STEFFEN Damborg, framkvæmdastjóri danska kvennaliðsins Skovbakken/Brabrand frá Árósum, sagði í samtali við staðarblaðið Århus Stiftstidende í gær að samningar við íslenska handknattleiksþjálfarann Kristján Halldórsson væru á lokastigi.

STEFFEN Damborg, framkvæmdastjóri danska kvennaliðsins Skovbakken/Brabrand frá Árósum, sagði í samtali við staðarblaðið Århus Stiftstidende í gær að samningar við íslenska handknattleiksþjálfarann Kristján Halldórsson væru á lokastigi.

"Við höfum rætt saman um hríð og erum komnir það langt að ég tel að lokaniðurstaðan sé á borðinu. Ég reikna með því að geta lagt samninginn fyrir stjórn félagsins í næstu viku, en það er hennar að taka endanlega ákvörðun í málinu," sagði Damborg.

Kristján, sem þjálfar karlalið Haslum í Noregi, sagði við Morgunblaðið í gær að það væri rétt að hann væri með samningstilboð í höndunum. "Malið er þó ekki í höfn, ég á eftir að skoða það mjög vel næstu dagana," sagði Kristján. Hann fór með fjölskyldu sína til Árósa um síðustu helgi til að skoða aðstæður þar og sagði að sér litist vel á þær og að öll umgjörð í kringum kvennahandboltann í Danmörku væri glæsileg.

Ef af verður tekur Kristján við liðinu í sumar. Skovbakken/Brabrand er í fallbaráttu í dönsku úrvalsdeildinni en hefur styrkt leikmannahóp sinn verulega að undanförnu og markmiðið er að liðið verði komið í fremstu röð í deildinni á næsta tímabili.