*JULIAN R. Duranona leikur með þýska handknattleiksliðinu Wetzlar út þessa leiktíð en henni lýkur í lok maí. Duranona lék tvo leiki með Wetzlar fyrir jóla- og HM leyfi og stóð sig vel.
*JULIAN R. Duranona leikur með þýska handknattleiksliðinu Wetzlar út þessa leiktíð en henni lýkur í lok maí. Duranona lék tvo leiki með Wetzlar fyrir jóla- og HM leyfi og stóð sig vel. Síðan hefur framtíð hans verið í óvissu þar til félagið ákvað í gær að framlengja samninginn.

*GUILLAUME Warmuz

, 32 ára franskur markvörður, gekk í gær til liðs við Arsenal og samdi við félagið til vorsins. Allir markverðir Arsenal, David Seaman, Rami Shaaban og Stuart Taylor , hafa átt við meiðsli að stríða í vetur og Warmuz á að fylla í skarðið á varamannabekknum eins og með þarf.

* MIDDLESBROUGH gekk í gær frá leigusamningi við Derby County um Malcolm Christie og Chris Riggott, leikmenn með enska 21 árs landsliðinu. Þeir leika með Middlesbrough til vorsins og þá er reiknað með því að félagið kaupi þá af Derby fyrir um 400 milljónir króna.

* MICHAEL Ricketts, sóknarmaður frá Bolton , gekk einnig til liðs við Middlesbrough í gær. Félagið greiðir Bolton um 500 milljónir króna fyrir Ricketts sem fékk tækifæri með enska landsliðinu í fyrra en hefur ekki náð sér á strik í vetur.

* TERRY Venables , knattspyrnustjóri Leeds , sagði í gær að hann væri ekki búinn að gera upp hug sinn um hvort hann vildi halda starfinu áfram. Venables er afar óhress með að Leeds skyldi selja Robbie Fowler og Jonathan Woodgate . "Leikmennirnir sem eru eftir hjá félaginu skipta þó mestu máli og ég reyni að einbeita mér að þeim og næsta leik," sagði Venables á blaðamannafundi í gær en Leeds sækir Everton heim í dag.

* RUFUS Brevett , varnarmaður úr Fulham , gekk til liðs við annað Lundúnalið, West Ham , í gær. Kaupverð var ekki gefið upp. Brevett hefur leikið með Fulham í þremur deildum á undanförnum fimm árum.

* JIMMY Floyd Hasselbaink verður á ný í leikmannahópi Chelsea í dag þegar liðið mætir Tottenham í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hann hefur misst af síðustu tveimur leikjum liðsins vegna ökklameiðsla.

* HASSELBAINK og Eiður Smári Guðjohnsen verða væntanlega í fremstu víglínu og þá þarf Gianfranco Zola að líkindum að setjast á varamannabekkinn. Hasselbaink hefur skorað 10 mörk gegn Tottenham í 7 leikjum með Chelsea .

* SVERRIR Garðarsson, unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu, er kominn í raðir FH-inga á ný eftir að hafa verið í herbúðum Molde í Noregi í hálft annað ár og leikið þar með unglingaliðinu. Sverrir er 19 ára og hefur æft af fullum krafti með meistaraflokki FH að undanförnu.