem vinnuaðferð. Í sýningunni kemur vel út sú aðferð Rúnars að vinna fyrst og fremst út frá leikaranum sjálfum þar sem líkaminn er hreyfiaflið og forsenda túlkunar með öllum sínum möguleikum. Af þessu leiðir að hver og einn leikari nýtur sín oft betur en í hefðbundnari túlkun og komast leikaraefnin átta þannig vel frá sínu í túlkun persónanna. Stefnumót Rúnars og Sigurðar kallar á fleiri spurningar en svör og er það vel í flestum tilvikum í sýningunni; leikhús sem virkar þannig að áhorfandinn geti túlkað sjálfur er flott leikhús. Hér er þó heldur mikið um lausa enda til þess að áhorfandinn geti tengt allar persónur; við tímann, við sjálfan sig, við aðrar persónur. Titill verksins, Tattú, vísar til nútímans þar sem tattóveringar eru mikið í tísku. Verkið er þó engan veginn hávaðasöm túlkun á æstum nútíma heldur þvert á móti kærkomin andstæða. Sýningin í heild er þrungin kyrrð sem aftur á móti felur í sér andstæðu sína: átök, streitu, leit og ófullnægju. Andstæður kallast á í sífellu en þar eiga fleiri listamenn stóran þátt. Rúnar hefur hér með sér sama kjarnann og starfaði með honum að Fröken Júlíu hjá Einleikhúsinu 2001 og Ragnarökum á vegum LabLoka síðastliðið sumar, þau Móeiði Helgadóttur, Egil Ingibergsson sem hanna leiktjöld, búninga og lýsingu, Jón Hall Stefánsson í tónlistinni og Magnús Þór Þorbergsson dramatúrg. Verkið er látið gerast inni í litlu herbergi sem er smíðað inn í stórt rýmið, allt gerist inni í þessum litla kassa sem í veruleikanum er fyrrverandi og tilvonandi kaffihús og núverandi tattústofa í bakhúsaþyrpingu við Hlemm. Segja má að þar séu einu beinu tengslin við þann veruleika sem við þekkjum. Hlýleg lýsing, gulur litur og munstur á veggjum og ótal myndir af fólki undirstrika enn frekar kyrrð og ró inni við en mattar gluggarúður sýna ekkert af því sem gæti verið fyrir utan og undirstrika þannig lokaðan heim. Tónlistin gefur þrunginni kyrrðinni enn meira vægi og er þetta í heildina smekklega unnið af hópnum. Látið fólk á vel heima inni í þessu andrúmslofti og skemmtilegt að sjá vídeó notað til að lífga við fólkið á veggjunum. Búningarnir undirstrika svo vel raunveruleika leikmyndarinnar og hæfa oftast persónum ágætlega.

Ekkert er þó sem sýnist og allt getur snúist fyrr en varir. Sigurður vinnur einmitt með þá staðreynd með sterkum vísunum í Galdra-Loft og tilraunir hans til að skilja mannssálina. Vikar er ungur eigandi Tattústofunnar og hreyfiafl í verkinu. Hann reynir að skilja tengsl líkama og sálar með því að tattúvera ungar stúlkur og brennimerkja sjálfan sig í sadó-
masókískum dulspekilegum anda. Það er skemmtilegt hvernig Sigurður vísar í Galdra-Loft með Vikari, og er það undirstrikað með útliti og klæðnaði, en í stað þess að særa fram anda framliðinna er það einstaklingurinn sem verður aðalatriðið, líkamsdýrkun nútímans verður að trúarlegri athöfn þar sem fólk leitar í sífellu að svörum og fullnægju. Það vantaði þó undirbyggingu í persónu hans, hann var of hlutlaus í byrjun til að æstar tilfinningar hans seinna meir væru alveg trúverðugar. Þó að Þorleifur Örn Arnarsson hefði úr litlu að moða til að byrja með sýndi hann vel í lokaatriði sínu þann kraft og innri óróleika sem Vikari er ætlað að búa yfir.

