Mikil andstaða ríkir í Evrópu við ráðagerðir um hernað gegn Írökum. Um 3.000 háskólanemar efndu til mótmæla við skrifstofu fulltrúa Bandaríkjanna í Genf í gær. Á spjaldi stúdentanna stendur:  "Stöðvið fjöldamorðin."
Mikil andstaða ríkir í Evrópu við ráðagerðir um hernað gegn Írökum. Um 3.000 háskólanemar efndu til mótmæla við skrifstofu fulltrúa Bandaríkjanna í Genf í gær. Á spjaldi stúdentanna stendur: "Stöðvið fjöldamorðin."
FUNDUR þeirra George W. Bush Bandaríkjaforseta og Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, í Camp David í gær var talinn geta haft úrslitaþýðingu fyrir þróun Íraksmálanna.

FUNDUR þeirra George W. Bush Bandaríkjaforseta og Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, í Camp David í gær var talinn geta haft úrslitaþýðingu fyrir þróun Íraksmálanna. Var gert ráð fyrir að leiðtogarnir tveir myndu ræða hver næstu skref yrðu og hversu langan tíma ætti að gefa vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna til að finna sannanir fyrir brotum stjórnar Saddams Husseins Íraksforseta á ályktun öryggisráðs SÞ sl. haust um gereyðingarvopn. Getum var leitt að því að Blair myndi á fundinum reyna að fá Bush til að samþykkja að öryggisráð SÞ fjallaði um málið áður en árás yrði hafin. Yrði þá reynt að fá samþykki ráðsins fyrir aðgerðunum.

Öryggisráðið krafðist þess í ályktun sem ber númerið 1441 að Írakar sýndu fram á að þeir hefðu ekki lengur gereyðingarvopn undir höndum og væru ekki að reyna að smíða slík vopn. Óþolinmæði Bandaríkjamanna gagnvart eftirlitsmönnunum hefur farið vaxandi og Bush og menn hans hafa oftar en einu sinni gefið í skyn að til greina komi að ráðist yrði á Írak án þess að öryggisráðið hafi heimilað aðgerðirnar. Mohammed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA), varaði í gær Íraka við því að neita að leyfa vopnaeftirlitsmönnum að yfirheyra íraska vísindamenn án þess að fulltrúar stjórnvalda í Bagdad væru viðstaddir. Bent hefur verið á að ákvæði um slíkar yfirheyrslur séu í ályktun nr. 1441 og þrjóskist stjórn Saddams enn við gæti farið svo að litið yrði á neitunina sem "skýlaust brot" á ályktuninni.

"Vikur, ekki mánuði"

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætlar að ávarpa öryggisráðið á miðvikudaginn og segir Bush að ráðherrann muni þá leggja fram traustar sannanir fyrir því að Saddam láti smíða gereyðingarvopn á laun og aðstoði auk þess hryðjuverkamenn, þ.ám. al-Qaeda-samtökin.

Bandaríkjamenn og Bretar hafa þegar sent eða ætla að senda á næstunni um 150.000 manna herlið til Persaflóa og þar er þegar fjöldi herskipa, meðal annars flugvélamóðurskip. Er fullyrt að allt verði til reiðu um miðjan febrúar. Bush sagði á fimmtudag að Írakar hefðu aðeins "nokkrar vikur, ekki mánuði" til að hlíta ályktuninni og komast þannig hjá hernaðarárás. Hann tók undir með þeim sem mælt hafa með því að Saddam færi í útlegð. "Leysa verður þetta mál til að tryggja friði," sagði forsetinn um Íraksdeiluna.

Þjóðverjar og Frakkar hafa ásamt Rússum andmælt því ákaft að gerð verði árás og sagt að ekki hafi fundist neinar ótvíræðar sannanir fyrir sekt Íraka, eftirlitsmenn þurfi að fá meiri tíma. En Rússar hafa síðustu daga látið í verði vaka að þeir gætu skipt um skoðun ef Írakar reyni að trufla starf eftirlitsmanna. Og á fimmtudag birtu leiðtogar átta Evrópuríkja, þ.ám. Breta, Spánverja og Ítala, opið bréf í 12 dagblöðum þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við stefnu Bandaríkjannna í málinu. Þykir bréfið sýna vel klofninginn meðal ráðamanna í Evrópu enda þótt þar sér víðast hvar mikil andstaða meðal almennings við árás. Bréfið styrkir mjög stöðu Blairs sem legið hefur undir ámæli í Verkamannaflokknum breska fyrir að styðja Bush.

Blair sagði á fimmtudag er hann bjó sig af stað til Washington að ef eftirlitsmönnunum tækist ekki að afvopna Íraka yrði að gera það með valdi, þ.e. hernaðarárás. Hins vegar virtist hann ekki taka undir þá skoðun Bush að ályktun SÞ frá í í haust gæfi Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra nægilega skýrt umboð til að hefja árás. Blair sagði að þörf væri á "annarri ályktun og ég tel að við þessar aðstæður muni hún ná fram að ganga".

Washington. AFP.