Enn einu sinni stefnir í milliríkjadeilur við nágrannaríkin vegna tilrauna Íslendinga í útlöndum til að flytja inn íslensk matvæli og halda blótveislur.

Enn einu sinni stefnir í milliríkjadeilur við nágrannaríkin vegna tilrauna Íslendinga í útlöndum til að flytja inn íslensk matvæli og halda blótveislur.

Nú síðast eru það Danir sem ætla að meina Íslendingum búsettum í Danmörku að halda í íslenska siði og borða íslenskan mat líkt og þeir eru vanir. Af fréttum mætti ætla að verið væri að biðja um innflutning á hættulegum vörum á borð við Parmaskinku, salamipulsur, ógerilsneydda osta eða jafnvel hrátt svínakjöt.

Sú er hins vegar ekki raunin. Um er ræða algengar neysluvörur sem íslenska þjóðin hefur lagt sér til munns um aldabil án þess að verða meint af: hrútspunga, sviðakjamma, hangikjöt og hákarl. Vörur sem um þessar mundir má finna í kjötborðum nær allra íslenskra verslana án þess að heilbrigðiseftirlit hlaupi upp til handa og fóta. Spyrja má, fyrst þessar vörur eru svona háskalegar að þær eru taldar ógna öryggi erlendra dýrastofna hvort það sama eigi við hér á landi. Við vitum hins vegar að svo er ekki. Það liggur einnig í augum uppi að ekki er verið að flytja inn þorramat til að fóðra danskt búfé.

Það skuggalegasta við þetta lúalega athæfi "vinaþjóðanna" er að þær bera fyrir sig tæknilegar reglur sem allir sjá að einungis eru yfirskin til að vernda innlenda framleiðslu. Gísli Halldórsson dýralæknir og yfirmaður inn- og útflutningseftirlits hjá landbúnaðarráðuneytinu segir í samtali við mbl.is á fimmtudag "að Norðmenn og Danir hefðu alltaf haft þorramat á hornum sér á meðan aðrar þjóðir hefðu tekið gild vottorð frá íslenska ráðuneytinu, og litið á þetta sem sérþarfir Íslendinga. Það hefði aldrei verið vandamál að senda þorramat til Svíþjóðar og Finnlands svo dæmi sé tekið."

Þessi framkoma stjórnvalda í Danmörku kemur sér mjög illa fyrir Íslendinga í útlöndum og raunar einnig fyrir danska áhugamenn um matarmenningu, sem fá nú ekki að gæða sér á íslensku matvælunum.

Líkt og Einar Rúnarsson, einn fulltrúanna í þorrablótsnefndinni, segir við Morgunblaðið: "Þessi samkoma hefur verið afar þýðingarmikil fyrir okkur Íslendinga sem erum búsettir erlendis. Undanþága fyrir innflutning á þorramat er að sjálfsögðu grunnurinn að árlegri þorraveislu hjá öllum Íslendingafélögunum."

En getum við í raun skilgreint okkur sem fórnarlömb í málinu? Eru Danir ekki að beita sömu rökum og Íslendingar beita þegar kemur að innflutningi matvæla frá Danmörku?