Falur, sem er leikinn af Davíð Guðbrandssyni, er önnur persóna sem er hreyfiafl í verkinu og eins konar sögumaður. Hlutverkið er mjög erfitt og vanþakklátt því að Falur tengir saman nútíð og fortíð, dána og lifandi. Persóna hans er vandmeðfarin fyrir leikarann, hann er maður sem á allt sitt undir móður sinni og eiginkonu sem togast á um hann, látnar og lifandi, hann lifir ekki fyrir sjálfan sig heldur fyrir þær og svo bætist dóttirin við. Það er sennilega freistandi að búa til grínpersónu úr þessu litlausa gauði sem Falur á að vera en sem betur fer fóru leikstjóri og leikari ekki þá leiðina þótt stundum örlaði á tilhneigingu til þess. Einhvern herslumun vantaði þó á svo þolandahátturinn væri trúverðugur þó að persónan ynni á með tímanum. Móður Fals og dóttur, Henríettu eldri og yngri, leikur Maríanna Clara Lúthersdóttir. Það er vel til fundið að tengja þær með sömu leikkonunni, þær eru andstæður og hliðstæður en hlutverkin hér eru sömuleiðis óskýr og þess vegna vandmeðfarin. Henríetta eldri varð aldrei mjög áhugaverð og má þar að hluta til kenna um afkáralegum búningi og gleraugum. Sú yngri var hins vegar betur úr garði gerð og þó að hlutverkið væri lítið kveikti Maríanna þar samúð og áhuga.

Drissa, kona Fals, er dáin í leikritinu og gegnir mikilvægu hlutverki sem tenging við nútíð og fortíð. Hún er framliðin persóna sem rabbar við fólk og rifjar upp sárar minningar sínar. Hlutverkið er skemmtilega þakklátt og olli Ilmur Kristjánsdóttir því með miklum sóma, það var hreint yndi að fylgjast með henni og lá við að hún stæli senunni í kyrrð sinni og dútli með tuskuna innan við gluggana sína. Örsmáar hreyfingar, raddbeiting, augnaráð, andvörpin og hitinn; allt var úthugsað og vandað. Drissa tengist ungu konunum sem koma á Tattústofuna til þess að láta setja á sig tattú eða taka það af. Þær sjá hana en aðrir ekki. Tengingin er sérlega skýr við Lilju sem Bryndís Ásmundsdóttir leikur. Eins og Drissa leitar Lilja að svörum vegna sárrar reynslu sinnar. Bryndís leið að nokkru fyrir það að meiri undirbyggingu vantaði í hlutverkið en sýndi óvissu og vanlíðan Lilju á sannfærandi hátt með kraftmiklum tilfinningum og flottri líkams- og raddbeitingu. Hin unga konan er María sem Esther Talia Casey leikur. Maríu er ætlað að vera tákn sakleysisins og andstæða Lilju að því leytinu en hliðstæða hennar þegar kemur að því að varpa ljósi á gerðir Vikars. Hlutverkið er ekki stórt en Esther sýndi skemmtilega kómíska takta og var óborganleg í hitabeltisatriðinu á móti Birni Thors í hlutverki Mudda.

Björn Thors fær hitt þakkláta hlutverkið í leiknum; Muddi er leigjandi Tattústofunnar og alger andstæða Vikars. Hann er lifir í núinu, nýtur vinnu sinnar, er einfaldur og glaður. Í stuttu máli glansaði Björn í hlutverkinu og var dásamlegur á móti öllum mótleikurum sínum en sérstaklega þeim Esther og Þorleifi. Hann var einhvern veginn ekkert nema líkami, stór og glaður og þurfti ekkert að finna í sér sálina. Hliðstæða hans í gleðinni og einfaldleikanum er svo Rós, sem María Heba Þorkelsdóttir leikur. Hún kom inn öðru hvoru, alveg að óvörum eins og bjartur stormsveipur, fulltrúi krúttkynslóðarinnar sem talar barnamál og er bara svo ánægð með allt, selur allt og kaupir allt. Persónan sjálf orkar tvímælis nema ef vera kynni til að tákna firrtan nútíma en María Heba var yndisleg í hlutverkinu, sem bauð bæði upp á kómík og kyrrð.

Það er erfitt að gera svo tilraunakenndri og flókinni sýningu góð skil í stuttri umfjöllun. Í stuttu máli er sýningin forvitnileg og áhugaverð þar sem hún reynir að afmá mörkin milli skáldskaparþáttanna og forðast hefðbundið leikhús með því að sprengja sig út úr ramma veruleikans. Það hefði mátt vinna betur með persónusköpun og tengsl persónannna en það breytir ekki því að eftir standa dulúð og sprengikraftur sem aðeins kyrrð augnabliksins vísar á. Það þarf heldur ekki að fá alltaf svör við öllu.

Hrund Ólafsdóttir